Katrín mikla
| ||||
Katrín 2.
| ||||
Ríkisár | 9. júlí 1762 – 17. nóvember 1796 | |||
Skírnarnafn | Sophie Augusta Frederike von Anhalt-Zerbst | |||
Fædd | 2. maí 1729 | |||
Stettin, Pommern, Prússlandi | ||||
Dáin | 17. nóvember 1796 (67 ára) | |||
Vetrarhöllinni, Sankti Pétursborg, Rússlandi | ||||
Gröf | Dómkirkja Péturs og Páls | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Kristján Ágúst fursti af Anhalt-Zerbst | |||
Móðir | Jóhanna Elísabet af Holstein-Gottorp | |||
Eiginmaður | Pétur 3. Rússakeisari | |||
Börn | 4, þ. á m. Páll 1. |
Katrín 2., jafnan kölluð mikla (Екатерина II Великая (Jekatérína II Vélíkaja), 2. maí 1729 – 17. nóvember 1796, fædd sem Sophie Augusta Frederike von Anhalt-Zerbst) — ríkti sem keisaraynja Rússlands í rúm 34 ár frá 28. júní 1762 til dauðadags. Hún var fjarskyld Gústafi þriðja og Karli þrettánda Svíakonungum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Katrín fæddist undir nafninu Soffía Ágústa Friðrikka af Anhal-Serbst í Stettin í Pommern árið 1729.[1] Móðir Soffíu, Jóhanna Elísabet af Holstein-Gottorp, sýndi henni lítinn áhuga en eyddi aftur á móti miklum tíma með bróður hennar, Vilhjálmi Kristjáni Friðrik. Hann dó svo þegar hann var 12 ára gamall. Þegar Soffía var barnung að aldri var hún trúlofuð frænda sínum, Karli Ulrich, sem kallaður var Pétur stórhertogi og var erfingi að rússnesku keisarakrúnunni. Talið er að Friðrik mikli Prússakonungur hafi staðið að baki ráðahagnum og hafi gert sér í hugarlund að lág staða Soffíu meðal konungsættaðra Þjóðverja myndi auðvelda Þjóðverjum að hafa áhrif á hana síðar meir.[1]
Trúlofun Soffíu og Péturs var opinberuð árið 1744 og þau gengu í hjónaband næsta ár. Til þess að innsigla stöðu sína sem verðandi keisaradrottning Rússlands tók Soffía upp rússneskan rétttrúnað og hlaut nýtt nafn, Jekaterína Aleksejevna.[1]
Pétur var veikgeðja, áfengissjúkur, þrjóskur og uppreisnargjarn. Katrín þótti ekki mjög fríð, en hafði mikla persónutöfra, var atorkusöm auk þess að vera sérstaklega gáfuð. Hjónaband þeirra Péturs entist í 18 ár og niðurlægði hann Katrínu ítrekað. Katrín varð því fyrir miklum vonbrigðum með hjónabandið. Hún eignaðist þrjú börn og það er vafi á um að þau hafi öll verið með Pétri. Talið er að hún hafi haldið reglulega framhjá Pétri með þremur mönnum meðan á hjónabandinu stóð en alls hafi hún átt 12 elskhuga yfir ævina. Sá fyrsti þeirra var herbergisþjónninn Sergej Saltykov. Ástarsamband þeirra var opið leyndarmál meðal rússnesks hefðarfólks en Pétur lét sér fátt um finnast enda hafði hann ímugust á konu sinni.[1]
Fyrsta barn Katrínar var Páll Petróvítsj stórhertogi, sem fæddist árið 1754. Elísabet keisaraynja lét taka Pál frá móður sinni og tók Katrín aðskilnaðinn mjög nærri sér. Opinberlega var Páll skilgetinn sonur Katrínar með Pétri en Katrín átti síðar eftir að gefa í skyn að hann væri í raun sonur hennar með Saltykov.[2] Annað barn Katrínar var Aleksej Grígorjevítsj Bobrínskíj og þriðja var Anna Petrovna. Anna var aðeins eins og hálfs árs þegar hún dó en ekki er vitað hvað olli andlátinu.
Valdarán Katrínar
[breyta | breyta frumkóða]Elísabet keisaraynja lést í byrjun ársins 1762. Pétur varð þar með nýr keisari Rússlands og Katrín varð keisarafrú hans. Um þessar mundir geisaði sjö ára stríðið í Evrópu en Pétur, sem hafði alist upp í Þýskalandi og var mikill aðdáandi Friðriks mikla, andstæðings Rússa í styrjöldinni, var fljótur að semja um afar óhagstæðan frið við Prússa. Þetta gerði Pétur strax mjög óvinsælan meðal rússneskra aðalsmanna. Katrín var orðin mun vinsælli þar sem hún þótti hafa lagt sig fram við að aðlagast rússneskum siðum og menningu. Auk þess naut hún áhrifa meðal rússneskra herforingja vegna ástarsambands síns við hershöfðingjann Grígoríj Orlov.[1] Katrín leiddi því hallarbyltingu gegn Pétri um vorið árið 1762 er Pétur var fjarverandi frá Sankti Pétursborg.
