Fara í innihald

Knútur lávarður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Knútur lávarður. Freska frá miðöldum í kirkjunni í Vigersted í Danmörku.

Knútur lávarður (um 1096 – 7. janúar 1131 ) var danskur konungssonur og jarl og síðar hertogi af Slésvík og Holtsetalandi.

Knútur var eini skilgetni sonur Eiríks góða Danakonungs og Bóthildar drottningar. Faðir hans átti einnig frillubörnin Harald kesju, Eirík eymuna og Ragnhildi, sem varð móðir Eiríks lambs. Foreldrar Knúts dóu bæði í Jórsalaferð árið 1103. Knútur þótti þá of ungur til að taka við ríkjum og varð því Níels föðurbróðir hans konungur. Knútur ólst upp hjá Hvide-ættinni á Sjálandi. Árið 1115 gerði Níels föðurbróðir hans hann að jarli af Slésvík og fól honum að berjast gegn ásælni obotríta, slavnesks þjóðflokks í Holtsetalandi. Við þetta varð Knúti svo vel ágengt að obotrítar kusu hann konung sinn árið 1129. Lóthar 3. keisari viðurkenndi yfirráð hans og gerði hann að hertoga af Holtsetalandi. Knútur tók sér þá einnig titilinn hertogi af Slésvík.

Knútur var vinsæll meðal þegnanna og munu þeir Níels konungur og sonur hans, Magnús sterki, hafa óttast vinsældir hans en þó ekki síður tengsl hans við keisarann. Magnús leit á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir og í ársbyrjun 1131 bauð hann Knúti á fund í Haraldsted-skógi við Ringsted og myrti eða lét myrða hann þar 7. janúar. Morðið þótti mikið níðingsverk og var það upphafið á borgarastyrjöld sem í raun lauk ekki fyrr en 1157, þegar Valdimar sonur Knúts varð einn konungur Danmerkur.

Valdimar barðist hart fyrir því að fá föður sinn tekinn í helgra manna tölu og tókst það árið 1170. Sagan segir að lind hafi sprottið upp á morðstaðnum og var á henni mikil helgi. Kapella var reist á staðnum þar sem Knútur var myrtur og var hún fjölsótt af pílagrímum allt til siðaskipta en féll þá í gleymsku og fannst ekki aftur fyrr en 1883. Lindin helga hefur ekki fundist. Messudagur Knúts lávarðs er dánardagur hans, 7. janúar.

Knútur var giftur Ingibjörgu af Kænugarði, dóttur Mstislavs 1. og Kristínar, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Þegar Knútur var myrtur áttu þau þrjár dætur en sjö dögum eftir lát hans fæddi Ingibjörg son sem hún nefndi Valdimar eftir afa sínum. Ein dóttir þeirra Knúts og Ingibjargar var Kristín, sem giftist Magnúsi blinda Noregskonungi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]