Franz von Papen
Franz von Papen | |
---|---|
Kanslari Þýskalands | |
Í embætti 1. júní 1932 – 17. nóvember 1932 | |
Forseti | Paul von Hindenburg |
Forveri | Heinrich Brüning |
Eftirmaður | Kurt von Schleicher |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. október 1879 Werl, Þýska keisaraveldinu |
Látinn | 2. maí 1969 (89 ára) Obersasbach, Vestur-Þýskalandi |
Stjórnmálaflokkur | Miðflokkurinn (1918–1932) |
Maki | Martha von Boch-Galhau (g. 1905; d. 1961) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | Friedrich Franz, Antoinette, Margaretha, Isabella, Stefanie |
Háskóli | Prússneski herháskólinn |
Starf | Hermaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Franz Joseph Hermann Michael Maria von Papen (29. október 1879 – 2. maí 1969) var þýskur aðalsmaður, hermaður og stjórnmálamaður. Hann var kanslari Þýskalands í nokkra mánuði árið 1932 og varakanslari í ríkisstjórn Adolfs Hitler frá 1933–34. Papen var einn af nánustu ráðgjöfum Pauls von Hindenburg Þýskalandsforseta á síðustu árum Weimar-lýðveldisins. Það var einkum Papen sem taldi Hindenburg á að útnefna Hitler sem kanslara árið 1933 í trú um að hægt yrði að hafa stjórn á Hitler í stjórnarsamstarfinu. Papen og bandamönnum hans var hins vegar fljótt ýtt út af valdasviði þýskra stjórnmála eftir valdatöku Hitlers og margir þeirra voru myrtir á nótt hinna löngu hnífa.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Franz von Papen fæddist inn í ríka, kaþólska aðalsfjölskyldu í þýska keisaraveldinu. Hann gekk í herháskóla Prússlands og gegndi herþjónustu í þýska hernum. Á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar var hann staðsettur í Bandaríkjunum sem hernaðarfulltrúi en honum var vísað úr landinu árið 1915 fyrir að misnota aðstöðu sína sem erindreki til þess að vinna skemmdarverk.[1] Eftir að honum var vísað frá Bandaríkjunum barðist Papen með her Þjóðverja á vesturvígstöðvunum og í miðaustrinu.
Eftir ósigur Þjóðverja í stríðinu og stofnun Weimar-lýðveldisins gekk Papen í Miðflokkinn[2] (Zentrum) og hóf þátttöku í þýskum stjórnmálum. Papen var einn af íhaldssömustu meðlimum Miðflokksins og þar sem hann var konungssinnaður var hann ekki samþykkur því að flokkurinn styddi lýðræðisfyrirkomulag lýðveldisins yfir höfuð.
Kanslaratíð
[breyta | breyta frumkóða]Þann 2. júní 1932 skipaði Paul von Hindenburg Papen kanslara Þýskalands.[3] Það var góðvinur Papens, hershöfðinginn Kurt von Schleicher, sem mælti með honum við Hindenburg og valdi alla ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir hann, auk þess sem Schleicher gegndi embætti varnarmálaráðherra í henni. Stjórn Papens var uppnefnd „barónastjórnin“ og „einglyrnastjórnin“ og naut nánast einskis fylgis, hvorki á þinginu né meðal almennings. Papen og Schleicher vildu koma á gerræðislegu forsetaræði í Þýskalandi en nutu ekki nógu mikils stuðnings til að koma miklu í verk. Fyrsta ríkisstjórn Papens féll fyrir sameiginlegri vantrauststillögu nasista og kommúnista á þýska þinginu.[4] Eftir kosningar sem haldnar voru í nóvember töpuðu nasistar nokkru fylgi en Papen tókst þó ekki að stofna nógu sterka stjórn til að verjast vantrauststillögum. Papen reyndi að semja um stjórnarsamstarf við Hitler en tókst ekki að komast að samkomulagi við hann. Að endingu leysti Hindenburg Papen úr embætti og skipaði Schleicher kanslara í hans stað.[5] Papen var öskureiður hinum gamla vini sínum fyrir að hafa af honum völdin og eyddi því næstu mánuðum í að baktala Schleicher án afláts við Hindenburg.[6]
Valdataka Hitlers
