Fara í innihald

Norræna stofnunin í Finnlandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Nifin)

Norræna stofnunin í Finnlandi (Nifin) var menningarstofnun rekin af Norrænu ráðherranefndinni. Markmið stofnunarinnar var að miðla þekkingu um tungumál og menningu Norðurlandanna í Finnlandi og þekkingu um finnsku og menningu Finnlands annars staðar á Norðurlöndum. Enn fremur var Norræna stofnunin í Finnlandi í samvinnu við systurstofnanir sínar og hús á Norðurlöndunum um að efla menningartengsl milli Norðurlandanna og nágrannaríkja þeirra.

Í Nifin var að finna Norrænt bókasafn með u.þ.b. 16.000 titlum. Auk fagurbókmennta og fræðibóka var þar einnig að finna tímarit, geisladiska, myndbönd og margmiðlunarefni.

Nifin bauð reglulega upp á menningarviðburði af ýmsu tagi, m.a. rithöfundakvöld, lista- og kvikmyndasýningar og fyrirlestra um norræn málefni oft í samstarfi með öðrum stofnunum og menningarmiðstöðum. Ennfremur skipulagði Nifin ráðstefnur og bauð upp á tungumálanámskeið í norrænum málum, gaf út efni um Norðurlöndin og norræn tungumál.

Nifin starfaði náið með skólum og menntastofnunum í Finnlandi.

Nifin var sett á stofn árið 1997 og var til húsa í byggingu Norræna fjárfestingabankans við Kaisaniemenkatu 9 í miðbæ Helsinki. Nifin heitir síðan 2012 Norræna menningargáttin.