Soffía af Minsk
Soffía af Minsk (um 1140 – 1198) var hertogadóttir frá Minsk (nú í Hvíta-Rússlandi) og drottning Danmerkur 1157-1182 og seinna greifynja af Thüringen.
Soffía var dóttir Ríkissu af Póllandi og Volodars fursta af Minsk, sem var annar í röðinni af eiginmönnum Ríkissu. Sá fyrsti var Magnús sterki, krónprins Danmerkur (d. 1134). Eftir að hjónabandi Ríkissu og Volodars var slitið um 1145 fór hún til Svíþjóðar með Soffíu og giftist þar Sörkvi Svíakonungi (d. 1156). Soffía ólst því upp við sænsku hirðina. Hún var sögð afar fögur en metnaðargjörn og stjórnsöm.
Hálfbróðir Soffíu, sonur Ríkissu, var Knútur Magnússon, sem framan af var undirkonungur Sveins Eiríkssonar Grathe en árið 1154 gerði hann samkomulag við Valdimar son Knúts lávarðs, sem áður hafði stutt Svein, um að þeir skyldu verða konungar saman og hrekja Svein úr landi. Hluti af samkomulaginu var að Valdimar skyldi fá Soffíu fyrir konu og fá í heimanmund með henni einn áttunda af eignum Knúts. Þau giftust þó ekki strax vegna þess hve ung Soffía var. Árið 1157 sneri Sveinn aftur og samkomulag var gert um að þeir yrðu allir þrír konungar. Sveinn ginnti meðkonunga til sín skömmu síðar og drap Knút en Valdimar mágur hans komst undan, særður þó, og felldi svo Svein í bardaga um haustið og varð þá einn konungur. Um sama leyti giftist hann Soffíu.
Soffía og Valdimar mikli áttu átta börn sem upp komust, þar á meðal konungana Knút 6. og Valdimar sigursæla og dæturnar Ríkissu, sem giftist Eiríki Knútssyni Svíakonungi, og Ingibjörgu, sem giftist Filippusi 2. Frakkakonungi.
Samkvæmt þjóðkvæðum var Soffía grimmlynd og hefnigjörn og lét meðal annars brenna Tófu, frillu Valdimars, inni. Ekkert er þó vitað um sannleiksgildi þeirra sagna. Valdimar dó árið 1182 og um það bil tveimur árum seinna giftist hún Lúðvík greifa af Thüringen. Hann sagði þó skilið við hana stuttu síðar og sendi hana aftur til Danmerkur og þótti hún hafa gert mikla sneypuför. Soffía dó í Danmörku og er grafin í Ringsted hjá Valdimar fyrri manni sínum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Sofia av Minsk“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Sophia of Minsk“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. september 2010.