Fara í innihald

Forseti Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Forsetar Íslands)
Forseti Íslands
Forsetaskjaldarmerki
Núverandi
Halla Tómasdóttir

síðan 1. ágúst 2024
Embætti forseta
MeðlimurRíkisráðs Íslands
Opinbert aðseturBessastaðir
SætiGarðabær, Íslandi
Skipaður afBeinum kosningum
KjörtímabilFjögur ár
LagaheimildStjórnarskrá Íslands
ForveriKonungur Íslands
Stofnun17. júní 1944; fyrir 80 árum (1944-06-17)
Fyrsti embættishafiSveinn Björnsson
StaðgengillForsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar
Vefsíðaforseti.is

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og æðsti embættismaður lýðveldisins Íslands. Forsetinn er þjóðkjörinn til fjögurra ára í senn og er eini embættismaðurinn sem kjörinn er í beinni kosningu. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er forsetinn æðsti handhafi framkvæmdavaldsins og annar handhafi löggjafarvaldsins. Í reynd er þátttaka forsetans í löggjöf eða stjórnarathöfnum yfirleitt aðeins formsatriði þannig að hann hefur ekki aðkomu að efni löggjafar eða stjórnarathafna. Þó er viðurkennt að hann getur haft áhrif á stjórnarmyndunarviðræður og jafnvel skipað utanþingsstjórn ef aðstæður til þess eru uppi. Jafnframt hefur forsetinn vald til þess að synja lagafrumvarpi frá Alþingi staðfestingar og leggja það í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu en á það hefur reynt þrisvar í sögu embættisins. Í fjarveru forsetans fara forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar saman með vald forsetans.

Flest störf forsetans eru táknræn og er stundum sagt um embættið að það eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Á meðal hefðbundinna embættisverka forsetans er að flytja þjóðinni ávarp á nýársdag, að ávarpa Alþingi við setningu þess jafnframt því sem forsetinn setur Alþingi formlega, að veita fálkaorðuna og ýmis verðlaun á vegum embættisins og félagasamtaka. Forsetinn tekur einnig á móti erlendum þjóðhöfðingjum og öðrum hátt settum gestum í opinberum heimsóknum á Íslandi og fer sjálfur í opinberar heimsóknir til annara ríkja. Aðsetur forseta Íslands er á Bessastöðum á Álftanesi en embættið hefur jafnframt skrifstofu í húsinu Staðastað við Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Afmælisdagur forsetans hverju sinni er íslenskur fánadagur.

Frá tilurð embættisins við lýðveldisstofnunina 17. júní 1944 hafa sjö einstaklingar gegnt embættinu. Þeirra fyrstur var Sveinn Björnsson, síðan Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn. Árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands og varð þar með fyrsti kvenkyns þjóðkjörni þjóðhöfðinginn í heiminum. Ólafur Ragnar Grímsson náði kjöri árið 1996 og gegndi forsetaembættinu til ársins 2016, lengst allra forseta landsins. Í forsetakosningum þann 25. júní 2016 var Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur kjörinn forseti Íslands og gegndi embætti í 8 ár. Halla Tómasdóttir var kjörin forseti í forsetakosningum 1. júní 2024 og tók við embættinu þann 1. ágúst.

Forsetaefni skal skv. stjórnarskránni og lögum um framboð og kjör forseta Íslands vera minnst 35 ára auk þess að uppfylla sömu skilyrði og gerð eru um kosningarétt til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu, en samkvæmt því þarf að eiga lögheimili á Íslandi til að eiga kosningarétt.

Hlutverk forseta

[breyta | breyta frumkóða]
  • Þingsetning
  • Staðfesting laga
  • Nýársávarp
  • Orðuveiting
  • Móttaka og opinberar heimsóknir til erlendra þjóðhöfðingja
  • Stjórnarmyndun (ef þingflokkar ná ekki saman um myndun ríkisstjórnar).

Ímynd forseta

[breyta | breyta frumkóða]
  • Sameiningartákn þjóðarinnar
  • Verndari íslenskrar menningar
  • „Landkynning“

Málskotsréttur

[breyta | breyta frumkóða]

Málskotsréttur er heimild forseta til að vísa frumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt í þjóðaratkvæðigreiðslu til samþykktar eða synjunar. 26. grein stjórnarskrár Íslands gefur forsetanum þessa heimild.

