Verkamannafélagið Dagsbrún
Verkamannafélagið Dagsbrún var stéttarfélag verkamanna í Reykjavík, stofnað 26. janúar árið 1906. Árið 1997 sameinuðust Dagsbrún og Verkakvennafélagið Framsókn. Bæði félög samþykktu þessa sameiningu. Í desember árið 1998 sameinuðust Dagsbrún og Framsókn öðrum stéttarfélögum og urðu að Eflingu stéttarfélagi.[1]
Stofnun
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta verkamannafélag Íslands var stofnað á Seyðisfirði árið 1897. Á næstu árum var hugað að félagsstofnun verkamanna víðar um land. Skriður komst á málin í Reykjavík síðla árs 1905, þegar hópur manna hittist til að leggja drög að stofnun félags. Fyrsti undirbúningsfundurinn var haldinn 3. janúar 1906 í Bárubúð, þar sem lögð var fram stofnskrá sem undirrituð var af 384 mönnum. Í stofnskránni voru skýr markmið félagsins sett fram:
- Að styrkja og efla hag og atvinnu félagsmanna
- Að koma betra skipulagi að því er alla daglaunavinnu snertir
- Að takmarka vinnu á öllum sunnu- og helgidögum
- Að auka menningu og bróðurlegan samhug innan félagsins
- Að styrkja þá félagsmenn eftir megni, sem verða fyrir slysum eða öðrum óhöppum[2]
Á nýársdag 1906 hófst útgáfa fyrsta verkamannablaðs á Íslandi, Alþýðublaðsins (eldra) og stóð útgáfa þess í á annað ár.
Stofnfundur Verkamannafélagsins Dagsbrúnar var haldinn 26. janúar 1906. Á fundinum var kosin fyrsta stjórn félagsins, en hana skipuðu Sigurður Sigurðsson formaður, Ólafur Jónsson ritari, Þorleifur Þorleifsson féhirðir, Runólfur Þórðarson fjármálaritari og Árni Jónsson dróttseti. Á fundinum voru jafnframt gerðar samþykktir um kaupgjald og vinnutíma. Var þar miðað við að venjulegur dagvinnutími teldist ellefu klukkustundir í stað tólf klukkustunda áður.
Síðar sama ár varð Dagsbrún eitt af stofnfélögum Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var í Reykjavík þann 15. nóvember.
Fyrsta tölublað Dagsbrúnar til félagsmanna var gefið út í mars árið 1943. Í því er farið yfir fjárhagsáætlun félagsina, orlof, samninga Dagsbrúnar sem þá voru í gildi og fleira. Félagið hugsaði vel um sína félagsmenn; stóðu fyrir jólatrésskemmtun og hélt afmælishátíð.[3] Einnig bauð Dagsbrún upp á orlofsíbúðir fyrir félagsmenn sína en fyrstu húsin sem félagið eignaðist voru nokkur hús í Ölfusi. Fyrst um sinn voru þau þrjú en síðar bættust tvö við. [4]
Formenn
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurður Sigurðsson, 1906-1910
- Pétur G. Guðmundsson, 1910-1912
- Árni Jónsson, 1912-1913
- Pétur G. Guðmundsson, 1913-1914
- Árni Jónsson, 1914-1915
- Sigurður Sigurðsson, 1915-1916
- Jörundur Brynjólfsson, 1916-1919
- Ágúst Jósefsson, 1919-1921
- Pétur G. Guðmundsson 1921-1922
- Héðinn Valdimarsson, 1922-1925
- Magnús V. Jóhannesson, 1925-1927
- Héðinn Valdimarsson, 1927-1936
- Guðmundur Ó. Guðmundsson, 1936-1938
- Héðinn Valdimarsson, 1938-1940
- Sigurður Halldórsson, 1940-1941
- Héðinn Valdimarsson, 1941-1942
- Sigurður Guðnason 1942-1954
- Hannes M. Stephensen, 1954-1961
- Eðvarð Sigurðsson, 1961-1982
- Guðmundur J. Guðmundsson 1982-1996
- Halldór Björnsson 1996-1998
Fyrsta verkfallið í Reykjavík
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 1913 stóð Verkamannafélagið Dagsbrún fyrir fyrsta verkfallinu í Reykjavík. Tilefnið var óánægja verkamanna sem unnu við byggingu hafnargarðsins í borginni. Vinnuveitandinn hafði krafist þess að þeir ynnu langan vinnudag, frá klukkan 6 að morgni til 8 að kvöldi, og þetta voru verkamenn ekki sáttir við.
Verkfallið hófst af fullum krafti og báru verkamenn sigur úr býtum. Í kjölfarið var gerður fyrsti skriflegi samningurinn milli Dagsbrúnar og atvinnurekanda. Samningurinn, sem kvað á um skýrari vinnuskilyrði, var tímamótaaðgerð og gilti í þrjú ár.
