Konungsríkið Ísland
Saga Íslands | ||
Eftir tímabilum | ||
---|---|---|
| ||
| ||
| ||
Eftir umfjöllunarefni | ||
Konungríkið Íslands var konungsríki í Norður-Evrópu sem var til 1918-1944. Landamæri þess voru þau sömu og núverandi landamæri lýðveldisins Íslands. Þann 1. desember árið 1918 var Konungsríkið Ísland stofnað sem fullvalda ríki með eigin þjóðfána með setningu sambandslaganna í konungssambandi við Danmörku. Alþingi fékk óskorað löggjafarvald en Danir fóru áfram með utanríkismál og varnarmál, þar á meðal landhelgisgæslu. Konungsríkið var lagt niður árið 1944 þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi. Konungur lagðist gegn þeirri áætlunargerð en sendi íslendingum heillaóskaskeyti við lýðveldisstofnun. Lýðveldi var þannig stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 og féll þá samband Íslands við Danmörku alfarið úr gildi. Eftir að lýðveldið var stofnað kaus Alþingi Svein Björnsson sem ríkisstjóra sem fór með þau völd sem konungur hafði áður haft á tímum konungsríkisins.
Hæstiréttur Íslands kom fyrst saman árið 1920 og sama ár var stjórnarskránni breytt þannig að þingmönnum var fjölgað í 42 og ákveðið að Alþingi skyldi koma saman árlega. Árið 1930 var haldið upp á þúsaldarafmæli alþingis með Alþingishátíðinni. Kreppan mikla hafði skollið á haustið 1929 og náði nú til Íslands. Atvinnuleysi á landinu jókst og til óeirða kom 9. nóvember 1932 við Góðtemplarahúsið við Tjörnina, sem hefur jafnan verið nefnt Gúttóslagurinn. Meirihluti fjórða áratugarins var erfiður Íslendingum, togaraútgerðin var rekin með tapi sem leystist ekki fyrr en gengi íslensku krónunnar var fellt árið 1939 og krónan aftengd breska pundinu og þess í stað tengd bandaríska dollaranum.[1] Seinni heimsstyrjöldin hófst með innrás Þýskalands í Pólland í september 1939 en nokkrum mánuðum síðar, í apríl 1940, réðust Þjóðverjar á Danmörku og hertóku.
Meðal áhrifamestu manna í íslensku þjóðlífi á fyrri hluta 20. aldarinnar var Thor Jensen, kaupmaður og útgerðarmaður, sem rak fyrirtækið Kveldúlf. Synir hans urðu margir hverjir þjóðþekktir, má þar helst nefna Ólaf Thors, sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Íslands, Kjartan Thors sem varð framkvæmdastjóri Kveldúlfs, og Thor Thors, fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Tengdasynir Thors voru líka kunnir og áhrifamiklir, til dæmis Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, Gunnar Viðar, bankastjóri Landsbanka Íslands, og Hallgrímur Hallgrímsson, forstjóri olíufélagsins Skeljungs. Sonur Ólafs Thors, Thor Ó. Thors, varð framkvæmdastjóri Íslenskra aðalverktaka og tengdasonur Ólafs, Pétur Benediktsson, bankastjóri Landsbankans.
Aðrir áhrifamenn í konungsríkinu voru meðal annars Hermann Jónasson forsætisráðherra Íslands, Héðinn Valdimarsson athafnamaður, þingmaður Alþýðuflokksins og formaður verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, Einar Olgeirsson þingmaður Kommúnistaflokksins og Jónas frá Hriflu formaður Framsóknarflokksins og ráðherra.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Magnús Sveinn Helgason. „Hin heiðarlega króna”: gengisskráning krónunnar sem viðfangsefni stjórnmálabaráttunnar á kreppuárunum 1931–1939 í Frá kreppu til viðreisnar: þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930–1960 (Jónas H. Haralz ritstjóri). Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag. 2002. s. 81–134.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Konungsríkið Ísland. Aðdragandi þess og þjóðhöfðingi, meistaraprófsritgerð í sagnfræði eftir Magnús Kjartan Hannesson