[breyta | breyta frumkóða]Papen lagði á ráðin um að koma Schleicher frá völdum og fundaði með Hitler í húsi sameiginlegs vinar þeirra, Joachims von Ribbentrop, til að koma á sameiginlegri stjórn. Hitler var ófáanlegur til að ganga í stjórnarsamstarf við Papen nema að hann fengi sjálfur kanslaraembættið. Þegar Papen mistókst að telja Hitler hughvarf um þetta ákvað hann að telja Hindenburg á að skipa Hitler kanslara og gera sig að varakanslara. Nú var orðið ljóst að Schleicher gæti ekki varist vantrauststillögu og því féllst Hindenburg á þessa stjórnarmyndun með semingi eftir miklar átölur frá Papen, sem taldi að auðvelt yrði að einangra Hitler og hafa stjórn á honum í ríkisstjórninni. Sagnfræðingurinn Henry Ashby Turner hefur sagt um Papen að hann hafi verið
„lykilmaðurinn í því að stýra framgangi heimsatburða í átt að þessari hörmulegu niðurstöðu, maðurinn sem bar meiri ábyrgð en nokkur annar á því sem gerðist. Ekkert af því sem gerðist í janúar 1933 hefði getað gerst ef ekki hefði verið fyrir hefndarþorsta Papens gegn Schleicher og metnað hans til að komast aftur til valda.“[7]
Hitler varð kanslari og Papen varakanslari þann 30. janúar 1933. Þvert á væntingar Papens var Hitler fljótur að einangra Papen og bandamenn hans og Papen varð fljótt valdalaus í stjórnarsamstarfinu. Í júlí 1934 flutti Papen ræðu í Marburg þar sem hann gagnrýndi nasismann og gerði gys að trúarstefnu nasistastjórnarinnar.[8]
Papen var bolað úr embætti sem varakanslari stuttu eftir dauða Hindenburgs. Hann var gerður að sendiherra Þjóðverja til Austurríkis og í krafti þess embættis hjálpaði hann nasistastjórninni að innlima Austurríki í Þýskaland árið 1938.[8] Papen varð síðan sendiherra til Tyrklands og gegndi því embætti frá 1939 til 1944. Í seinni heimsstyrjöldinni samdi Papen um vináttuyfirlýsingu Þjóðverja og Tyrkja til að koma í veg fyrir að Tyrkir gengju í lið með bandamönnum.
Síðari ár
[breyta | breyta frumkóða]Í innrás Bandaríkjamanna í Þýskaland árið 1945 undir lok styrjaldarinnar var Papen handtekinn átakalaust á heimili sínu í Ruhr-héraði.[1] Á þessum tíma hafði Papen misst von um að Þjóðverjar gætu unnið stríðið og vonaðist til þess að hann gæti komist til áhrifa á ný í hinu sigraða Þýskalandi eftir hrun nasistastjórnarinnar.[9]
Réttað var yfir Papen í Nürnberg-réttarhöldunum eftir ósigur Þjóðverja vegna hlutverks hans í að koma Hitler til valda og í ólöglegri innlimun Þjóðverja á Austurríki en hann var að endingu sýknaður af öllum ákæruatriðum. Papen tókst þó aldrei að komast aftur til áhrifa. Hann varði því sem hann átti eftir ólifað í að verjast gagnrýni fyrir stefnumál stjórnmálaferils síns og viðurkenndi aldrei að hann bæri neina ábyrgð á valdatöku nasistanna.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Bragðarefurinn von Papen“. Morgunblaðið. 15. ágúst 1945. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Franz von Papen ver gerðir Þjóðverja“. Morgunblaðið. 3. ágúst 1952. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Eru Nasistar að taka völdin í Þýskalandi?“. Alþýðublaðið. 1. júní 1932. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ Dorplaen, Andreas, Hindenburg and the Weimar Republic, Princeton: Princeton University Press, 1964, bls. 362.
- ↑ „Stjórnarskifti á Þýskalandi“. Lögberg. 24. nóvember 1932. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ Turner, Henry Ashby Hitler's Thirty Days to Power, New York: Addison-Wesley, 1996, bls. 97.
- ↑ Turner, Henry Ashby, Hitler's Thirty Days to Power, New York: Addison-Wesley, 1996, bls. 180.
- ↑ 8,0 8,1 „Milligöngumaður Hitlers og Stalins“. Alþýðublaðið. 28. ágúst 1939. Sótt 3. júní 2018.
- ↑ „Dr. Hjalmar Schacht og Frans von Papen“. Morgunblaðið. 10. mars 1945. Sótt 3. júní 2018.
Fyrirrennari: Heinrich Brüning |
|
Eftirmaður: Kurt von Schleicher |