Konstansa af Kastilíu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Konstansa af Kastilíu (11414. október 1160) var drottning Frakklands frá 1154 til dauðadags. Hún lést nítján ára að aldri þegar hún fæddi annað barn sitt.

Konstansa var dóttir Alfons 7., konungs Galisíu, León og Kastilíu, og Berenguelu af Barcelona. Þrettán ára gömul giftist hún Loðvík 7. Frakkakonungi, sem hafði sagt skilið við fyrstu konu sína, Elinóru af Akvitaníu, tveimur árum fyrr. Opinbera ástæðan fyrir ógildingu hjónabands þeirra var sú að þau væru of skyld til að mega eigast samkvæmt kirkjulögum en Loðvík og Konstansa voru þó enn skyldari. Hið sama mátti raunar segja um Elinóru og seinni mann hennar, Hinrik 2. Englandskonung.

Konstansa eignaðist dótturina Margréti 1158 og 4. október 1160 fæddi hún aðra dóttur, Alísu, en lést sama dag. Loðvík konungur átti þá fjórar dætur en engan son og var mjög í mun að tryggja ríkiserfðirnar, svo að hann giftist þriðju konu sinni, Adelu af Champagne, aðeins fimm vikum eftir lát Konstönsu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]