Sigurður Þórarinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Surtsey, sem reis úr hafi 1963. Sigurður skrifaði m.a. bók um Surtseyjargosið.
Sigurður (til vinstri) með bandarískum geimförum í Drekagili árið 1967.

Sigurður Þórarinsson (8. janúar 19128. febrúar 1983) var íslenskur náttúrufræðingur, landfræðingur, jarðfræðingur, eldfjallafræðingur og jöklafræðingur, prófessor við Háskóla Íslands og vísnaskáld. Hann var brautryðjandi á sviði gjóskulagafræði, og vann mikilvægar rannsóknir á fleiri sviðum jarðfræðinnar, einkum í eldfjallafræði og jöklafræði, bæði á Íslandi og erlendis.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður fæddist á Teigi í Vopnafirði en ólst upp á Hofi í sömu sveit. Hann lauk stúdentsprófi frá MA vorið 1931. Síðan tók hann doktorspróf við Stokkhólmsháskóla árið 1944, og hóf þá merkan feril sem vísindamaður. Hann var prófessor í landafræði og jarðfræði við Háskóla Íslands. Hann var fjölhæfur maður sem var jafnvígur á jarðfræði, landmótunarfræði, jöklafræði og loftslagsfræði, og náði að gera gjóskulagarannsóknir að mikilvægum þætti í fornleifafræði. Hann lét einnig til sín taka í náttúruverndarmálum.

Sigurður varð bráðkvaddur í Reykjavík árið 1983. Skömmu síðar ákváðu Alþjóðasamtök um eldfjallafræði (International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth's Interior (IAVCEI)) að heiðra minningu hans með því að kenna æðstu viðurkenningu samtakanna við hann: Heiðursmerki Sigurðar Þórarinssonar.

Félagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður lét til sín taka í félagsmálum. Hann var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags 1947-1949 og aftur 1957 og var ritstjóri Náttúrufræðingsins 1952-1953, hann var í Jöklarannsóknarfélaginu, í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar Náttúruverndarráði, formaður Jarðfræðafélagsins 1966-1968 og forseti Ferðafélags Íslands 1976-1977.

Sigurður Þórarinsson samdi marga vinsæla söngtexta, svo sem ''Þórsmerkurljóð'', ''Vorkvöld í Reykjavík'' og ''Að lífið sé skjálfandi lítið gras''. Hann þýddi einnig marga texta eftir sænska skáldið Carl Michael Bellman og gaf út bók um hann. Á efri árum tók hann nokkurn þátt í starfsemi Vísnavina. Árið 2013 stóð Hið íslenska náttúrufræðifélag ásamt fleirum að útgágu geisladiska (CD og DVD) með söngtextum eftir Sigurð í flutningi fjölmargra listamanna og ýmsu myndefni að auki undir heitinu Kúnstir náttúrunnar. Söngvísur og svipmyndir. Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar 1912-2012.

Helstu rit[breyta | breyta frumkóða]

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Þórarinsson: Tefrokronologiska studier på Island : Þjórsárdalur och dess förödelse, 1944. Doktorsritgerð við Háskólann í Stokkhólmi.
  • Sigurður Þórarinsson: Eldur í Heklu. Almenna bókafélagið, Reykjavík 1956
  • Sigurður Þórarinsson: Heklueldar, Reykjavík 1968.
  • Sigurður Þórarinsson: Vötnin stríð. Saga Skeiðarárhlaupa og Grímsvatnagosa. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1974.
  • Sigurður Þórarinsson (þýð.): Bellmaniana, Reykjavík 1983. Árni Sigurjónsson sá um útgáfuna.

Greinar[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Þórarinsson, Trausti Einarsson og Guðmundur Kjartansson: On the Geology and Geomorphology of Iceland. Geografiska annaler 41, 2–3, bls. 135–169, 1959.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Enska Wikipedia, 24. febrúar 2008.
  • Sigurður Steinþórsson: Memorial to Sigurdur Thorarinsson, 1912-1983. The Geological Society of America Memorials, vol. XV, bls. 1–6, 1985.
  • Sigurdur Thorarinsson, 1912-1983. The Geographical Journal, vol. 149, bls. 405–406, 1983.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]