Fara í innihald

Þrettándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lincoln skrifar undir felsisveitinguna svokölluðu (e. Emancipation Proclamation) ásamt ríkisstjórn sinni, sem veitti þrælum í Bandaríkjunum frelsi árið 1863, tveimur árum áður en það var staðfest með gildistöku þrettánda viðaukans árið 1865.

Þrettándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna (e. Thirteenth Amendment to the United States Constitution eða Amendment XIII) er stjórnarskrárbreyting sem tók gildi árið 1865 og bannar alfarið þrælahald, og nauðungavinnu nema í þeim tilfellum þar sem glæpamenn eru dæmdir til hegningarvinnu.[1] Abraham Lincoln Bandaríkjaforseti (1861-1865) hafði frumkvæði að því að innleiða viðaukann, í þeim tilgangi að binda enda á þrælahald í Bandaríkjunum. Viðaukinn var sá fyrsti af þremur viðaukum stjórnarskrárinnar sem kenndir eru við endurbyggingatímabil Bandaríkjanna, sem stóð yfir á árunum eftir bandarísku borgarastyrjöldina (e. Reconstruction Amendments). Hinir tveir viðaukarnir eru þeir fjórtándi og fimmtándi, og tóku þeir allir gildi á árunum 1865-1870.[2]

Texti[breyta | breyta frumkóða]

Viðaukinn er svohljóðandi á ensku:

Section 1.
„Neither slavery nor involuntary servitude, except as a punishment for crime whereof the party shall have been duly convicted, shall exist within the United States, or any place subject to their jurisdiction.“
Section 2.
„Congress shall have power to enforce this article by appropriate legislation.“[3]

Hann hefur verið þýddur á íslensku á eftirfarandi hátt:

1. hluti
„Hvorki þrældómur né nauðungarvinna, nema sem hegning fyrir glæp, sem maður hefur verið réttilega sakfelldur fyrir skal eiga sér stað innan Bandaríkjanna eða á nokkrum stað sem þau hafi lögsögu yfir.“
2. hluti
Sambandsþingið hefur vald til að framfylgja þessu ákvæði með viðeigandi löggjöf.“[4]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Abraham Lincoln.
Þrettándi viðaukinn batt enda á þrælahald í Bandaríkjunum.

Aðdragandinn[breyta | breyta frumkóða]

Þegar stjórnarskrá Bandaríkjanna var skrifuð árið 1787 stóðu yfir miklar deilur á milli Suðurríkjanna annars vegar, og Norðuríkjanna hinsvegar, um mörg málefni og þá sérstaklega þrælahald. Skipulagt þrælahald hafði að mestu verið afnumið í Norðurríkjunum, þar sem efnahagurinn byggðist á alþjóðlegri verslun og iðnvæðingin var að hefjast. En í Suðurríkjunum var þrælahald enn við lýði og þar byggðist efnahagurinn að mestu á hefðbundnum landbúnaði. Þrælahald var sérstaklega mikilvægt fyrir þann víðtæka plantekrubúskap sem þar var rekinn. Þegar landsfeður Bandaríkjanna skrifuðu stjórnarskrána var ekki tekið sérstaklega á þessu vandamáli, heldur var deilunni einfaldlega frestað til framtíðarinnar.[5]

Stjórnarskráin fyrir borgarastyrjöldina[breyta | breyta frumkóða]

Landsfeðrum Bandaríkjanna tókst að vissu leyti að miðla málum þegar þeir skrifuðu stjórnarskrána, og koma til móts við yfirstéttina í Suðurríkjunum til þess að stefna ekki hinu nýja ríkjasambandi Norður-Ameríku í uppnám, með því sem kallað hefur verið á enskuThe Three-Fifths Compromise“. Þetta var málamiðlun sem birtist í 2. hluta 1. greinar stjórnarskrárinnar um löggjafavaldið, sem sagði að telja ætti þræla meðal íbúafjölda þegar meta átti hversu marga fulltrúa hvert fylki átta að hafa í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en þó var hver þræll metinn sem þrír-fimmti hluti venjulegs (frjáls) manns.[6] Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið kallað „The Three-Fifths Clause,“ og er svohljóðandi á íslensku:

