Fara í innihald

Skógræktin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skógrækt ríkisins)
Skógræktin
Merki Skógræktarinnar
Rekstrarform Opinber stofnun
Stofnað 2016 (Upprunalega 1907)
Örlög Sameinaðist Land og skógur 2024
Staðsetning Aðalskrifstofa, Miðvangur 2 - 4, 700 Egilsstaðir
Lykilpersónur Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri
Starfsfólk ∼ 70
Vefsíða skogur.is

Skógræktin er íslensk ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og vinnur að þróun skógræktar á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skógræktin var stofnuð með lögum árið 1907 og tók til starfa 1. janúar 1908. Hún heyrði upphaflega undir ráðherra Íslands. Árið 1940 var stofnunin flutt undir landbúnaðarráðuneytið. Þá var farið að tala um Skógrækt ríkisins. Árið 1990 var aðalskrifstofa stofnunarinnar flutt frá Reykjavík til Egilsstaða. Á aldarafmæli stofnunarinnar var hún færð undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Hinn 1. júlí 2016 varð núverandi stofnun til, Skógræktin, við sameiningu Skógræktar ríkisins og fimm lítilla stofnana sem sáu um landshlutaverkefni í skógrækt, hver í sínum landshluta. Þetta voru Héraðs- og Austurlandsskógar, Suðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum og Norðurlandsskógar. Í skipuriti Skógræktarinnar skiptist stofnunin í fjögur svið, skógarþjónustusvið sem sinnir einkum þjónustu við skógrækt á lögbýlum, þjóðskógasvið sem sér um rekstur þjóðskóganna, rannsóknasvið sem stundar skógrannsóknir og skógmælingar og rekstrarsvið sem sér um fjármál stofnunarinnar, mannauðsmál og fleira. Skógræktarstjóri er yfirmaður sviðanna fjögurra og einnig embættis fagmálastjóra sem er skógræktarstjóra til fulltingis og hefur með höndum ýmislegt sem snertir alþjóðlegt samstarf og samskipti.

Árið 2024 sameinaðist Skógræktin Landgræðslunni í nýrri stofnun Land og skógur.

Hlutverk[breyta | breyta frumkóða]

Skógræktin er þekkingar-, þróunar- og þjónustuaðili sem vinnur með og fyrir stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila að rannsóknum, þróun, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar. Stofnunin er í forsvari fyrir Íslands hönd í erlendu samstarfi á sviði skógræktar. Yfirmaður skógræktarinnar er skógræktarstjóri. Núverandi skógræktarstjóri er Þröstur Eysteinsson. Frá upphafi hefur stofnunin haft tvær meginskyldur, að vernda og viðhalda skóglendi sem fyrir er í landinu og rækta nýja skóga landinu til heilla og nytja.

Vernd og útbreiðsla birkiskóga[breyta | breyta frumkóða]

Við landnám er talið að birkiskóglendi hafi þakið 25%-40% landsins. Þegar Skógræktin tók til starfa 1908 var birkiskóglendi aðallega slitrur hér og hvar, samtals innan við hálft prósent landsins. Fáeinir heillegir skógar voru eftir. Þeirra þekktastir voru Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur sem ríkið hafði keypt nokkru áður til að forða þeim frá eyðingu. Skógræktin fékk svo það hlutverk að forða fleiri birkiskógum frá eyðingu og vinna að því að birkiskóglendi gæti breiðst út á ný. Það reyndist torvelt verk enda sauðfjárbeit um allt land sem kemur í veg fyrir endurnýjun birkiskóga og útbreiðslu þeirra. Smám saman fjölgaði birkiskógum undir verndarvæng Skógræktarinnar. Stofnunin hefur haft umsjón með Þórsmörk og Goðalandi frá 1920 og þar hefur skógur sem var á fallanda fæti margfaldast og breiðist enn út. Vatnaskógur í Svínadal, Laugarvatnsbrekkur, Ásbyrgi, Arnaldsstaðaskógur í Fljótsdal, Sigríðastaðaskógur í Ljósavatnsskarði, Mela- og Skuggabjargaskógur og fleiri skógar í Fnjóskadal eru einnig meðal birkiskóga sem Skógræktin verndar og varðveitir. Alla sína tíð hefur Skógræktin gert tilraunir með útbreiðslu birkis og talað fyrir verndun lands svo að birki gæti breiðst út. Birki hefur einna helst átt skjól þar sem land hefur verið friðað fyrir beit, ekki síst á skógræktarsvæðum þar sem ræktaðir eru nytjaskógar. Þar kemur birkið ævinlega upp, sé nokkur fræuppspretta í grenndinni. Minnkandi beit og friðun lands á vegum ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga hefur líka leitt til aukinnar útbreiðslu birkis. Birkiskógur og birkikjarr þrífst nú á 1,5% landsins (2022).

Nýskógrækt[breyta | breyta frumkóða]

Frá upphafi vann Skógræktin að því að reyna innfluttar trjátegundir til skógræktar á Íslandi eins og kveðið var á um í lögum um stofnunina. Á þeim tíma sem liðinn er hafa verið reyndir tugir nytjatrjátegunda. Best hafa reynst þær fimm trjátegundir sem nú eru megintegundir í nýskógræktarverkefnum hérlendis, alaskaösp, ilmbjörk, rússalerki, sitkagreni og stafafura. Um miðja 20. öld voru miklar vonir bundnar við skógarfuru í skógrækt hérlendis og var hún gróðursett í stórum stíl víða um land fram yfir 1960 þegar furulús varð flestum trjánum að aldurtila og notkun tegundarinnar var hætt. Fáein tré stóðu lúsina þó af sér og frærækt af þeim gefur vonir um að tegundina megi nota að einhverju marki, í það minnsta til skrauts í skógum og til garðræktar. Þá var lengi vel talið að rauðgreni væri hentugri grenitegund en sitkagreni, ekki síst á Norður- og Austurlandi. Sú hefur ekki verið raunin því rauðgrenið vex mun hægar og er því lengur að gefa af sér afurðir. Skógræktin hefur undanfarna áratugi unnið að kynbótum á lerki og útkoman úr því er blendingur sem fæst með blöndun úrvalstrjáa rússalerkis og evrópulerkis. Blendingurinn kallast Hrymur og hefur svokallaðan blendingsþrótt, þ.e. hann sýnir kosti beggja foreldranna, vex vel eins og evrópulerki og þrífst betur við íslenskar aðstæður en rússalerki, einkum þar sem hafræns loftslags gætir. Ísland er landfræðilega á barrskógabeltinu og reynslan hefur sýnt að hér vaxa barrskógar álíka vel og á sömu breiddargráðum í Skandinavíu. Rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur gert skógmælingar í yfir 30 ár í verkefni sem kallast Íslensk skógarúttekt. Gögn úr þeim mælingum eru m.a. hluti af þeim gögnum sem Ísland skilar til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Gögnin sýna að binding í ræktuðum skógi á Íslandi er að meðaltali um 10 tonn á hektara á ári miðað við 50 ára vaxtarlotu. Það er mun meira en margir þorðu að vona framan af og sýnir mátt og möguleika skógræktar á Íslandi, bæði til nytja og til bindingar á kolefni. Nytjaskógrækt á Íslandi skilar því bæði verðmætum afurðum sem leyst geta af hólmi mengandi hráefni eins og olíu, plast, stál og steinsteypu og stuðlar að mikilli bindingu á koltvísýringi úr andrúmsloftinu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]