Hasselt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Limburg
Flatarmál: 102,9 km²
Mannfjöldi: 75.579 (1. janúar 2013)
Þéttleiki byggðar: 734/km²
Vefsíða: [1] Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
Borgarmynd

Hasselt er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg flæmska héraðsins Limburg. Íbúar eru 76 þús (1. janúar 2013) og eru hollenskumælandi.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Albert-skurðurinn í Hasselt

Hasselt liggur við ána Demer og Albert-skipaskurðinn í norðausturhluta Belgíu, nánast í miðju héraðinu Limburg. Næstu stærri borgir eru Genk til norðausturs (10 km), Maastricht í Hollandi til suðausturs (25 km), Liege til suðurs (45 km) og Brussel til vesturs (80 km). Mikill landbúnaður er í kringum borgina. Fyrir norðan miðborgina er höfn í Albert-skipaskurðinn, en þaðan er hægt að sigla til árinnar Maas í austurátt og til Antwerpen í vesturátt.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerkið er tvískipt. Til vinstri eru rendur greifadæmisins Loon, sem áður var á þessu svæði. Til hægri eru tvö heslitré, en það er heiti borgarinnar. Tréin koma fyrir á innsiglum þegar á 15. öld, en núverandi samsetning kom fyrst fram 1625. Skjaldarberi er hjörtur, en neðst er borði með áletruninni SPQH (Senatus PopulusQue Hasselsis; ísl: Ráð og fólk borgarinnar Hasselt). Skjaldarmerkið var veitt 1840, ári eftir að borgin varð formlega belgísk.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Hasselt er dregið af germanska orðinu Hasaluth, sem merkir hesliviður.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Hasselt 1759

Hasselt myndaðist á 7. öld á verslunarleiðinni milli Brugge og Maastricht. Bærinn kom fyrst við skjöl 1165 og hlaut stuttu síðar almenn borgarréttindi. 1232 voru þau réttindi staðfest af Arnold IV greifa af Loon. Í kjölfarið óx borgin hratt og varð brátt að stærstu borg greifadæmisins (þótt ekki væri hún höfuðborg þess). Hasselt kom þó lítið við sögu í styrjöldum Niðurlanda næstu aldir. Eftir fall Napoleons 1815 var konungsríki Niðurlanda stofnað. En 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Belgar tóku allt héraðið Limburg eignarnámi í óþökk Hollendinga. Hasselt varð að bráðabirgðahöfuðborg Limburgs, þar sem Maastricht var enn á valdi Hollendinga. Hollendingar brugðust við með því að senda herlið suður til Limburg. Í orrustunni við Hasselt 8. ágúst 1831 sigruðu Hollendingar, sem og í nokkrum öðrum smærri orrustum. Þegar Frakkar skárust í leikinn, hörfuðu Hollendingar frá austurhluta Limburgs. Þegar samningar tókust um sjálfstæði Belgíu 1839 var ákveðið að splitta Limburg. Vesturhlutinn tilheyrði Belgíu og varð Hasselt þá formlega höfuðborg héraðsins. Austurhlutinn, með Maastricht að höfuðborg, tilheyrði Hollendingum áfram. Stór hluti efnahags borgarinner er Genever framleiðsla (áfengi gert úr einiberjum). Albert-skipaskurðurinn var opnaður 1939 og strýkur hann norðurhluta borgarinnar. Skurðurinn skapaði mörg störf, beint og óbeint, við vöruflutninga og iðnað. Stærsta verksmiðja borgarinnar tilheyrir Philips-samstæðunni, en þar starfa í kringum 5000 manns. 1971 var háskóli (Universiteit Hasselt) stofnaður í borginni.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Eitt af sviðum Pukkelpop-tónlistarhátíðarinnar

Pukkelpop er heiti á einni stærstu tónlistarhátíðum í Belgíu. Hún hefur verið haldið árlega í Hasselt síðan 1985. Á því ári tróðu sjö hljómsveitir upp fyrir framan 2.500 gesti. Í dag eru hljómsveitirnar orðnar rúmlega 200 sem troða upp á átta mismunandi sviðum í þrjá heila daga. Gestir eru rúmlega 200 þúsund. 1980 voru Sykurmolarnir skráðir til leiks á hátíðinni en urðu að aflýsa komu sína. 2011 varð að hætta við hátíðina vegna þess að áhorfendapallar hrundu í stormi. Fimm manns biðu bana og 70 slösuðust.

Rimpelrock er önnur tónlistarhátíð, að þessu sinni fyrir eldri borgara. Hún er talsvert minni í sniðum en Pukkelpop, en er haldin árlega síðan 2002.

2005 var Evrópusöngvakeppnin fyrir börn haldin í Hasselt. Sigurvegarinn kom frá Hvíta-Rússlandi.

Aðrar merkar hátíðir í borginni eru Geneverhátíðin, Karneval og hinn árlegi skemmtigarður (Kermis).

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Hasselt viðheldur vinabæjasambandi við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan er helguð heilögum Quintinníusi
  • Dómkirkjan í Hasselt er höfuðkirkja borgarinnar. Kirkja helguð heilögum Quintiníusar hefur staðið á reitnum síðan á 7. öld. Um 1100 reis ný kirkja, en af henni er aðeins grunn turnsins eftir. Turninn sjálfur reis 1250 og er 62 metra hár. Kirkjan var endurbyggð 1406. Kirkjan er einföld að innan en flest listaverk voru eyðilögð af múgi í æsingum siðaskiptanna. Orgelið er frá 1783.
  • Kirkja Virga-Jesse var reist 1727 í stað kirkju sem stóð á reitnum síðan á 14. öld. Núverandi kirkja stórskemmdist í loftárás 4. nóvember 1944. Viðgerðir stóðu allt til 1951. Helsta listaverk kirkjunnar er Madonna-stytta frá 14. öld, kölluð Virga-Jesse. Hún bjargaðist í eyðileggingu siðaskiptanna og hún slapp við meiriháttar skemmdir þegar kirkjan varð fyrir sprengjuregni 1944. Á sjö ára fresti er haldin mikil hátíð í Hasselt, þar sem styttan er keyrð um götur borgarinnar í stórri helgigöngu. Hátíðin hefur verið haldin síðan 1682. Síðasta hátíðin var haldin 2010.
  • Het Sweert er gamalt hús frá árinu 1659 og er stundum talið fallegasta hús borgarinnar. Það var gistihús til 1713. Í dag er apótek í húsinu.
  • Begínuhverfið í Hasselt er upphaflega frá 13. öld, en var endurnýjað að mestu á 18. öld. Þar stóð einnig kirkja, en hún varð fyrir sprengjuregni 1944 og eyðilagðist. Begínurnar eru löngu horfnar í dag. Hverfið er lokað af með múrveggjum og þar að ganga inn um hlið til að komast inn í það. Í stærsta húsinu er listasafnið Z33.
  • Japanski garðurinn er árangur af samvinnu Hasselt og vinabæjarins Itami í Japan. Garðurinn var lagður 1991 og er 2,5 hektara að stærð. Þar með er hann stærsti japanski garðurinn í Evrópu. Í garðinum er hvíldarhús (kallað Korokan), japanskt tehús, manngerður foss og falleg japönsk krossbrú (yatsuhashi).

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]