Íslenski fáninn
Íslenski fáninn er þjóðfáni Íslands. Hann var fyrst opinberlega staðfestur með konungsúrskurði 19. júní árið 1915. Lög um íslenska fánann voru hins vegar sett þann 17. júní 1944 og tóku gildi 24. ágúst 1944, en þau voru fyrstu lögin sem samþykkt voru á eftir stjórnarskránni.
Fáninn er svokallaður krossfáni eins og fánar allra hinna Norðurlandanna. Hann er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum.
Það var Matthías Þórðarson þjóðminjavörður sem stakk upp á honum árið 1906. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn.[1]
Fyrri hugmyndir að fána Íslands
[breyta | breyta frumkóða]Samhliða sjálfstæðisbaráttunni í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar stóðu yfir deilur um hver fáni landsins ætti að vera. Hvítbláinn var sá vinsælasti áður en ákveðið var að taka upp núverandi fána.
Þorskafáninn
[breyta | breyta frumkóða]Þorskafáninn var fáni Jörundar hundadagakonugs meðan hann ríkti yfir Íslandi. Jörundur tók völd á Íslandi í júní 1809, og lét þá gera sérstakan fána handa Íslandi. Segir svo á tilkynningu hans frá 11. júlí 1809: „Að það íslenska flagg skal vera blátt með þremur hvítum þorskfiskum á, hvers virðingu vér viljum takast á hendur að forsvara með voru lífi og blóði.“
Þorskarnir þrír voru í efri stangarreit, og var fáni þessi dreginn að húni og hylltur með fallbyssuskotum á hádegi 12. júlí 1809. Fánastöngin var við pakkhús eitt í Hafnarstræti.
Fálkafáninn
[breyta | breyta frumkóða]Fálkafáninn var gerður eftir hugmynd Sigurðar málara og átti að vera bæði fáni og skjaldamerki Íslands.[1] Honum fannst fálkinn vera sæmilegra tákn en flatti þorskurinn[2] sem þá var notaður í skjaldarmerkið. Fyrir atbeina Sigurðar tóku stúdentar fálkann upp í merki sitt (1873) og skólapiltar nokkru seinna.[heimild vantar] Fálkahugmynd Sigurðar breiddist ört út, og á þjóðhátíðinni 1874 var merki með hvítum fálka í bláum feldi mjög víða notað við hátíðahöldin á Íslandi og jafnvel meðal Íslendinga í Vesturheimi. Var mikil hreyfing uppi um það, að hvítur fálki í bláum feldi skyldi vera þjóðtákn Íslendinga, og þá bæði skjaldarmerki og fáni, að svo miklu leyti, sem menn gerðu sér ljósan greinarmun á þessu tvennu. Fram undir aldamót voru fánar af þessari gerð víða notaðir við hátíðahöld, einkum á þjóðhátíðum.
Hvítbláinn
[breyta | breyta frumkóða]Einar Benediktsson bar fram hugmyndina að Hvítbláni[a] árið 1897 og sama ár blakti hann við hún á Þjóðminningunni (þjóðhátíðinni) í Reykjavík. Einar skrifaði greinina í blaðið Dagskrá undir heitinu „Íslenski fáninn“ og var um fána- og skjaldarmerkismálið.[3] Gerði hann þar glögga greinarmun á fána og skjaldarmerki, og gerir það síðan að tillögu, að fáni Íslands verði „hvítur kross í bláum feldi“. Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Grein þessi markaði tímamót í fánamálum Íslendinga og Hvítbláinn ávann sér geysilegar vinsældir meðal þjóðarinnar.
Það voru svo kvenfélagskonur í Reykjavík, sem hófu þennan fána fyrst á loft. Var það á Þjóðminningunni í Reykjavík sumarið 1897. Það var þó ekki fyrr en árið 1905 og næstu ár þar á eftir, að fáni þessi fór að breiðast út um landið.
Íslendingar fóru í vaxandi mæli að nota Hvítbláinn á tyllidögum í stað danska fánans, en þó var hann ekki viðurkenndur opinberlega sem íslenskur fáni á nokkurn hátt.
Ekki voru allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Margir töldu einnig að örðugt gæti reynst að greina gríska og íslenska hvítbláinn í sundur á sjó úti.
Að morgni fimmtudags 12. júní 1913 reri 26 ára verslunarmaður að nafni Einar Pétursson báti í Reykjavíkurhöfn með Hvítbláinn við hún.[4] Vildi þá svo til að sjóliðar Danska varðskipsins Islands Falk stöðvuðu för Einars og skipherrann gerði fánann upptækan.[5] Einar vildi ekki við svo búið una og um hádeigisbil fór hann í stjórnarráðið og lagði fram kæru á hendur skipherra Islands Falk. Bátur Einars Péturssonar og fáninn hvítblái eru nú til sýnis í sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík.
Núna er Hvítbláinn fáni UMFÍ (Ungmennafélags Íslands) og skólafáni Menntaskólans að Laugarvatni og er silkifáni sem var lagður á kistu Einars Benediktssonar við útför hans, notaður enn þann dag í dag á formlegum viðburðum í skólanum.[6]
Fáni Hjaltlands hefur sama útlit og Hvítbláinn.
