Fara í innihald

Elísabet Jökulsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Elísabet Kristín Jökulsdóttir (f. 16. apríl 1958) er rithöfundur og skáld í Reykjavík. Fyrsta bók hennar kom út árið 1989 en það var ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Elísabet er dóttir Jóhönnu Kristjónsdóttur (1940-2017) blaðamanns og rithöfundar og Jökuls Jakobssonar (1933-1978) rithöfundar. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1987, stundaði nám í kvikmyndahandritsgerð í höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur og lauk BA-prófi í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2008.[1][2]

Elísabet starfar sem rithöfundur en á fjölbreyttan starfsferil. Hún starfaði m.a. við afgreiðslu á BSÍ 1972-1974 og 1978. Var starfsmaður Kleppsspítala 1979, var blaðamaður á Tímanum 1980 og á Þjóðviljanum 1987-1988. Hún var verkakona í frystihúsinu í Hnífsdal 1982-1983 og módel við Myndlistarskólann í Reykjavík 1987 og 1999-2001. Hún hefur einnig starfað á veitingahúsi, verið ráðskona, háseti, afleysingakennari, lausráðinn blaðamaður við Nýtt líf, Morgunblaðið, Helgarpóstinn, Mannlíf og fleiri blöð og tímarit ásamt því að hafa verið með útvarpsþætti á Rás 1. Elísabet hefur verið ötul baráttukona fyrir verndun íslenskrar náttúru og var framarlega í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun. Elísabet hefur skrifað ljóð, smásögur, örsögur, skáldsögur og leikrit.

Ritaskrá[breyta | breyta frumkóða]

Ljóð[breyta | breyta frumkóða]

 • Dans í lokuðu herbergi (1989)
 • Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig (1995)
 • Vængjahurðin. Yfir hundrað ástarljóð (2003)
 • Englafriður (2004)
 • Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett (2014)
 • Næturvörðurinn (2016)
 • Dauðinn í veiðarfæraskúrnum (2017)

Skáldsögur[breyta | breyta frumkóða]

 • Laufey (1999)
 • Hringavitleysusaga: Villutrúarrit (2003)
 • Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu (2005)
 • Aprílsólarkuldi (2020)
 • Saknaðarilmur (2022)

Smásögur[breyta | breyta frumkóða]

 • Rúm eru hættuleg (1991)
 • Mæður og dætur: söguþráður (1994)
 • Aukaheiður: Þrjár sögur af Aðalheiði og borðinu blíða (1998)
 • Fótboltasögur: Tala saman strákar (2001)

Ævisögur og endurminningar[breyta | breyta frumkóða]

 • Heilræði lásasmiðsins (2007)

Örsögur[breyta | breyta frumkóða]

 • Galdrabók Ellu Stínu: Hjartasögur (1996)
 • Lúðrasveit Ellu Stínu (1996)
 • Ísbjörninn á Hótel Viktoría (2006)

Forsetaframboð[breyta | breyta frumkóða]

Elísabet var á meðal frambjóðenda í forsetakosningunum árið 2016. Níu voru í framboði og hlaut Elísabet 0,7% atkvæða.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Elísabet hlaut Fjöruverðlaunin árið 2008 fyrir bókina Heilræði lásasmiðsins og Menningarverðlaun DV árið 2015 fyrir bókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett og auk þess var sama bók tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2016. Hún hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2018. Skáldsagan Aprílsólarkuldi hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2020 og var einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2021.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í, bls. 182, (Reykjavík, 2003)
 2. Ruv.is, „Elísabet Kristín Jökulsdóttir“ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 20. desember 2020)
 3. Skald.is, „Elísabet Kristín Jökulsdóttir“ (skoðað 20. desember 2020)