Valdimar mikli Knútsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Valdimar Knútsson)
Stytta Valdimars mikla í Ringsted.

Valdimar mikli eða Valdimar Knútsson (14. janúar 113112. maí 1182) var konungur Danmerkur frá 1157 til dauðadags, fyrstu mánuðina með frændum sínum Sveini Eiríkssyni og Knúti Magnússyni en eftir það einn.

Valdimar var sonur Knúts lávarðs, sonar Eiríks góða, og Ingibjargar af Kænugarði, konu hans. Hann fæddist átta dögum eftir að Magnús sterki lét drepa föður hans. Hann ólst upp hjá sjálenska höfðingjanum Asser Rig af Hvide-ætt, með sonum hans Absalon og Esbern Snare.

Í borgarastyrjöldinni milli Sveins Eiríkssonar og Knúts Magnússonar studdi Valdimar framan af Svein, sem gerði hann að hertoga af Slésvík, en síðar varð Valdimar Sveini fráhverfur og árið 1154 gekk hann í bandalag við Knút og trúlofaðist hálfsystur hans, hinni fögru Soffíu af Minsk. Árið 1157 var samið um að skipta ríkinu í þrennt milli þeirra frændanna og fékk Valdimar þá Jótland í sinn hlut. Í veislu í Hróarskeldu í ágústmánuði sveik Sveinn frændur sína og réðist að þeim. Knútur var drepinn og Valdimar særðist en komst undan á flótta. Hann safnaði saman bændaher á Jótlandi og 23. október um haustið vann hann sigur á Sveini í orrustu á Grathe-heiði. Sveinn var höggvinn og eftir það var Valdimar einn konungur.

Valdimar styrkti konungsríkið mjög, enda ekki vanþörf á eftir langvarandi innanlandsófrið, og réðist meðal annars gegn Vindum, sem höfðu lengi herjað á Danmörku með ránum. Við það naut hann stuðnings Absalons uppeldisbróður síns, sem hann útnefndi biskup í Hróarskeldu 1158 og varð síðar erkibiskup í Lundi. Uppreisn var gerð gegn Valdimar og Absalon árið 1180 og urðu þeir að flýja land en sneru aftur með her ári síðar og bældu uppreisnina niður.

Miklar breytingar urðu á dönsku samfélagi á ríkisstjórnarárum Valdimars. Skattkerfinu var breytt og embættismannakerfið styrkt. Tekjur konungsins voru auknar, meðal annars með því að samþykkt var að allt það land sem enginn ætti skyldi tilheyra krúnunni.

Valdimar dó vorið 1182 og er grafinn í Ringsted. Hann átti átta börn með Soffíu konu sinni, synina Knút 6. og Valdimar sigursæla og sex dætur, þar á meðal Ingibjörgu konu Filippusar 2. Ágústs Frakkakonungs og Ríkissu konu Eiríks Knútssonar Svíakonungs.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Sveinn Eiríksson Grathe
Knútur Magnússon
Konungur Danmerkur
(11571182)
Eftirmaður:
Knútur 6.