Leynilögga
Leynilögga er íslensk grín-spennumynd frá 2021 sem varð næst-tekjuhæsta kvikmynd ársins 2021 á Íslandi og tekjuhæsta íslenska myndin á frumsýningarhelgi frá upphafi mælinga. Myndin fjallar um Bússa, lögregluþjón sem afneitar kynhneigð sinni og verður ástfanginn af samstarfsfélaga sínum, Herði, á meðan hann rannsakar bankarán þar sem engu virðist hafa verið stolið. Hannes Þór Halldórsson leikstýrði. Handritshöfundar voru Hannes Þór Halldórsson, Nína Petersen og Sverrir Þór Sverrisson en söguna skrifuðu Hannes, Auðunn Blöndal og Egill Einarsson. Framleiðendur voru Elli Cassata, Lilja Ósk Snorradóttir og Snorri Þórisson. Pegasus framleiddi myndina ásamt Stöð 2 og Sambíóunum. Myndin var frumsýnd þann 20. október 2021.
Myndin var næst-vinsælasta kvikmyndin á Íslandi árið 2021, á eftir No Time to Die. Hún hlaut 76.375.016 milljónir og með 41 þúsund í aðsókn.[1] Variety kallaði myndina fyndna en ófrumlega.[2]
Leikarar
[breyta | breyta frumkóða]- Auðunn Blöndal (Bússi)
- Egill Einarsson (Hörður)
- Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (Þorgerður)
- Vivian Ólafsdóttir (Stefanía)
- Sverrir Þór Sverrisson (Klemenz)
- Björn Hlynur Haraldsson (Rikki)
- Júlíana Sara Gunnarsdóttir (Lilja)
- Steinþór Hróar Steinþórsson (Svavar)
- Gunnar Hansson (Softý)
- Jón Gnarr (Forsætisráðherra)
- Jón Jónsson (Halli)
Framleiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndin á bak við kvikmyndina fæddist í sjónvarpsþáttunum Auddi & Sveppi árið 2011, þar sem að þáttastjórnendurnir Auðunn Blöndal og Sverrir Þór Sverrisson kepptust í að búa til sýnishorn á gervikvikmynd, og svo var kosning á milli sýnishornanna og það sýnishorn sem að vann myndi verða gerð kvikmynd upp úr.[3] Svo fór að sýnishorn Auðuns, Leynilögga sem að var leikstýrð af markverðinum og leikstjóranum Hannesi Þór Halldórssyni vann keppnina. Eftir að sýnishornið kom út höfðu Sambíóin og Sena samband og spurðu hvort að ekki væri áhugi fyrir að framleiða kvikmynd upp úr sýnishorninu. Í kjölfarið hófst vinna að fyrsta uppkasti að handriti, en ekki fór verkefnið lengra en það. Árið 2014 flutti Hannes Þór til Noregs og gerðist því ekkert meira með verkefnið.[4]
Árið 2019 flutti Hannes Þór aftur til Íslands til þess að spila með Vali. Í kjölfarið var ákveðið að framleiða loksins kvikmyndina með framleiðslufyrirtækinu Pegasus. Til stóð að breyta verkefninu í sjónvarpsþætti á tímabili, en á endanum var ákveðið að framleiða kvikmynd.[4] Tökur hófust á Laugardalsvelli í Reykjavík þann 22. september 2020 á meðan að íslenska kvennalandsliðið mætti Svíþjóð.[5][6] Tökur enduðu þann 15. desember sama ár.[7] Tökurnar fóru fram á tuttugu dögum á mjög takmörkuðu fjármagni í miðjum kórónuveirufaraldri og við tökur á bílaeltingarleik var því ekki hægt að loka götum, því fékk Lögreglan mikið af símtölum um brjálaðan mann með skammbyssu á Kringlumýrarbraut.[8]
Útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Upphaflega átti myndin að vera sýnd á Íslandi þann 20. ágúst 2021 en því var frestað til 20. október vegna sóttvarnarsjónarmiða. Sýningar enduðu á Íslandi fyrir jól 2021 og kom myndin út á VOD-leigum Símans og Vodafone þann 25. desember sama ár.
Myndin hét Cop Secret á ensku og 2 Bad Cops á japönsku þegar myndin var dreifð erlendis frá.
Framhald
[breyta | breyta frumkóða]Í október 2021 sagði Auðunn í viðtali að það væri möguleiki á framhaldi. Hann sagði svo að Pétur Jóhann Sigfússon myndi líklega leika í framhaldsmyndinni.[9]
Í viðtali við Sverri Þór Sverrisson og Hannes Þór Halldórsson í fréttum Stöðvar 2 þann 22. nóvember 2022 sögðu þeir að það væri byrjað að vinna á framhaldsmyndinni sem myndi heita Leynilögga 2 og myndi líklega koma út jólin 2024.[10]
Í desember 2024 greindi Hannes Þór Halldórsson frá því að upphaflega hefði hann viljað gera sjónvarpsþætti um gerð gervikvikmyndar sem átti að heita Leynilögga 2. Hugmyndin var sú að síðar kæmi út framhaldsmynd, Leynilögga 3, þannig að kvikmyndirnar yrðu alls tvær en að auki yrðu sjónvarpsþættir. Sjónvarpsþættirnir hefðu því fjallað um gerð kvikmyndar sem aldrei var gerð. Hannes sagði að ekki hefði fengist fjármagn í þetta verkefni og þess vegna væri unnið að beinu framhaldi af Leynilöggu.[11]
Vinna að handriti hófst í apríl 2025 samkvæmt Instagram reikningi Auðuns Blöndals.[12]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Vinsælustu bíómyndirnar 2021, tekjur aukast um rúm 62%“. Klapptré. 18. janúar 2022.
- ↑ Weissberg, Jay (17. ágúst 2021). „'Cop Secret' Review: A Derivative Action Movie Parody Set in Iceland for a Change“. Variety.
- ↑ „Trailer-keppni Audda & Sveppa: Leynilögga - Vísir“. visir.is. Sótt 2 maí 2025.
- ↑ 4,0 4,1 Sandnes, Karl Olav (2018). Paul Perceived. Mohr Siebeck. ISBN 978-3-16-156102-3.
- ↑ „Ísland mætir Svíþjóð í dag“. www.ksi.is. Sótt 2 maí 2025.
- ↑ Pálsson, Stefán Árni (30. september 2020). „Austurstrætinu lokað fyrir tökur á Leynilöggunni - Vísir“. visir.is. Sótt 2 maí 2025.
- ↑ „Instagram“. www.instagram.com. Sótt 2 maí 2025.
- ↑ „Brjálaður maður með byssu“. www.mbl.is. Sótt 2 maí 2025.
- ↑ Feykir. „Leynilögga á leið í bíó: „Það er víst byrjað að ræða framhald..."“. Feykir.is. Sótt 30 janúar 2022.
- ↑ Pétursdóttir, Bjarki Sigurðsson,Lillý Valgerður (22 nóvember 2022). „Byrjaðir að vinna að Leynilöggu 2 - Vísir“. visir.is. Sótt 23 nóvember 2022.
- ↑ Óskarsdóttir, Svava Marín (12 nóvember 2024). „„Þannig það yrði bara til Leynilögga 1 og 3" - Vísir“. visir.is. Sótt 11. desember 2024.
- ↑ „Instagram“. www.instagram.com. Sótt 28 apríl 2025.