Mehmed 5.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Mehmed 5. Tyrkjasoldán

Mehmed 5. Reşâd (محمد خامس Meḥmed-i ẖâmis á Ottómantyrknesku) (2. nóvember 1844 – 3. júlí 1918) var 35. og næstsíðasti soldán Tyrkjaveldis. Hann var sonur Abdúl Mejid 1. soldáns.[1] Á eftir honum gerðist hálfbróðir hans, Mehmed 6., Tyrkjasoldán. Á níu árum hans á valdastól glataði Tyrkjaveldi öllum landsvæðum sínum í Norður-Afríku og Tylftareyjum (þ.á.m. Ródos) í stríði Tyrkja við Ítali og svo næstum öllu landsvæði veldisins í Evrópu vestan við Konstantínópel í fyrra Balkanstríðinu og fyrri heimsstyrjöldinni, sem átti eftir að leiða til hruns Tyrkjaveldisins fáeinum árum eftir að Mehmed lést.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Mehmed fæddist í Topkapıhöll í Konstantínópel.[3] Líkt og aðrir hugsanlegir ríkiserfingjar var hann alinn upp í kvennabúri hallarinnar fyrstu þrjátíu ár ævi sinnar. Í níu af þessum árum var hann alveg einangraður. Á þessum tíma fræddi hann sig um gamla persneska ljóðlist og varð sjálfur virt ljóðskáld. Á níunda afmælisdegi sínum var hann umskorinn við athöfn í sérstöku umskurðarherbergi í Topkapıhöll.

Valdatíð[breyta | breyta frumkóða]

Mehmed varð soldán þann 27. apríl árið 1909 en aðeins sem táknrænn leiðtogi án verulegra valda vegna breytinga sem komið hafð verið á eftir Ungtyrkjabyltingina árið 1908 og valdarán „pasjanna þriggja“ árið 1913.

Í valdatíð Mehmeds glataði Tyrkjaveldi öllum landsvæðum sem það átti eftir í Norður-Afríku (Tripolitaniu, Kýrenæku og Fezzan) til ítalska konungdæmisins í stríði við Ítali og nærri öllum evrópskum landsvæðum sínum (fyrir utan landskika vestan við Konstantínópel) í fyrra Balkanstríðinu.

Það mikilvægasta sem Mehmed gerði í stjórnmálum var að lýsa yfir jihadi gegn Bandamönnum þann 14. nóvember 1914 eftir að stjórn Tyrkjaveldis ákvað að ganga inn í fyrri heimsstyrjöldina í bandalagi við Miðveldin.[4] Þó var sagt að Mehmed væri sjálfur ekki hrifinn af vinahótum Enver Pasja hermálaráðherra við Þjóðverja.[5]

Þetta var í síðasta sinn sem viðurkenndur kalífi lýsti yfir jihadi, en kalífadæmi Tyrkjaveldis entist til ársins 1924. Yfirlýsing Mehmed hafði engin sýnileg áhrif á stríðið þótt fjölmargir múslimar byggju á þeim svæðum þar sem barist var. Múslimar tóku lítt alvarlega þá hugmynd að þátttaka í stríði kristinna þjóða gæti talist heilagt stríð. Arabar gengu jafnvel til liðs við Breta í stríðinu gegn Tyrkjum í uppreisn árið 1916.

Mehmed 5. var gestgjafi bandamanns síns, Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara, í Konstantínópel þann 15. október árið 1917. Hann var gerður marskálkur Prússlands þann 27. janúar 1916 og þýska keisaradæmisins þann 1. febrúar 1916.

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Mehmed 5. lést í Yıldız-höll þann 3. júlí 1918, þá 73 ára að aldri, aðeins fjórum mánuðum áður en heimsstyrjöldinni lauk.[6] Hann lifði því ekki nógu lengi til að sjá hrun Tyrkjaveldisins. Hann varði meirihluta lífs síns í Dolmabahçe-höll og Yıldız-höll í Istanbúl. Hann er grafinn í Eyüp-hverfi borgarinnar.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Abdulmecid, Coskun Cakir, Encyclopedia of the Ottoman Empire, ed. Gábor Ágoston, Bruce Alan Masters, (Infobase Publishing, 2009), 9.
  2. „Rusya Fransa ve İngiltere devletleriyle hal-i harb ilanı hakkında irade-i seniyye [Keisaraleg stríðsyfirlýsing á hendur Rússlandi, Frakklandi og Bretlandi, 11. nóvember, 1914 (29 Teşrin-i Evvel 1330), Takvim-i Vekayi, Nov. 12, 1914 (30 Teşrin-i Evvel 1330)."]. . Skoðað .
  3. The Encyclopædia Britannica, 7. bindi, ritstjóri Hugh Chisholm, (1911), 3; „Constantinople, the capital of the Turkish Empire“.
  4. Lawrence Sondhaus, World War One: The Global Revolution, (Cambridge University Press, 2011), 91.
  5. Chisholm, Hugh, ritstj. (1922).Mahommed V Encyclopædia Britannica (12. útgáfa). London & New York.
  6. Mehmed V, Selcuk Aksin Somel, Encyclopedia of the Ottoman Empire, 371.


Fyrirrennari:
Abdúl Hamid 2.
Tyrkjasoldán
(1909 – 1918)
Eftirmaður:
Mehmed 6.