Fara í innihald

Þjórsárdalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Staðsetning.
Hekla séð úr Þjórsárdalnum

Þjórsárdalur er dalur í Árnessýslu sem liggur á milli Búrfells í austri og Skriðufells í vestri. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Merkisstaðir í Þjórsárdal eru t.d. Stöng, Gjáin, Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Vegghamrar.

Náttúrufar

[breyta | breyta frumkóða]

Þjórsárdalur klofnar í tvennt um Reykholt og Rauðukamba. Eystri dalurinn nefnist Fossárdalur þar sem Fossá rennur. Sandá og Bergólfsstaðaá renna um vestari dalinn. Rauðá kemur úr norðri og fellur fossum niður í dalinn um fagurt gil, Gjána, og sameinast Fossá. Athyglisvert er að þótt dalurinn sé kenndur við Þjórsá þá rennur hún ekki um hann. Þess í stað streymir hún fyrir mynni hans.

Innst í báðum dölum er Fossalda, en austan við Fossá er Stangarfell. Næsta fjall til suðvesturs er Skeljafell, þar næst Sámsstaðamúli og loks Búrfell. Þjórsá lokar dalinum til suðurs. Vestan við Fossöldu eru Flóamannafjöll, næst Dímon, Selhöfði, svo Skriðufell og Ásólfsstaðafjall. Undir Hagafjalli eru höfðarnir Bringa og Gaukshöfði og er oft talað um að Þjórsárdalur opnist við þann síðarnefnda. Mikil hraunbreiða, Þjórsárdalshraun, þekur dalbotninn allt frá Gjánni og út að Þjórsá. Þetta er hluti af mun stærra hrauni, Búrfellshrauni, sem kom upp í öflugu eldgosi á Veiðivatnasvæðinu fyrir rúmum 3000 árum. Álma úr því flæddi niður í dalinn um Gjána. Miklar gufusprengingar og umbyltingar urðu þegar glóandi hraunið breiddist út yfir flatan og votlendan dalbotninn. Ótal gervigígar urðu þá til og setja þeir og sérstæðan svip á landslag Þjórsárdals.

Inni í dalkróknum hjá Ásólfsstöðum og Skriðufelli er mikill skógur, Þjórsárdalsskógur, bæði frá náttúrunnar hendi og nýrækt á vegum Skógræktar ríkisins. Þetta er gróðursælasta svæði Þjórsárdals, ásamt Búrfellsskógi. Þó hefur Skógrækt ríkisins staðið fyrir mikilli landgræðslu á Vikrunum svokölluðu, meðal annars með lúpínu og grastegundum. Vestan Fossár hafa vikrarnir líka verið græddir upp, mest innan afréttargirðingar Gnúpverja, en þar eru ólíka grastegundir. Framar er meira um melgresi. Í kringum Búrfellsvirkjun og Þjóðveldisbærinn hefur Landsvirkjun grætt upp og er þar meðal annars golfvöllur.

Í Gjánni og á Kjóaflöt er gróðursælt, og er einstaklega friðsælt í Gjánni, þar sem Rauðá leikur sér um hamra og gil. Þar er mikið hvannastóð í kringum uppspretturnar, en líka margar tegundir mosa og grasa.

Á eyrum Bergólfsstaðaár er nú verið að græða upp með grasi, en hægt er að segja að landið sé gróðursnautt allt frá dalbotni fram að þjóðvegi 32, en þar taka lúpínubreiður við.

Eyðing byggðar í Þjórsárdal

[breyta | breyta frumkóða]

Margskonar sögur og munnmæli eru til um eyðingu bæja á Íslandi fyrr á öldum, jafnvel gjöreyðingu heilla kirkjusókna. Þjórsárdalurinn er einn af þeim stöðum sem á slíkar sögur. Lengi hefur þó verið deilt um hvenær og hvers vegna byggðin í dalnum eyddist. Umræða fræðimanna hefur verið lífleg og á tímum einkennst af sterkum ágreiningi um þessi atriði. Eldgos hefur yfirleitt verið talið ástæða eyðingar, en kólnandi veðurfar, rýrari landgæði og farsóttir hafa sömuleiðis verið nefndar. Nýlegar kenningar hafa dregið í efa að hægt sé að benda á einhverja eina orsök í hverju tilviki og telja flóknari ástæður liggja að baki.[1][2]

