Sámsstaðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sámstaðir er bæjarrúst staðsett í Þjórsárdal í Árnessýslu á Íslandi. Margar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar þar. Ein fyrsta staðarathugun á föstum fornminjum á Íslandi var framkvæmd á Sámsstöðum og þetta mun vera með þeim fyrstu bæjarrústum sem grafnar voru upp beinlínis til að afla þekkingu um forna hýbýla- og lifnaðarhætti á Íslandi. Talið er að Heklugosið 1104 hafi lagt Sámsstaði í eyði.

Staðhættir[breyta | breyta frumkóða]

Á milli Búrfells og Skeljafells er Sámsstaðaklif. Bærinn Sámsstaðir stóð framan undir Skeljafelli. Suðvestur horn Skeljafells er kallað Sámsstaðamúli. Rústirnar af Sámsstöðum eru dreifðar um stórt svæði á milli Sámsstaðamúlahorns og Fossár. Búrfellsvirkjun og þau mannvirki sem fylgja henni má segja að séu reist á hinni fornu Sámsstaðarjörð.[1]

Elstu heimildir um Sámsstaði[breyta | breyta frumkóða]

Sámsstaðir í Þjórsdárdal eru fyrst nefndir í heimildum í Biskupaannálum Jóns Egilssonar.[2] Þar er þess getið að Hjalti á Núpi hafi haft bú á Sámsstöðum í Þjórsárdal.[3]

Sámsstaðir hafa verið kenndir við manninn Sám sem átti að hafa búið þar fyrstur. Að öðru leyti er ekki vitað meira um hann. Hann virðist ekki hafa verið forfaðir Hjalta. Hjalti eða foreldrar hans gætu hafa keypt jörðina.[4] Árni Magnússon skrifaði talsvert um eyðibyggðina í Þjórsárdal í bók sinni Chorographica Islandica og í jarðabók hans og Páls Vídalíns, þar er Sámsstaða getið. Það virðist sem að í tíð Árna hafi sést til bæjarrústa Sámsstaða.[5]

Fornleifarannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Brynjúlfur Jónsson var sá fyrsti sem gerði uppdrátt af Sámsstöðum með lýsingu, hann gerði það árið 1861 en þessi uppdráttur virðist hafa glatast. Brynjúlfur gerði í heild þrjár lýsingar á Þjórsárdal, sá fyrstu árið 1862, aðra veturinn 1867-1868 og þá þriðju árið 1880 sem prentuð var 1885 í Árbók. Mið útgáfan er talin hafa glatast. Aðeins tvær lýsingar Brynjúlfs af Sámsstöðum eru því til: Í Lbs. 578, 4to og Árbók 1885.[6]

Sumarið 1895 rannsakaði Þorsteinn Erlingsson fornminjar á suður- og vesturlandi. Dagana 8. – 9. júlí gerði hann rannsókn á Sámsstöðum[7] og gróf í rústina,[8] með í för var Brynjúlfur Jónsson.[9] Það barst einn gripur Þjóðminjasafninu eftir þessa rannsókn, snældusnúður úr blýi og jafnframt eini blýsnúðurinn sem hefur fundist í Þjórsárdal.[10] Hann fannst á milli fjóss og bæjar á Sámsstöðum. Rannsókn Þorsteins 1895 var brautryðjendastarf í Þjórsárdalsrannsóknum og í íslenskri fornleifafræði almennt.[11]

Ári seinna eða sumarið 1896 kom danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun til landsins til þess að rannsaka fornminjar, kunningskapur hefur verið með þeim Þorsteini því að hann getur þess að Þorsteinn hafi lánað honum teikningarnar sínar af rústum í Þjórsárdal.[12] Hann byggði lýsingu sína á skýrslu Þorsteins.[13]

Þessar Sámsstaðarannsóknir eru á ýmsan hátt merkilegar í íslenskri fornleifafræðisögu. Hér er um að ræða einhverja fyrstu staðarathugun á föstum fornminjum á Íslandi. Þetta mun vera með þeim fyrstu bæjarrústum sem grafnar voru upp beinlínis til að afla þekkingu um forna hýbýla- og lifnaðarhætti á Íslandi. Rannsóknirnar marka jafnframt upphaf fornleifarannsókna í Þjórsárdal. Í kjölfar rannsókna Þorsteins Erlingssonar á Sámsstöðum komu til fleiri frumrannsóknir á fleiri bæjarrústum.[14]

