Agnes af Frakklandi, keisaraynja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Agnes af Frakklandi (1171 – eftir 1204) eða Anna keisaraynja var frönsk konungsdóttir á 12. og 13. öld, keisaraynja í Býsansríkinu og var orðin ekkja eftir tvo býsanska keisara þegar hún var fjórtán ára.

Agnes var dóttir Loðvíks 7. Frakkakonungs og þriðju eiginkonu hans, Adelu af Champagne. Hún var alsystir Filippusar 2. Ágústs Frakkakonungs. Manúel 1. Komnenos Býsanskeisari, sem hafði kynnst Loðvík 7. í Konstantínópel 1147 þegar hann var í Annarri krossferðinni, taldi nú tíma kominn til að eignast Frakka sem trygga bandamenn í Vestur-Evrópu og sendi fulltrúa sína til frönsku hirðarinnar veturinn 1178-1179 til að semja um hjónaband milli einkasonar síns og erfingja, Alexiosar, og dóttur Frakkakonungs.

Loðvík samþykkti ráðahaginn og Agnes litla var send til Konstantínópel til að alast upp við hirð eiginmanns síns tilvonandi, eins og algengt var á miðöldum þegar hjónaband hafði verið ákveðið milli hefðarfjölskyldna. Alys hálfsystir Agnesar, sem átti að giftast Ríkharði ljónshjarta, ólst til dæmis upp við ensku hirðina frá níu ára aldri og þær systur sáust aldrei. Agnes sigldi frá Montpellier til Konstantínópel um páskana 1179 og fylgdu henni 19 skip. Tekið var á móti brúðinni ungu með miklum hátíðahöldum en þótt hana skorti þrjú ár upp á venjulegan lágmarksgiftingaraldur segja heimildir að hún og Alexíos, sem var tveimur árum eldri, hafi verið gefin saman ári síðar, 2. mars 1180, og hjónabandið hafi verið fullkomnað. Agnesi var þá gefið nafnið Anna.

Alexíos varð keisari þegar faðir hans dó 24. september sama ár en móðir hans, María af Antíokkíu, réði mestu um stjórn ríkisins. Þremur árum síðar hrifsaði frændi Manúels keisara, Andronikos 1. Komnenos, til sín völdin. Hann lét handtaka og síðar lífláta Maríu af Antíokkíu og í október 1183 lét hann kyrkja Alexíos. Skömmu síðar giftist hann hinni tólf ára gömlu ekkju hans en sjálfur var hann um 65 ára gamall, hafði verið mikið glæsimenni og kvennamaður en einnig mjög hæfur herforingi og stjórnmálamaður.

Þau Agnes/Anna voru gift í tvö ár en þá var Andronikosi steypt af stóli. Hann reyndi að flýja Konstantínópel með Agnesi og einni hjákonu sinni en náðist og var pyndaður og tekinn af lífi 12. september 1185.

Önnu var ekki gert mein og næst fréttist af henni 1193 en þá er hún sögð vera ástkona Teódórs Branas, eins af herforingjum keisaradæmisins. Vitað er að þau giftust sumarið 1204 (sennilega ekki fyrr vegna þess að Anna tapaði lífeyri sínum við að giftast ótignum manni). Eftir það er ekkert um Önnu vitað en Teódór Branas var herforingi í keisarahernum að minnsta kosti til 1219. Vitað er að þau áttu eina dóttur. Nafn hennar er ekki þekkt en hún giftist Narjot de Toucy, sem var ríkisstjóri keisaradæmisins um tíma.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]