Fyrstu bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 2. október1955, 5 mánuðum eftir að bærinn fékk kaupstaðarréttindi og rúmu ári eftir sögulegar hreppsnefndarkosningar sem þurfti að endurtaka.
Kosið var 2. október 1955. G-listi Óháðra kjósenda myndaði meirihluta, Finnbogi Rútur Valdimarsson var kjörinn fyrsti bæjarstjóri Kópavogs. Þegar Finnbogi var skipaður bankastjóri Útvegsbankans 1957 tók Hulda Jakobsdóttir eiginkona hans við stöðunni, fyrst kvenna til að gegna embætti bæjarstjóra á Íslandi.
Kosið var 25. janúar 1958. Óháðir kjósendur þurftu að skipta um listabókstaf þar sem G hafði verið úthlutað í Alþingiskosningunum 1956. H-listi Óháðra kjósenda hélt sínum meirihluta. Hulda Jakobsdóttir gegndi áfram embætti bæjarstjóra.
Kosið var 27. maí 1962. Sökum fólksfjölgunar í bænum var bæjarfulltrúum fjölgað um tvo. H-listi Óháðra kjósenda stofnaði til meirihlutasamstarfs með B-lista Framsóknarflokks. Hjálmar Ólafsson var kjörinn í embætti bæjarstjóra. Svandís Skúladóttir varð fyrsta konan sem tók sæti í bæjarstjórn sem aðalfulltrúi.
Kosið var 31. maí 1970. D-listi og H-listi stofnuðu til samstarfs. Auglýst var eftir bæjarstjóra og var Björgvin Sæmundsson ráðinn. Um áramótin 1972-73 lýsti Eggert Steinsen því yfir að hann styddi ekki lengur meirihlutann. Fulltrúi F-listans, Hulda Jakobsdóttir fyrrum bæjarstjóri, gekk þá inn í meirihlutasamstarfið.
Kosið var 26. maí 1974. Bæjarfulltrúum var aftur fjölgað um tvo vegna fólksfjölgunar. Framsóknarflokkurinn ásamt Frjálslyndum og vinstri mönnum buðu fram sameiginlegan I-lista. H-listinn bauð ekki fram en Alþýðubandalagið bauð fram í fyrsta sinn. Meirihluti var myndaður af D-lista og tveimur fulltrúum I-lista, framsóknarmönnunum. Sigurjón Hilaríusson af I-lista studdi ekki meirihlutann. Björgvin Sæmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri.
Kosið var 28. maí 1978. Klofningur varð í röðum sjálfstæðismanna, boðinn var fram listinn Almennt borgaraframboð með listabókstafinn S og óháðir borgarar buðu fram Borgaralistann með listabókstafinn K. A-listi, B-listi og G-listi mynduðu meirihluta. Björgvin Sæmundsson var endurráðinn bæjarstjóri, við lát hans 1980 var bæjarritarinn Bjarni Þór Jónsson ráðinn bæjarstjóri.
Kosið var 31. maí 1986. A-listi og G-listi héldu áfram samstarfi en nú án B-lista. Kristján H. Guðmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri. Hulda Finnbogadóttir, dóttir Huldu Jakobsdóttur og Finnboga Rúts Valdimarssonar, náði kjöri sem bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins.
Kosið var 26. maí 1990. B-listi og D-listi mynduðu meirihluta. Sigurður Geirdal bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins var kjörinn bæjarstjóri, í fyrsta sinn síðan 1955 að bæjarfulltrúi varð jafnframt bæjarstjóri.
Kosið var 23. maí 1998. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi, Sigurður Geirdal oddviti Framsóknarflokksins gegndi áfram embætti bæjarstjóra. Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalistinn sameinuðust í framboði Kópavogslistans.
Kosið var 25. maí 2002. Fyrrum Kópavogslisti bauð nú fram undir merkjum Samfylkingar og Vinstri-grænna. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi. Að samkomulagi varð að Sigurður Geirdal oddviti B-lista gegndi áfram embætti bæjarstjóra til 1. júní 2005 þegar oddviti D-lista, Gunnar I. Birgisson tæki við. Sigurður lést 2004 og tók þá næsti maður á B-lista, Hansína Á. Björgvinsdóttir við embætti bæjarstjóra þar til umsömdum tímamörkum var náð og Gunnar varð bæjarstjóri. Gunnar sagði af sér þingmennsku þegar hann tók við embætti bæjarstjóra, Sigurrós Þorgrímsdóttir bæjarfulltrúi tók við þingsæti hans sem fyrsti varamaður kjördæmisins.
Kosið var 29. maí 2010. Meirihluti B-lista og D-lista féll. Tvö óháð framboð komu fram og fengu hvort um sig mann kjörinn. Meirihluti var myndaður af Samfylkingu, Vinstri-grænum, Næstbesta flokknum og Kópavogslista. Guðrún Pálsdóttir var kjörinn bæjarstjóri.
Hildur Dungal hætti sem bæjarfulltrúi eftir að hafa flutt í Garðabæ og tók næsti maður á lista, Aðalsteinn Jónsson, við sem bæjarfulltrúi.
Meirihlutinn sprakk í upphafi árs 2012 og þann 14. febrúar tók nýr meirihluti við, skipaður Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Kópavogslista. Ármann Kr. Ólafsson var kjörinn bæjarstjóri.
Kosið var 31. maí 2014. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að halda ekki áfram samstarfi við Framsóknarflokkinn og myndaði nýjan meirihluta 7. júní með Bjartri framtíð. Ármann Kr. Ólafsson hélt áfram sem bæjarstjóri.
Kosið var 26. maí 2018. Upp úr slitnaði úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sem nú bauð fram sem BF-Viðreisn, þar sem þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks settu sig upp á móti því. Framsóknarflokkurinn myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Ármann var áfram bæjarstjóri.
Kosið var 14. maí 2022. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur héldu meirihluta sínum, þar sem Framsókn bætti við sig fulltrúa sem Sjálfstæðisflokkur missti. Ásdís Kristjánsdóttir tók við sem bæjarstjóri.