„Fulltrúatölu... skal jafna niður milli þeirra ríkja, sem eru í bandalagi þessu, eftir íbúatölu hvers þeirra, sem ákveðin skal með því að bæta við fulla tölu frjálsra manna - að þeim meðtöldum sem gegna herþjónustu um ákveðinn árafjölda, en að frátöldum indíánum er ekki greiða skatt - þremur fimmtu hlutum allra annarra manna.“[7]

Bandaríkjaþing lagði ekki bann við þrælasölu fyrr en árið 1808, en þrælahald hélt áfram óáreitt í Suðurríkjunum.[8]

Deilan um þrælahald gerjaðist eftir því sem leið á 19. öldina og varð síðar ein af höfuðorsökum bandarísku borgarastyrjaldarinnar, sem blossaði upp á milli Suðurríkjanna og Norðurríkjanna á árunum 1861-1865. Abraham Lincoln hafði verið kosinn forseti árið 1861 fyrir Repúblikanaflokkinn og eitt af helstu stefnumálum hans var að afnema þrælahald. Í miðju borgarastríðinu, árið 1863, veitti Lincoln öllum þrælum Bandaríkjanna frelsi með frelsisveitingunni svokölluðu (e. Emancipation Proclamation).[9][10] Um það bil þegar Norðurríkin voru að fara með sigur af hólmi, var þrettándi viðaukinn samþykktur af Bandaríkjaþingi þann 31. janúar 1865, og tók síðan gildi 6. desember.[11] Endurbyggingatímabil Bandaríkjanna fylgdi þar á eftir, en á árunum 1865-1877 voru Suðurríkin hernumin af alríkinu sem beitti sér einnig fyrir viðamikilli uppbyggingu á innviðum þeirra, m.a. til að koma til móts við afnám þrælahaldsins.[12]

Arfleifð þrettánda viðaukans[breyta | breyta frumkóða]

Með gildistöku þrettánda viðaukans féll hið áðurnefnda „Three-Fifths Clause“ ákvæði stjórnarskrárinnar eiginlega úr gildi þar sem allir íbúar Bandaríkjanna voru nú frjálsir að nafninu til. Kosningaákvæði fjórtánda viðaukans sem tók gildi árið 1868 leysti það af hólmi, en samkvæmt því eru allir menn taldir jafnt þegar meta á fjölda fulltrúa fylkis á Bandaríkjaþingi út frá íbúatölu.[13]

Félagsleg arfleifð þrælahaldsins varði allt fram á 7. áratug 20. aldar, þar sem fylki Suðurríkjanna ráku lögbundna aðskilnaðarstefnu og mismunuðu blökkufólki á grundvelli litarháttar þeirra, þangað til að hæstiréttur Bandaríkjanna og alríkisstjórnin gripu inn í á tímum réttindabyltingarinnar.

Staða viðaukans nú á tímum[breyta | breyta frumkóða]

Ólíkt hinum tveimur viðaukunum, sem kenndir eru við endurbyggingatímabil Bandaríkjanna, hefur þrettándi viðaukinn verið óumdeildur síðan hann tók gildi og nú á dögum er sjaldan vitnað til hans af dómstólum.[14][15][16]

TIlvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Katz, 2007, bls. 264.
 2. Fyrirmynd greinarinnar var „Reconstruction Amendments“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. nóvember 2014.
 3. „Amendments 11-27“. National Archives. Sótt 21. nóvember 2014.
 4. „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Sótt 21. nóvember 2014.
 5. Katz, 2007, bls. 8-9.
 6. Katz, 2007, bls. 8-9.
 7. „Stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Sótt 21. nóvember 2014.
 8. Katz, 2007, bls. 8.
 9. Katz, 2007, bls. 15-16.
 10. „Emancipation Proclamation“. Encyclopaedia Britannica. Sótt 21. nóvember 2014.
 11. Katz, 2007, bls. 264.
 12. Katz, 2007, bls. 16.
 13. Fyrirmynd greinarinnar var „Three-Fifths Compromise“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. nóvember 2014.
 14. Ashbee, 2004, bls. 44.
 15. McKay, 2005, bls. 55.
 16. Fyrirmynd greinarinnar var „Thirteenth Amendment to the United States Constitution“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. nóvember 2014.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Ashbee, Edward (2004). US Politics Today (2. útgáfa). Manchester; New York: Manchester University Press.
 • Katz, Richard S (2007). Political Institutions in the United States. Oxford: Oxford University Press.
 • McKay, David (2005). American Politics and Society (6. útgáfa). Malden, MA: Blackwell Pub.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]