Pétur afsalaði sér krúnunni og þann 9 júlí 1762 lét Katrín krýna sig keisaraynju og einvald í Rússlandi í dómkirkjunni í Kazan. Pétur var myrtur átta dögum síðar og talið er að einhver af stuðningsmönnum Katrínar hafi verið þar að verki. Gjarnan er talið að stuðningsmaður Katrínar, Aleksej Orlov (bróðir Grígoríjs) hafi framið morðið í greiðaskyni við Katrínu og er til stuðnings þess vísað til bréfs sem fannst eftir dauða hennar.[3]
Valdatíð (1762–1796)
[breyta | breyta frumkóða]Sem keisaraynju var Katrínu mjög í mun að stjórna ríkinu í anda upplýsts einveldis. Hún var vel lesin í bókmenntum og heimspekiritum Upplýsingarinnar og hún átti vingott með frægum menntamönnum á borð við Voltaire og Diderot. Hún bauð franska rithöfunda velkomna til Rússlands, styrkti unga Rússa til náms í Evrópu og lét byggja fjölda nýrra háskóla og leikhúsa.[1] Meðal annars lét hún stofna rússnesku Akademíuna árið 1783 og fól henni það verk að semja sérstaka Orðabók rússneskrar tungu til þess að staðla rússneska tungumálið og gera það nothæft á alþjóðavettvangi.[4]
Árið 1762 setti Katrín á fót sérstaka löggjafarnefnd til þess að semja heildarlög fyrir Rússaveldi. Hún skrifaði sjálf leiðbeiningar fyrir nefndina og byggði þær á lestri sínum á hugmyndum heimspekinganna Montesquieu og Beccaria. Hún létti einnig á skattbyrði rússnesku borgarastéttarinnar og stuðlaði að aukinni framleiðslu í landinu. Fyrir vikið margfaldaðist vöruútflutningur frá Rússlandi.[1] Árið 1767 kallaði Katrín saman fulltrúasamkomu til þess að staðfesta nýjan lagabálk þar sem meðal annars var tilgreint að Rússland væri evrópskt ríki.[4]
Katrín hafði hug á að koma á frjálslyndisumbótum í rússnesku samfélagi og á að afnema bændaánauðina sem hélt bændastéttinni í viðjum. Erfitt reyndist hins vegar að gera róttækar breytingar á rússnesku samfélagi fyrir tilstilli ríkisvaldsins þar sem aðallinn var mjög mótfallinn breytingum á kjörum bænda. Árið 1773 gerðu rússneskir bændur meiriháttar uppreisn gegn Katrínu undir forystu Don-kósakka að nafni Jemeljan Púgatsjov. Púgatsjov þóttist vera hinn látni eiginmaður Katrínar, Pétur 3. Rússakeisari, og gerði tilkall til keisarakrúnunnar undir hans nafni. Það tók rússneska keisaraherinn tæp tvö ár að vinna bug á uppreisnarsveitum Púgatsjovs en vegna uppreisnarinnar varð Katrín afhuga frekari tilraunum til þess að koma á róttækum samfélagsbreytingum í Rússlandi.[4]
Rússar unnu glæsta hernaðarsigra og þöndu veldi sitt verulega út á stjórnartíð Katrínar. Árin 1772 til 1775 gerði Katrín samninga við Prússa og Austurríkismenn um að skipta Póllandi milli veldanna þriggja. Pólsk-litháíska samveldið var þurrkað af kortinu í þremur áföngum árin 1772, 1793 og 1795. Rússar fóru einnig í suðaustur til Kákasus, inn á áhrifasvæði Tyrkja og Persa. Katrín háði tvö stríð gegn Tyrkjaveldi; hið fyrra árin 1768–1774 og hið seinna árin 1787–1792. Rússar unnu bæði stríðin og tryggðu sér með þeim aðgang að Svartahafi með innlimun sinni á Krímkanatinu frá Tyrkjum.[5]
Á efri árum fylgdist Katrín grannt með gangi mála í Frakklandi þegar franska byltingin skall á. Hún taldi stjórnleysi ríkja í Frakklandi og viðraði hugmyndir um að lönd Evrópu skyldu gera sameiginlega innrás í Frakkland til að endurreisa franska konungdæmið.[6] Katrín dó úr heilablóðfalli þegar hún var 67 ára gömul og var þá af mörgum talin fremst í hópi konunga og keisara Evrópu.[7]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Frægasti elskhugi Katrínar var herforinginn Grígoríj Potemkín, sem stjórnaði ríkinu lengi við hlið hennar sem eins konar óformlegur meðkeisari.[8] Þau urðu elskendur árið 1774 og gjarnan hefur verið talið að þau hafi gifst á laun.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Katrín mikla“. Morgunblaðið. 18. febrúar 1993. Sótt 28. janúar 2019.
- ↑ Zagare, Liena (18. ágúst 2005). „Dangerous Liaisons“. Arts+. The New York Sun (enska). bls. 15. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2016. Sótt 17. febrúar 2016. „[...] it is very strongly suggested, that the later Romanovs were not, in fact, Romanovs.“
- ↑ „Fátæka og ófríða stúlkan, sem varð drottning“. Tíminn. 24. desember 1967. bls. 1136-1139; 1150.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Tony Lentin (18. desember 1999). „Katrín mikla snýr aftur“. Morgunblaðið. Sótt 28. janúar 2019.
- ↑ Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. bls. 186.
- ↑ Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. bls. 223.
- ↑ Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. bls. 226.
- ↑ Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. bls. 121.
- ↑ Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. bls. 129.
Heimildaskrá
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Þ. Þór (2018). Katrín mikla: Konan sem breytti Rússlandi. Hella: Urður bókafélag. ISBN 978-9935-9194-9-6.
- „Catherine II“. biography.com (enska). Biography.com. 31. október 2017. Sótt 12. nóvember 2017.
- Zoé Oldenbourg-Idalie (15. nóvember 2017). „Catherine the Great“. britannica.com (enska). Encyclopedia Britannica. Sótt 12. nóvember 2017.
Fyrirrennari: Pétur 3. |
|
Eftirmaður: Páll 1. |