26. grein stjórnarskrár hljóðar svo: „Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“[1]

Eftir að Alþingi samþykkti EES samninginn árið 1993 varð mikil umræða í samfélaginu um hvort Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti ætti að vísa lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo fór að Vigdís staðfesti EES samninginn og Ísland undirritaði samninginn í ársbyrjun 1994.[heimild vantar]

Synjun forseta á staðfestingu frumvarps til laga um fjölmiðla 2004

[breyta | breyta frumkóða]

Ólafur Ragnar Grímsson neitaði fyrstur forseta Íslands að staðfesta lagafrumvarp vorið 2004. Um var að ræða frumvarp að lögum um fjölmiðla (fjölmiðlafrumvarpið). Ákvörðunin var umdeild, en Alþingi tók í framhaldi frumvarpið af dagskrá, þ.a. ekki þótti nauðsynlegt að leggja það fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og gera bar skv. stjórnarskrá Íslands.

Icesave 2010-2011

[breyta | breyta frumkóða]

Ólafur synjaði síðar lögum um Icesave staðfestingar í tvígang 2010 og 2011 og vísaði þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, í bæði skiptin voru lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum mun. Ólafur er enn í dag eini forsetinn sem hefur beitt málskotsrétti.

Þegar forseti er ófær um að sinna skyldum sínum vegna sjúkleika eða dvalar erlendis fara handhafar forsetavalds með vald Forseta Íslands. Í áttundu grein stjórnarskrárinnar er kveðið á um að Forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar fari með forsetavald í fjarveru forsetans. Ef nauðsynlegt er að skrifa undir lög í fjarveru forsetans þarf undirritun tveggja til að lög taki gildi. Það var lengi hefð fyrir því að einn af handhöfum forsetavalds fylgdi forseta á flugvöllinn en Guðni Th Jóhannesson afnam þá hefð þegar hann tók við embætti forseta árið 2016.[2]

Allir handhafar forsetavalds hafa staðgengil ef þeir eru staddir erlendis á sama tíma og forsetinn. Það eru varaforsetar Alþingis, varaforseti Hæstaréttar og ríkisstjórnarflokkarnir gera samkomulag um hvaða ráðherra sé staðgengill forsætisráðherra.

Mynd Forseti Tók við embætti Lausn frá embætti Sat í Kjör­tíma­bil Aldur í forseta­tíð
Sveinn Björnsson 17. júní 1944 25. janúar 1952[1] 2.778 daga 3[2] 63 til 70 ára
Ásgeir Ásgeirsson 1. ágúst 1952 31. júlí 1968 5.844 daga 4 58 til 74 ára
Kristján Eldjárn 1. ágúst 1968 31. júlí 1980 4.383 daga 3 51 til 63 ára
Vigdís Finnbogadóttir 1. ágúst 1980 31. júlí 1996 5.844 daga 4 50 til 66 ára
Ólafur Ragnar Grímsson 1. ágúst 1996 31. júlí 2016 7.304 daga 5 53 til 73 ára
Guðni Th. Jóhannesson 1. ágúst 2016 31. júlí 2024 2.921 daga 2 48 til 56 ára
Halla Tómasdóttir 1. ágúst 2024 Enn í embætti Kjörin til

1460 daga

1 55 ára til 59 ára
1^  Sveinn Björnsson lést í embætti. Handhafar forsetavalds fóru með völd forseta fram að innsetningu Ásgeirs Ásgeirssonar í embættið þann 1. ágúst sama ár.
2^  Sveinn var í fyrstu kjörinn til eins árs af Alþingi. Hann var svo í tvígang sjálfkjörinn í reglulegu forsetakjöri og lést á þriðja kjörtímabili sínu í embætti.
Halla TómasdóttirGuðni Thorlacius JóhannessonÓlafur Ragnar GrímssonVigdís FinnbogadóttirKristján EldjárnÁsgeir ÁsgeirssonSveinn Björnsson


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „33/1944: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“. Alþingi.
  2. „Hætta að fylgja forseta Íslands úr landi“. www.ruv.is.