Lítið var fjallað um verkfallið í dagblöðum þess tíma og varð það til þess að Dagsbrún hóf að gefa út sitt eigið blað sem hét Verkamannablaðið.[5]
Vinnulöggjöf
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1938 var vinnulöggjöf sett og gildir enn að mestu leiti í dag. Hlutverk þessarar löggjafar var að róa samfélagið, „lægja öldurnar“. Á næstu árum náðu verkalýðsfélögin hinum ýmsu markmiðum, svo sem styttingu vinnuvikunnar, fastráðningar, orlofsrétt, veikindafrí og launahækkanir svo eitthvað sé nefnt. Um sumarið árið 1942 voru skæruverkföllin ansi mörg. Í þessari baráttu voru félagsmenn Dagsbrúar fremstir. Segja má að að hafnarverkamenn á vegum Eimskips hafi verið kveikjan að þessu. Í kjölfarið fylgdu svo fleiri hópar verkafólks og með þessu unnu verkalýðsfélögin 45% kjarahækkun. Fleiri sigrar fylgdu með, til dæmis eftirvinnukaup, 8 klukkustunda vinnudagur og 12 daga orlof varð að almennri reglu. [1]
Eitt fjölmennasta verkfall Íslandssögunnar var svo hið svokallaða Desemberverkfall. Það stóð yfir frá 1. til 19. desember árið 1952. Verkfall þetta var harkalegt. Nausynjarvörur, eins og eldsneyti og mjólk, kláruðust og engin afgreiðsla var í boði fyrir skip og flugvélar. Með þessu verkfalli náðist til dæmis að auka fjölskyldubætur og lækkað verð á nauðsynjavörum. Það var svo í kjölfar þessa verkfalls sem Bjarni Benediktsson, ráðherra Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, og Hermann Jónasson, þáverandi ráðherra Framsóknarflokksins, vörpuðu fram þeirri hugmynd að stofna íslenskan her sem ætti að brjóta niður verkföll. [1]
Aðalfundur Dagsbrúnar 1989
[breyta | breyta frumkóða]Aðalfundur Dagsbrúnar var haldinn 10. maí 1989 en á honum voru breytingar samþykktar er vörðuðu reglugerð sjóðsins. Hún hafði ekki hlotið neinar breytingar síðan árið 1980. Þessar breytingar höfðu það markmið að fjölga bótadögum, rýmka bótarétt og auka dagpening félagsmanna. Með þessari breytingu jókst dagpeningur um 45% og bótadagar fóru úr 100 dögum á mánuði í 150 daga. Einnig gátu félagsmenn Dagsbrúnar orðið félagsmenn annars verkalýðsfélags í allt að 6 mánuði án þess að missa réttindi sín hjá Dagsbrún.[4]
Árið 1989 var verkalýðsfélagið mjög sterkt félag og fjölmennt. Það sem Dagsbrún hafði yfir önnur verkalýðsfélög síns tíma voru atvinnugreinar félagsmanna. Margir hverjir unnu í mikilvægustu, og einnig viðkvæmustu, störfum þessa tíma og því hafði félagið mikinn kraft. Verkföll voru áhrifamikil því félagsmenn sinntu mikilvægum störfum sem ekki mátti missa úr samfélaginu.[4]
Fyrsta tölublað Dagsbrúnar til félagsmanna var gefið út í mars árið 1943. Í því er farið yfir fjárhagsáætlun félagsins, orlof, samninga Dagsbrúnar sem þá voru í gildi og fleira. Félagið hugsaði vel um sína félagsmenn; stóðu fyrir jólatrésskemmtun og hélt afmælishátíð.[3] Einnig bauð Dagsbrún upp á orlofsíbúðir fyrir félagsmenn sína en fyrstu húsin sem félagið eignaðist voru nokkur hús í Ölfusi. Fyrst um sinn voru þau þrjú en síðar bættust tvö við. [4]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Gunnar M. Magnúss (1967). Ár og dagar: Upptök og þróun alþýðusamtaka á Íslandi 1875-1934. Heimskringla.
- Verkamannafélagið Dagsbrún 70 ára. Þjóðviljinn, 24. janúar 1976.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Gylfi Páll Hersi og Jóhannes T. Sigursveinsson (mars 2006). „Öld liðin frá stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar“. Efling. Sótt 18. febrúar 2025.
- ↑ Gunnar M. Magnúss. „Ár og dagar“. baekur.is. Sótt 9 febrúar 2025.
- ↑ 3,0 3,1 Verkamannafélagið Dagsbrún (1. tbl., 1. árg.,1943). „Dagsbrún“. timarit.is. Sótt 10. febrúar 2025.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 „Dagsbrún - 3. tölublað (01.05.1989) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10 febrúar 2025.
- ↑ „Þjóðviljinn - Verkamannafélagið Dagsbrún 70 ára (24.01.1976) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 9 febrúar 2025.