Fara í innihald

Lafði Jane Grey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jane Gray)
Lafði Jane Grey.

Lafði Jane Grey (1536 eða 153712. febrúar 1554 var drottning Englands í nokkra daga í júlímánuði 1553. Margir telja hana þó ekki með í þjóðhöfðingjaröðinni.

Lafði Jane var elsta dóttir Henry Grey, hertoga af Suffolk, og konu hans Frances Brandon. Lafði Frances var dóttir Maríu prinsessu, yngri systur Hinriks 8., og Hinrik 7. var því langafi lafði Jane. Hún hlaut mjög strangt uppeldi hjá móður sinni en var mjög bókelsk og fékk góða menntun, var raunar sögð ein lærðasta kona Englands. Tæplega tíu ára gömul var hún send í fóstur til Katrínar Parr, konu Hinriks 8., og kynntist þar frændsystkinum sínum, börnum konungs. Eftir dauða Katrínar 1548 fór hún aftur til foreldra sinna. Þann 21. maí 1553 gekk hún að eiga Guildford Dudley lávarð, þriðja son hertogans af Norðymbralandi, sem þá var valdamesti maður Englands.

Samkvæmt ríkiserfðalögum sem Hinrik 8. hafði látið setja 1543 átti Játvarður sonur hans að erfa ríkið, ef hann dæi barnlaus færi krúnan til Maríu Túdor og síðan Elísabetar, systra hans, en ef öll börn Hinriks dæju barnlaus skyldu karlkyns afkomendur Frances Brandon erfa krúnuna. En þegar Játvarður lá á banasænginni 1553 gerði hann erfðaskrá þar sem hann útnefndi erfingja Maríu föðursystur sinnar arftaka sína. Þetta var trúlega vegna þess að hann vildi tryggja að þjóðhöfðingjar Englendinga yrðu mótmælendur. Erfðaskráin var þó tæpast lögleg, þar sem Játvarður var aðeins 15 ára, auk þess sem konungur hafði líklega ekki vald til að ráðstafa ríkiserfðum þvert gegn lögum sem þingið hafði sett.

Játvarður 6. dó 6. júlí 1553 og fjórum dögum seinna lét hertoginn af Norðymbralandi þingið lýsa lafði Jane Grey drottningu Englands og hún tók sér aðsetur í Lundúnaturni. En níu dögum síðar hafði María Túdor aflað sér nægilegs stuðnings til að geta haldið innreið sína í London og fengið þingið til að lýsa sig hina réttu drottningu. María hélt Jane og manni hennar föngnum í Lundúnaturni en hertoginn af Norðymbralandi var hálshöggvinn 22. ágúst.

Jane og maður hennar voru bæði sökuð um landráð og dæmd til dauða 13. nóvember 1553. Þau voru þó ekki tekin af lífi strax og ýmislegt bendir til þess að María hafi ætlað að þyrma lífi frænku sinnar. En þegar faðir Jane tók þátt í uppreisn mótmælenda í janúar 1554 voru örlög Jane ráðin og hún var hálshöggvin ásamt manni sínum 12. febrúar. Faðir hennar var tekinn af lífi viku síðar.

Misjafnt er hvort veldistími Jane er talinn hefjast 6. júlí, þegar Játvarður 6. dó, eða 10. júlí, þegar hún var lýst drottning. Því er hún ýmist kölluð níu daga drottningin eða þrettán daga drottningin.


Fyrirrennari:
Játvarður 6.
Drottning Englands
(1553 – 1553)
Eftirmaður:
María 1.