Streita

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hugtakið streita vísar til neikvæðrar tilfinningalegrar líðanar með tengdum hegðunar- og líffræðilegum breytingum sem tengjast skynjun einstaklingsins á atburðum eða hlutum. Streita er andstæða slökununar. Streituvaldar eru þeir atburðir sem vekja upp þessi viðbrögð.

Ítarlegri lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Það má orða það sem svo að það hvernig einstaklingurinn skynjar aðstöðu sína, s.s. atburði, hefur áhrif á hegðun hans og líffræðilega virkni. Því neikvæðar sem einstaklingurinn skynjar aðstöðu sína, því meiri líkur eru á því að hann finni til streitu. Þetta þýðir jafnframt að tveir einstaklingar geta skynjað sama atburð á mismunandi hátt þannig að einn einstaklingur getur orðið stressaður vegna einhvers sem veldur ekki streitu hjá öðrum einstaklingi. Dæmi um það er að einn nemandi getur stressast upp fyrir próf, s.s. vegna þess að hann telur námskeiðið of erfitt eða að hann telur sig ekki hafa lært nægjanlega vel undir það á meðan annar nemandi hlakkar til sama prófs, s.s. vegna þess að hann lítur á það sem áskorun. Það hvort einstaklingur skynjar atburð sem streituvaldandi veltur á því hvaða augum hann lítur atburðinn og hvaða úrræðum hann telur sig búa yfir. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á það hvernig atburðir eru skynjaðir. Dæmi um það er skapgerð, seigla, varnarhættir og félagslegur stuðningur. Það eru bæði sálfræðilegir, félagslegir og líkamlegir þættir sem hafa áhrif á streitu.

Streitueinkenni[breyta | breyta frumkóða]

Einkenni streitu geta verið margvísleg. Dæmi um einkenni sem geta gefið til kynna streitu eru: Einbeitingarleysi, tilfinning um að ráða ekki við aðstæður, lítið sjálfstraust, vandræði með svefn eða svefnleysi, hár blóðþrýstingur, höfuðverkur, meltingartruflanir, aukin áfengisneysla, breytt mataræði, flótti frá félagslegum og atvinnulegum skyldum. Einstaklingur þarf vanalega að þjást af einum eða fleiri ofantöldum einkennum til að teljast þjást af streitu.

Streita líður oft hjá, s.s. þegar streituvaldandi atburðurinn er ekki lengur til staðar. Hjálp frá sérfræðingi getur hins vegar verið gagnleg til að flýta því ferli eða koma því af stað. Meðal þeirra meðferða sem eru til staðar eru eftirfarandi:

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Stuðningsmeðferð[breyta | breyta frumkóða]

Vegna þess að flest viðbrögð við streitu fela í sér tilfinningu um ófullnægjandi getu og félagslega einangrun er hægt að hjálpa mörgum sem þjást af streitu með stuðningsmeðferð (e. supportive therapy) þar sem m.a. er hlustað á sjúklinginn og hann hvattur til að takast á við vandamál. Bæði sálaraflssinnar og húmanískir sálfræðingar leggja mikla áherslu á stuðningsmeðferð.

Lyf[breyta | breyta frumkóða]

Mörg lyf eru á markaðnum til að aðstoða fólk við að minnka streitu. Róandi lyf eru gagnleg, sérstaklega ef þau eru notuð ásamt stuðningsmeðferð. Ætíð verður þó að hafa í huga að lyf draga í mörgum tilfellum úr einkennum en eru ekki meðferð í sjálfu sér.

Slökunarmeðferð[breyta | breyta frumkóða]

Slökunarmeðferð getur gagnast vel við streitu. Með slökun lærir einstaklingurinn að stjórna sumum viðbrögðum sjálfráða taugakerfisins sem hefur áhrif á tilfinningalíf hans. Sem dæmi getur kvíði orsakast af þeirri tilfinningu þegar vöðvar dragast saman, líkt og þeir gera við streitu. Slökunarmeðferð felur í sér eftirtalin skref:

  1. Einbeita sér að ákveðnum hópi vöðva.
  2. Strekkja á vöðvum.
  3. Viðhalda strekkingu í 5 til 7 sekúndur.
  4. Segja sér að slaka á og á sama tíma að slaka á vöðvunum.
  5. Einbeita sér að hverjum hópi vöðva þegar maður slakar á.

Slökunarmeðferð er hægt að nota á margar raskanir en hún er sérstaklega áhrifarík þegar kemur að streitu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]