Fara í innihald

Súrnun sjávar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Áætluð breyting á sýrustigi sjávarins vegna losunar koltvísýings af manna völdum á milli 1700 og 1990

Súrnun sjávar á við lækkun á sýrustigi sjávar vegna athafna manna, þ.e. yfirstandandi lækkun vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu. Sjóvatn er örlítið basískt (pH > 7) en súrnun sjávar gerir það hlutlausara frekar en það verði súrt (pH < 7). Talið er að 30–40% af þeim koltvísýringi sem starfsemi manna losar út í loftið leysist upp í hafinu, ám og vötnum. Sökum áhrifa efnajafnvægis hvarfast hluti þessa koltvísýrings við vatnið og myndar kolsýru. Sumar þessar kolsýrusameindir hvarfast við vatnssameind og mynda tvíkarbónatjón og hýdróníumjón sem lækkar sýrustig sjávarins. Talið er að sýrustig sjávarins hafi lækkað úr 8,25 í 8,14 á tímabilinu 1751–1996.

Súrnun sjávar hefur slæmar afleiðingar á sjávardýr og getur meðal annars dregið úr efnaskiptastarfsemi og skaðað ónæmiskerfi þeirra. Einnig veldur súrnun sjávar kóralbleikingu og kemur í veg fyrir að kórallar og svif geti myndað kalsíumkarbónat. Þetta getur valdið því að kóralrif leysist upp. Súrnun sjávar hefur jafnframt áhrif á fæðukeðju sjávarins.

Þótt yfirstandandi súrnun sjávar sé af manna völdum hefur hafið súrnað áður af náttúrunnar völdum. Síðasta tilvikið var fyrir u.þ.b. 56 milljón árum en orsakir þess eru ekki þekktar.

Súrnun sjávar við Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Súrnun sjávar er miklu örari í hafinu nyrst í Atlantshafi en í heimshöfunum. Það er talið líklegt að sjór hér við land hafi súrnað meira eftir iðnvæðingu en heimshöfin. Breytingar verða mestar í yfirborði sjávar. Kalkmyndandi lífríki er sérstaklega viðkvæmt fyrir súrnun sjávar.

Kalkmettunarstig í sjó við Ísland er lágt af náttúrulegum ástæðum einkum vegna lágs sjávarhita norðarlega í Atlantshafi. Hlýnun sjávar vinnur á móti minnkandi kalkmettun vegna súrnunar. Á yfirborði sjávar við Ísland eru miklar árstíðasveiflur á sýrustigi, pH og kalkmettunarstigi. Í hafinu við Ísland eru margar kalkmyndandi lífverur og eru sumar þeirra nýttar svo sem hörpudiskur og kræklingur og kalkþörungar.[1][2][3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi (2018), 6. kafli Súrnun sjávar bls. 119
  2. AMAP, 2019. Arctic Ocean Acidification Assessment 2018: Summary for Policy-Makers. Arctic Monitoring and Assessment Programme (AMAP), Oslo, Norway. 16 p
  3. AMAP, 2014. Arctic Ocean Acidification 2013: An Overview. Arctic Monitoring and Assessment Programme (AMAP), Oslo, Norway. xi + 27 pp.