Fara í innihald

Enver Pasja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Enver Pasja
Stríðsmálaráðherra Tyrkjaveldis
Í embætti
4. janúar 1914 – 13. október 1918
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. nóvember 1881
Konstantínópel, Tyrkjaveldi
Látinn4. ágúst 1922 (40 ára) Sovéska alþýðulýðveldið Búkaran (nú Tajikistan)
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurSamstöðu- og framfaranefndin
MakiNaciye Sultan (g. 1914)
HáskóliHarp Akademisi (1903)
Undirskrift

Ísmael Enver Pasja (اسماعیل انور پاشا‎ á ottómantyrknesku; İsmail Enver Paşa á nútímatyrknesku; 22. nóvember 1881 – 4. ágúst 1922) var tyrkneskur hernaðarleiðtogi og foringi Ungtyrkjabyltingarinnar árið 1908. Hann var helsti leiðtogi Tyrkjaveldisins í Balkanstríðunum (1912–13) og fyrri heimsstyrjöldinni (1914–18). Á ferli sínum var hann þekktur undir æ háleitari heiðurstitlum, þ.á.m. Enver Efendi (انور افندي‎), Enver Bey (انور بك‎) og loks Enver Pasja, en pasja var heiðursnafnbót sem herleiðtogar Tyrkjahers fengu þegar þeim hlotnaðist háhershöfðingjatign.

Eftir valdarán árið 1913 varð Enver þann 4. janúar hermálaráðherra Tyrkjaveldis og myndaði þremenningabandalag „pasjanna þriggja“ (ásamt Talaat Pasja og Djemal Pasja) sem réð lögum og lofum í veldinu frá árinu 1913 til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918. Sem hermálaráðherra og óformlegur yfirleiðtogi hersins (hið formlega yfirvald hersins lá hjá soldáninum) var Enver voldugasti stjórnmálamaður í ríkisstjórn Tyrkjaveldis. Það var hann sem tók ákvörðunina um inngöngu Tyrkja í fyrri heimsstyrjöldina í bandalagi við Þýskaland og Miðveldin. Ásamt Talaat og Djemal var Enver heilinn á bak við þjóðarmorð Tyrkja á Armenum og er því talinn ábyrgur fyrir dauða 800.000 til 1.800.000 Armena.

Fyrir fyrri heimsstyrjöldina var Enver þekktur sem „hetja byltingarinnar“ og Evrópubúar kölluðu Tyrkland oft „Enverland“. Enver var heitur stuðningsmaður tyrkneskrar þjóðernishyggju sem er talin ein kveikjan að þjóðarmorðinu gegn Armenum.

Enver flúði land þegar ljóst var að Tyrkjaveldi væri sigrað árið 1918. Þegar ný ríkisstjórn tók við þann 1. janúar 1919 var Enver ákærður og dæmdur til dauða in absentia fyrir að „steypa landinu í stríð án fullgildrar ástæðu, fyrir að standa fyrir nauðflutningum Armena og fyrir að yfirgefa landið án leyfis.“

Enver fór fyrst til Þýskalands og síðan til Moskvu þar sem hann gerðist milliliður Þjóðverja við nýju Bolsévikastjórnina og hitti m.a. Vladimír Lenín. Árið 1921 reyndi Enver að snúa aftur til Tyrklands til að aðstoða nýju ríkisstjórnina í tyrkneska frelsisstríðinu. Þá var keppinautur Envers, Mústafa Kemal, kominn til áhrifa í Tyrklandi og synjaði hann Enver inngöngu í landið.

Enver fór þess í stað á fund Leníns og fékk það verkefni að kveða niður uppreisnir í Túrkistan. Þegar þangað var komið gekk Enver hins vegar í lið með uppreisnarmönnunum og hugðist notfæra sér þá til að gera draum sinn um stærra þjóðríki fyrir allar þjóðir af tyrkneskum uppruna að veruleika. Enver gerðist leiðtogi uppreisnarhersins og tók sér titilinn „Emír Túrkistan“. Áætlanir hans urðu þó fyrir lítið því hann var skotinn til bana í bardaga þann 4. ágúst 1922.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]