Ingibjörg af Kænugarði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ingibjörg af Kænugarði (d. eftir 1137) eða Engilborg var rússnesk furstadóttir á 12. öld, sem giftist Knúti lávarði Danaprinsi. Hún var móðir Valdimars mikla Danakonungs.

Ingibjörg var dóttir Mstislavs 1. fursta af Kænugarði og Kristínar Ingadóttur af Svíþjóð. Hún giftist Knúti, hertoga af Suður-Jótlandi og syni Eiríks góða Danakonungs, um 1116 fyrir tilstilli móðursystur sinnar, Margrétar friðkollu Danadrottningar. Í Knýtlinga sögu segir svo frá bónorðinu og brúðkaupi þeirra:

„Síðan átti konungr tal við dóttur sína Engilborg ok við annat ráðuneyti sitt ok tjáði þetta mál fyrir þeim. Allir fýstu þessa ráðs, ok þótti þetta vel efnat, ok var þat ráð gört með samþykki Engilborgar, konungs dóttur, at hana skyldi gipta Knúti lávarði, ok fór Viðgautr til Danmerkr með þessum erendum ok fann Knút lávarð ok sagði honum frá sínum ferðum. Hertoginn þakkaði honum sitt starf. Eptir þetta efnaði Knútr lávarðr til brúðlaups síns, en Haraldr sendi Engilborg, dóttur sína, austan ór Hólmgarði at nefndri stundu með fríðu föruneyti. En er hon kom til Danmerk, tók hertoginn vel við henni ok þar með öll alþýða; síðan gerði hann brúðlaup sitt með miklum sóma. Þau áttu nökkur börn, þau er enn munu síðar nefnd vera.“

Þau eignuðust saman þrjár dætur. Um áramótin 1130-1131 átti hún enn von á barni. Knútur maður hennar var þá boðinn í heimsókn til frænda síns, Magnúsar sterka, sem var sonur Níelsar konungs, föðurbróður Knúts. Ingibjörg reyndi að fá mann sinn ofan af því að fara en tókst það ekki og þann 7. janúar var Knútur myrtur af mönnum Magnúsar. Sjö dögum síðar fæddi Ingibjörg son og nefndi hann Valdimar eftir afa sínum, Vladimir stórfursta af Kænugarði.

Ingibjörg kom seinast við heimildir árið 1137, þegar sumir vildu taka Valdimar son hennar til konungs á þingi í Ringsted eftir drápið á Eiríki eimuna. Ingibjörg neitaði, vildi ekki að sonur hennar yrði barnakonungur sem stýrt yrði af aðalsmönnum. Ekkert er vitað hvað um hana varð eftir það. Hennar var ekki getið þegar Valdimar fékk föður sinn tekinn í helgra manna tölu 1169 og hún er ekki grafin við hlið hans. Þess hefur verið getið til að hún hafi horfið aftur heim til Rússlands og Valdimar hafi ef til vill alist þar upp að hluta.

Ein dætra Ingibjargar var Kristín, sem var skamma hríð drottning Noregs, kona Magnúsar blinda Noregskonungs.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]