Fara í innihald

Loðvík 7. Frakkakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Loðvík 7.)
Loðvík 7. vinnur krossfaraheit.

Loðvík 7. (112018. september 1180), kallaður Loðvík ungi (franska (Louis le Jeune) var konungur Frakklands frá 1137 til dauðadags. Eins og forfeður hans átti hann í erjum við baldna lénsmenn sína en einnig hófst aldalöng barátta Frakka og Englendinga á valdatíma hans.

Loðvík var af Kapet-ætt, næstelsti sonur Loðvíks digra Frakkakonungs og seinni konu hans, Adélaide de Maurienne. Honum var ætlað að öðlast frama innan kirkjunnar en þegar hann var ellefu ára varð hann skyndilega erfingi frönsku krúnunnar þegar Filippus, eldri bróðir hans, fórst í slysi. Loðvík hafði dvalið löngum stundum í klaustrinu Saint-Denis hjá Suger ábóta, ráðgjafa föður síns, var vel menntaður og sérlega trúrækinn og hefði mun fremur viljað vera prestur eða munkur en konungur.

Þegar hann var 17 ára sendi faðir hans hann til Bordeaux til að giftast Elinóru hertogaynju af Akvitaníu, sem þá hafði nýverið erft hertogadæmið eftir föður sinn. Fáeinum dögum eftir brúðkaupið dó Loðvík digri og ungu hjónin urðu konungur og drottning og ríktu jafnframt saman yfir Akvitaníu. Hjónaband þeirra var þó ekki gott því þau voru afar ólík, Elinóra lífsglöð og veraldlega sinnuð en Loðvík siðavandur og alvarlegur. Hann er þó sagður hafa elskað hana heitt.

Stríð við Teóbald 2.

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir trúrækni sína lenti konungur í deilum við Innósentíus II páfa, fyrst út af tilnefningu nýs biskups í Bourges og svo þegar Raoul af Vermandois, frændi konungs, afneitaði konu sinni til að geta gifst Petrónellu, yngri systur Elinóru drottningar. Fyrir bænarstað konu sinnar heimilaði Loðvík þeim að giftast en Teóbald 2. af Champagne, bróðir fyrri konu Raouls, tók þetta afar illa upp og fór í stríð við konunginn. Hann studdi líka biskupsefni páfans í embættið í Bourges.

Stríðið stóð frá 1142-1144. Loðvík hertók Champagne og lét brenna bæinn Vitry-le-François. Yfir þúsund manns fórust í eldinum og tók Loðvík það afar nærri sér, hvarf burt frá Champagne með lið sitt, samþykkti tilnefningu páfabiskupsins og setti Raoul og Petrónellu í ónáð. Til að bæta fyrir syndir sínar hét hann því á jóladag 1145 að fara í krossferð.

Krossferðin

[breyta | breyta frumkóða]
Loðvík og Elinóra sigla heim úr krossferðinni.

Hann hélt svo af stað í Aðra krossferðina í júní 1147 og fór Elinóra drottning með honum ásamt fylgdarliði. Þau héldu landleiðina til Sýrlands með viðkomu í Konstantínópel og komust til Antiokkíu 1148 eftir mikið harðræði - Loðvík hafði meðal annars sloppið naumlega þegar Tyrkir slátruðu hluta af her hans af því að hann var klæddur hversdagslegum kufli eins og pílagrímur en einkennisklæddir lífverðir hans voru strádrepnir. Hann var þó sagður hafa gengið vasklega fram sjálfur í bardaganum.

Í Antiokkíu réði Raymond af Poitiers, föðurbróðir Elinóru, ríkjum og fékk hún Loðvík til að leggja honum lið í bardögum við Aleppó-menn. Loðvík vildi þó umfram allt komast til Jerúsalem og tókst loks að komast þangað. Þar tók hann höndum saman við Konráð 3. Þýskalandskonung og Baldvin 3., konung Jerúsalem, og settust þeir um Damaskus. Það umsátur mistókst þó hrapallega og Loðvík ákvað að halda heim, þrátt fyrir andstöðu Elinóru, sem vildi leggja frænda sínum lið áfram. En Loðvík neitaði að verða við óskum hennar að þessu sinni og þau héldu heim sjóleiðina 1149; Raymond féll svo í bardaga þá um sumarið.

Skilnaður og seinni hjónabönd

[breyta | breyta frumkóða]
Loðvík og Adela drottning fá langþráðan son frá Kristi.

Samkomulag Loðvíks og Elinóru fór síversnandi og konungsríkið skorti erfingja - þau áttu tvær dætur en engan son. Elinóra vildi segja skilið við mann sinn og hann samþykkti það loksins. Þann 21. mars 1152 var hjónaband þeirra dæmt ógilt með páfaleyfi á þeiri forsendu að þau væru of skyld til að eigast, en þau voru bæði afkomendur Róberts 2. Frakkakonungs. Dætur þeirra tvær, María og Alix, skyldu þó teljast skilgetnar. Elinóra skyldi jafnframt fá hertogadæmið og aðrar eignir sínar aftur. Nokkrum vikum síðar giftist hún Hinrik 2. Englandskonungi og varð hann þar með hertogi Akvitaníu með henni.

Loðvík giftist Konstönsu, dóttur Alfons 7. Kastilíukonungs, árið 1154, en eignaðist ekki son með henni heldur, aðeins tvær dætur, Margréti og Alísu. Hinrik 2. Englandskonungur hafði augun opin fyrir þeim möguleika að Loðvík eignaðist ef til vill engan son og samdi því þegar árið 1160 um hjúskap Hinriks, elsta sonar síns, og Margrétar (þau voru þá fimm og tveggja ára), með það fyrir augum að tryggja sátt milli ríkjanna en einnig með það í huga að sonur þeirra gæti hugsanlega erft bæði ríkin.

Sá möguleiki hvarf þó fljótlega úr sögunni. Konstansa drottning dó af barnsförum 4. október sama ár og fimm vikum síðar gekk Loðvík að eiga Adelu af Champagne, dóttur Teóbalds fyrrum fjandmanns síns. Árið 1165 fæddist loks langþráður sonur, Filippus 2. Ágústus. Þau áttu líka dótturina Agnesi.

Efri ár Loðvíks

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar synir Hinriks 2. urðu baldnir og gerðu tíðar uppreisnir gegn föður sínum, studdi Loðvík þá og reyndi að notfæra sér deilurnar innan Plantagenetfjölskyldunnar til að auka eigin áhrif. Það tókst þó ekki sem skyldi, meðal annars vegna innbyrðis ósættis prinsanna. Á stjórnartíma hans töpuðust ýmis landsvæði og hann var vondur herstjóri en ýmislegt var hins vegar bætt í stjórnkerfi ríkisins og hann átti góð samskipti við kirkjuna á síðari hluta stjórnartíðar sinnar. Framfarir urðu í landbúnaði og verslun, fólki fjölgaði og menntun batnaði; meðal annars var Parísarháskóli stofnaður.

Árið 1179 var Filippus krýndur meðkonungur föður síns í Reims og var hann síðasti Frakklandskonungur sem krýndur var að forvera sínum lifandi. Loðvík gat þó ekki verið viðstaddur krýninguna þar sem hann var sjúkur og lamaður. Hann dó haustið 1180.


Fyrirrennari:
Loðvík 6.
Konungur Frakklands
(11371180)
Eftirmaður:
Filippus 2.