Þjórsárdalur hefur verið viðfangsefni fornleifafræðinga í um 150 ár. Rústir af 12-15 bæjum frá miðöldum og nokkrar yngri hafa verið skoðaðar. Á einni jörð, Sandártungu, lagðist byggð ekki af fyrr en árið 1693 þegar gaus í Heklu og á tveimur jörðum við mynni dalsins var búið fram á 20. öld.[3] Upphaf rannsókna á eyðibyggð dalsins má rekja til seinni hluta 19. aldar, þegar Brynjúlfur Jónsson frá Minnanúpi kortlagði fornleifar í dalnum. Hann fann merki um byggð á mörgum stöðum, samdi lýsingar, teiknaði upp grunnmyndir af tóftum, gerði yfirlitskort af horfinni byggð og gaf út í grein árið 1885, en hún markar upphaf skipulegra eyðibýlarannsókna á Íslandi.[4] Brynjúlfur kveikti með þessu áhuga annarra fræðimanna á dalnum. Árið 1890 fór hann ásamt Þorsteini Erlingssyni skáldi og ritstjóra sem gerði fyrstu uppgreftina í dalnum og skömmu síðar fylgdi hann Daniel Bruun, fornleifafræðingi frá danska þjóðminjasafninu, á sömu slóðir. Skrif Bruuns um örlög dalsins vöktu athygli út fyrir landsteinana. Daniel Bruun kallaði Þjórsárdal „Pompei Íslands“ og það hafði mótandi áhrif á hugmyndir um eyðingu byggðar í dalnum, en nafngiftin gaf í skyn að hún hefði orðið af skelfilegum og skyndilegum náttúruhamförum. Í raun var lítið sem minnti á Pompei annað en eldfjallagjóskan sem lá yfir öllu.[5][6]

Þjórsárdalsleiðangur 1939

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 1939 kom leiðangur norrænna forleifafræðinga til Íslands og gerði umfangsmiklar rannsóknir í Þjórsárdal. Verkefnið spratt af áhuga á að rannsaka norræna húsagerð og þróun hennar í gegnum aldirnar, en einnig var áhugi fyrir því að athuga hvenær byggð í dalnum hefði lagst af. Dalurinn sem hafði áður verið frjósamur og fagur, einkenndist nú af sléttum af svartri gosösku. Grafnar voru upp rústir sex bæja, Skallakots, Stangar, Snjáleifartóttar, Áslákstungu fremri, Stórhólshlíðar og Skeljastaða.[7] Ritið „Forntida gårdar i Island“ um uppgröftinn var gefið út í Kaupmannahöfn árið 1943. Í leiðangrinum var stigið mikilvægt skref í rannsóknum bæjarhúsa víkingaaldar og miðalda. Hann er þannig hápunktur mikils brautryðjandastarfs í byggingafornleifafræði á Norðurlöndum.[8] Tveir leiðangursmanna voru ungir stúdentar sem áttu eftir að láta mikið að sér kveða á sviði fornleifa, Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörður og forseti, og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, en sá síðarnefndi lagði um þetta leyti grunn að gjóskutímatali, sem hefur reynst eitt helsta aldursgreiningartæki fornleifafræðinga á Íslandi. Í fyrstu hélt Sigurður því fram að allar rústirnar sem skoðaðar voru lægju undir gjóskulagi úr Heklu sem talið var hafa fallið árið 1300 og þá hafi byggð í dalnum lagst af. Þetta rímaði vel við ríkjandi hugmyndir um eyðingu dalsins og fornleifarnar sem komið höfðu í ljós við uppgreftina.[9][10][11]

Seinni tíma hugmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Seinna endurskoðaði Sigurður greiningu sína á gjóskulaginu og taldi það vera úr Heklugosinu 1104, fyrsta gosi fjallsins á sögulegum tíma. Hefur það verið ríkjandi skoðun síðan að dalurinn hafi eyðist í því gosi og uppgreftir sem gerðir voru í Gjáskógum[12] og á Sámsstöðum[13]síðar þóttu styrkja þá túlkun. Í kjölfar enduruppgraftar Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar á Stöng hafa hins vegar komið fram hugmyndir um að þrátt fyrir gríðarlegt gjóskufall árið 1104 hafi það ekki markað endalok byggðarinnar – þó það hafi ef til vill verið upphafið að endalokunum. Ýmsar vísbendingar eru um að byggðin hafi varað fram á 13. öld, bæði gripir sem fundist hafa og vitnisburður jarðvegs um beit.[14][15][16][17]

Ein hugmynd um endalok byggðar í Þjórsárdal er að hún hafi staðið höllum fæti vegna hnignandi landgæða, sem Heklugos hafi eflaust átt mikinn þátt í, en að ákvörðunin um að yfirgefa síðustu bæjarstæðin í dalnum hafi verið tekin til að varðveita skóglendið sem þar var. Sé þessi tilgáta rétt má segja að árangurinn hafi orðið góður, því að minnsta kosti eitt hundrað heimili á Suðurlandi sóttu skóg til kolagerðar í Þjórsárdal á 16. öld.[18]

Fornleifafundur árið 2018

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2018 fann áhuga- og heimamaður muni frá víkingaöld eins og þórshamar, brýni og pott í Þjórsárdal. Fundarstaðurinn er nefndur Bergsstaðir eftir finnandanum.[19]

Áhugaverðir staðir

[breyta | breyta frumkóða]

Bærinn að Stöng var grafinn upp árið 1939 og var byggt yfir hann til að vernda minjarnar. Auk yfirbyggða íveruhússins má þar sjá leifar smiðju, fjóss og hlöðu en einnig hefur kirkja verið grafin upp á staðnum.