Árið 1967 áður en framkvæmdir hófust við Búrfellsvirkjun gerði Gísli Gestsson safnvörður Þjóðminjasafnsins kort yfir fornminjasvæðið. Á því sést að heilmikið grjótdreif var vestan við bæjarrústina og mikið magn af rauðablástursleifum. Þessar minjar voru ekki skráðar að öðru leyti og var þeim eytt árið 1967.[15]

Á árunum 1971-1972 hófst fornleifauppgreftir á Sámsstöðum sem var stjórnað af Sveinbirni Rafnssyni. Markmiðið með þeirri rannsókn var tvíþætt, annarsvegar var um endurrannsókn á bæjarhúsunum að ræða en hinsvegar var gerð frumrannsókn á austasta bæjarhúsinu, fjósi og hlöðu.[16] Rannsóknirnar voru með sama sniði og í Þjórsárdalsleiðangrinum árið 1939. Grafið var niður að gólfum en farið var dýpra í lóðskurðum sem sjást á uppdrætti.[17] Athuganir og fundnir munir voru skrásettir jafnóðum er þeir komu í ljós og teknar ljósmyndir.[18] Í ritgerð Guðrúnar Öldu Gísladóttir Gripir úr Þjórsárdal stendur „Grafin var fram bæjarrúst sem samanstóð af skála með stofu við annan enda og viðbyggingum að sjálabaki og auk hennar (útibúr eða skemma) rétt SA frá bæjarhúsum og fjós með hlöðu enn lengra SA –af“.[19] Fjósið á Sámsstöðum er byggt smá spöl frá bæjarhúsunum en það er einkenni Þjórsárdalsbæja. Sámsstaðabærinn sver sig í ætt þeirra.[20]

Elstu byggðaleifar[breyta | breyta frumkóða]

Við rannsóknina 1971-1972 fundust ummerki um eldri byggðarleifar undir skálatóft og voru þær um leið elstu mannvistarleifarnar á staðnum, það fannst í þeim járngjall.[21] Svo að [rauðablástur] hefur verið stundaður á skeiði þessarar elstu byggingar.[22] Mannvistarleifarnar sem fundust undir skálanum voru taldar yngri en K~1000 því það gjóskulag fannst í torfinu en það er nú greint sem E~934. Hvíti vikurinn úr Heklu 1104 lá yfir rústum þar sem Þorsteinn Erlingsson hafði ekki grafið og víða beint ofan á gólfum, talið er að það gos hafi lagt Sámsstaði í eyði.[23]

Forngripir[breyta | breyta frumkóða]

210 gripir frá Sámsstöðum bárust til Þjóðminjasafnsins á árunum 1895-1971. Af þeim upplýsingum sem hafa fengist við rannsóknir á gripunum má ætla að þeir séu frá tímabilinu 900-1200 eins og flestir aðrir gripir sem fundist hafa í Þjórsárdal.[24]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  2. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  3. Jón Sigurðsson, 1856.
  4. M.Þ. 1941-1942.
  5. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  6. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  7. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  8. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  9. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  10. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  11. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  12. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  13. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  14. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  15. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  16. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  17. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  18. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  19. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  20. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  21. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  22. Sveinbjörn Rafnsson, 1976.
  23. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.
  24. Guðrún Alda Gísladóttir, 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Guðrún Alda Gísladóttir. (2004). Gripir úr Þjórsárdal. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Heimspekideild.
  • Jón Sigurðsson. (1856). Biskupa-annálar Jóns Egilssonar, með formála, athugagreinum og fylgiskjölum [rafræn útgáfa].
  • M.Þ. (1941-1942). Þjórsdælir hinir fornu [rafræn útgáfa]. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 48, 1-16.
  • Ritstjóri óþekktur, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju (bls. 33). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1856.
  • Sveinbjörn Rafnsson (1976). Sámsstaðir í Þjórsárdal [rafræn útgáfa]. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags,73, 39-120.