Hinrik 1. Frakkakonungur
Hinrik 1. (4. maí 1008 – 4. ágúst 1060) var konungur Frakklands frá 1031 til dauðadags og hertogi af Búrgund 1016-1032. Krúnulendur Frakkakonungs voru aldrei minni um sig en á valdatíma hans og hann er þess vegna oft talinn hafa verið veikur og valdalítill konungur en sumir sagnfræðingar telja að hann hafi verið nokkuð sterkur en raunsær og þurft að haga seglum eftir vindi.
Hinrik var af ætt Kapetinga, næstelsti sonur Róberts 2. hreintrúaða og Konstönsu af Arles. Árið 1016 gerði faðir hans hann að hertoga af Búrgund og ári síðar var elsti bróðirinn, Húgó 2. Magnus, krýndur meðkonungur að föðurnum lifandi eins og venja var hjá Kapetingum. Hann dó þó 1025. Hinrik var krýndur meðkonungur 14. maí 1027 en fékk þó lítil raunveruleg völd og nokkru síðar gerði hann og þriðji bróðirinn, Róbert, uppreisn gegn föður sínum og nutu stuðnings móður sinnar. Þeir höfðu betur og hröktu Róbert konung til Parísar. Uppreisning stóð enn þegar faðirinn dó 20. júlí 1031 en þá upphófust átök milli bræðranna um krúnuna og studdi móðirin Róbert. Hinrik tryggði sig þó í sessi og árið 1032 lét hann Róbert hertogadæmið Búrgund eftir.
Hinrik naut meðal annars stuðnings Róberts 1., hertoga af Normandí, í átökunum við bróður sinn og launaði það fáeinum árum síðar, þegar Róbert lést, með því að styðja barnungan, óskilgetinn son hans, Vilhjálm bastarð, til þess að verða hertogi Normandí. En árið 1053 giftist Vilhjálmur Matthildi af Flæmingjalandi, sem var dóttir Adelu systur Hinriks, og jukust völd hans svo mjög við þann ráðahag að Hinrik fór að óttast hann og gerði tvívegis innrás í Normandí en var gerður afturreka í bæði skiptin.
Hinrik var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Matthildur, dóttir Konráðs 2. keisara. Eftir lát hennar giftist hann Matthildi af Fríslandi árið 1043 en hún dó árið eftir, að sögn eftir keisaraskurð. Þriðja kona Hinriks var Anna af Kænugarði en systur hennar voru Ellisif drottning Noregs og Anastasía drottning Ungverjalands. Sonur þeirra var Filippus 1. Frakkakonungur, sem tók við krúnunni þegar faír hans dó 1060. Þá var hann aðeins sjö ára að aldri og stýrði móðir hans ríkinu fyrir hann í samvinnu við mág sinn, Baldvin greifa af Flæmingjalandi, eiginmann Adelu systur Hinriks.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Henry I of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. ágúst 2010.
Fyrirrennari: Róbert 2. |
|
Eftirmaður: Filippus 1. |