Göngubrú er yfir Rauðá rétt fyrir neðan Stöng. Frá Stöng er vinsælt að ganga að Gjánni.

Þjórsárdalslaug er vestan Fossár, austur undir Rauðukömbum. Þar er heitur hver, Rauðukambahver, og gnótt af heitu- og köldu vatni sem streymir sjálfrennandi að lauginni. Innar í dalnum er síðan Háifoss, en hann er einn af hæstu fossum á Íslandi. Skeiða- og Gnúpverjahreppur lét útbúa útsýnispall vestan í Stangarfelli og liggur vegur frá Hólaskógi að honum. Mun neðar í Fossá er Hjálparfoss, sem er tvískiptur foss sem fellur fram af hraunbrún á móts við Búrfellsstöð.

Háifoss/Granni, Gjáin og Hjálparfoss eru fluti af samfelldu svæði í dalnum, Landslagsverndarsvæði Þjórsárdal, sem var friðlýst árið 2020. [20]

Vegghamrar eru berghamrar miðja vegu milli Hallslautar og Rauðukamba. Undir þeim liggur hin forna Sprengisandsleið, og ríða fjallmenn Gnúpverja hér um á leið sinni til fjalls.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Birna Lárusdóttir. 2011. bls. 40.
  2. Steffen Stummann Hansen og Orri Vésteinsson. 2002. bls. 4.
  3. Andrew J. Dugmore og fl. 2007. bls 2.
  4. Birna Lárusdóttir. 2011. bls. 40-41.
  5. Steffen Stummann Hansen. 2003. bls. 69 og 84.
  6. Birna Lárusdóttir. 2011. bls. 41
  7. Steffen Stummann Hansen. 2003. bls. 81.
  8. Steffen Stummann Hansen og Orri Vésteinsson. 2002. bls 92.
  9. Andrew J. Dugmore og fl. 2007. bls 1 -2.
  10. Birna Lárusdóttir. 2011. bls 43.
  11. Einar Laxness. 1995. Leitarorð: Stöng.
  12. Kristján Eldjárn. 1961.
  13. Sveinbjörn Rafnsson 1977.
  14. Vilhjálmur Ö. Vilhjálmsson 1989
  15. Andrew J. Dugmore og fl. 2007.
  16. Birna Lárusdóttir. 2011. bls. 43.
  17. Einar Laxness. 1995. Leitarorð: Stöng.
  18. Birna Lárusdóttir. 2011. bls. 47.
  19. Stórmerkur fornleifafundur í Þjórsárdal Rúv, skoðað 3. jan, 2019.
  20. Landslagsverndarsvæði Þjórsárdal Umhverfisstofnun
  • Birna Lárusdóttir, Adolf Friðriksson, Árni Hjartarson, Bjarni F. Einarsson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Guðmundur J. Guðmundsson, Hilur Gestsdóttir, Orri Vésteinsson og Þóra Pétursdóttir. Mannvist; Sýnibók íslenskra fornleifa. Reykjavík: 2011.
  • Dugmore, Andrew J., Mike J. Church, Kerry-Anne Mairs, Thomas H. McGovern, Sophia Perdikaris og Orri Vésteinsson. „Abandoned Farms, Volcanic Impacts, and Woodland Management: Revisiting Þjórsárdalur, the “Pompeii Of Iceland.“Artic Anthropology 44, 1. bls. 1–11.
  • Einar Laxness. Íslandssaga a-ö. Reykjavík: 1995. Leitarorð: Stöng.
  • Hansen, Steffen Stummann. „"Pompei Íslands": norræni fornleifaleiðangurinn í Þjórsárdal 1939.“ Geymt 15 mars 2016 í Wayback Machine Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Reykjavík: 2003.
  • Hansen, Steffen Stummann og Orri Vésteinsson. Archaeological investigations in Þjórsárdalur 2001. Reykjavík : 2002.
  • Kristján Eldjárn 1961, „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal." Árbók hins íslenzka fornleifaélags 1961, bls. 7-46.
  • Sveinbjörn Rafnsson 1977, „Sámsstaðir í Þjórsárdal.’ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1976, bls. 39-120.
  • Vilhjálmur Ö. Vilhjálmsson 1989, „Stöng og Þjórsárdalur bosættelsens ophør.' Hikuin 15, bls. 75-102.