Núverandi fáni
[breyta | breyta frumkóða]Eftir umræður á Alþingi árið 1913 gaf konungur út tilskipun um að Íslendingar skyldu fá sérfána.[5] Konungi þótti Hvítbláinn líkjast gríska fánanum of mikið og samþykkti þess í stað þrílita fánann sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður stakk upp á 1906.[5]
Ýmsar fleiri tillögur höfðu verið á kreiki um fána, má þar nefna tillögu um einlitan fána, bláan eða rauðan, með hinni heiðnu fimmgeisluðu stjörnu eða hamarsmarki Þórs, hina gömlu tillögu um hvítan fálka í bláum feldi, sem hafa átt sér nokkra fylgismenn, og tillögu um mynd af Fjallkonunni í hvítum feldi.
Opinberir fánadagar
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt forsetaúrskurði er opinberum stofnunum skylt að draga íslenska fánann að húni eftirfarandi daga:
Draga skal fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, eftirgreinda daga:
- Fæðingardag forseta Íslands (núna 26. júní).
- Nýársdag.
- Föstudaginn langa (eingöngu dregið í hálfa stöng).
- Páskadag.
- Sumardaginn fyrsta.
- 1. maí (Verkalýðsdagurinn).
- Hvítasunnudag.
- Sjómannadaginn.
- 17. júní (Íslenski þjóðhátíðardagurinn).
- 16. nóvember (dag íslenskrar tungu).
- 1. desember (fullveldisdaginn).
- Jóladag.
Að auki mega opinberar stofnanir draga fánann að húni við sérstök tækifæri sem forsætisráðuneytið gefur tilskipun um. Almenningur má draga fánann að húni við sérstök tækifæri. Einnig er í reglum að fáninn skuli aldrei vera dreginn á stöng fyrir kl. 7 að morgni og sé að jafnaði ekki uppi lengur en til sólarlags en þó skal hann aldrei vera lengur uppi en til miðnættis.
Fánalög
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt fánalögum má ekki óvirða fánann í orði eða verki.[7] Allir fánar dregnir á fánastöng verða að vera í góðu ástandi og lögreglan má gera upptæka alla fána sem sjáanlegir eru á opinberum stöðum og samræmast ekki íslenskum fánareglum.
Fánalitir og hlutföll
[breyta | breyta frumkóða]Hlutföllin í litum fánans eru, talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt 1. grein fánalaga.
Forsætisráðuneytið hefur gefið út viðmið um hvaða litir skulu notaðir í íslenska fánanum. Litirnir eigi að samsvarast SCOTDIC-litakerfinu sem best.[8]
Litakerfi | Blár | Hvítur | Rauður |
---|---|---|---|
Hex | #02529C | #FFFFFF | #DC1E35 |
Pantone | 287 | 1c | 199 |
CMYK | 100, 75, 2, 18 | 0, 0, 0, 0 | 0, 100, 72, 0 |
SCOTDIC | 693009 | 95 | ICELAND FLAG RED |
-
Þjóðfáni Íslands. Hlutföll 25:18.
-
Ríkisfáni Íslands (Tjúgufáninn). Hlutföll 32:18.
-
Fáni forseta Íslands. Hlutföll 32:18.
-
Tollgæslufáni. Hlutföll 32:18.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. (1944 nr. 34 17. júní)
- Forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma. (1991 nr. 5 23. janúar)
- Auglýsing um liti íslenska fánans. (1991 nr. 6 23. janúar)
- Lög um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Beyging: Hvítbláinn beygist eins og mannsnafnið Þráinn
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Stjórnarráðið | Saga fánans“. www.stjornarradid.is. Sótt 15. júní 2019.
- ↑ „Stjórnarráðið | Saga skjaldarmerkisins“. www.stjornarradid.is. Sótt 15. júní 2019.
- ↑ Íslenski fáninn – Dagskrá, 13. mars 1897
- ↑ „80 ár liðin frá fánatökunni á Reykjavíkurhöfn“. www.mbl.is. Sótt 15. júní 2019.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „Brot úr íslenskri fánasögu“. Þjóðskjalasafn Íslands. 12. júlí 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. nóvember 2020. Sótt 15. júní 2019.
- ↑ „Fáni skólans – Menntaskólinn að Laugarvatni“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. september 2020. Sótt 15. júní 2019.
- ↑ Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. (1944 nr. 34 17. júní )
- ↑ Sigurður Ingi Jóhannsson (10. maí 2016). „Auglýsing um liti íslenska fánans“ (PDF).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Um íslenska fánann á vef Stjórnarráðsins
- Saga íslenska skjaldarmerkisins á vef Stjórnarráðsins
- Þjóðfáninn; grein í Morgunblaðinu 1965
- Fáninn; grein í Morgunblaðinu 1914
- Fullveldisfáninn; grein í Tímanum 1968
- Saga íslenska fánans (á ensku)
- Opinberir fánadagar og póstlisti á faninn.is Geymt 30 júlí 2019 í Wayback Machine