Fara í innihald

Miðbyggðin á Grænlandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kortið sýnir þann hluta Eystribyggðar sem sagnfræðingar hafa nefnt Miðbyggð, rauðu punktarnir sýna helstu bæjarrústir

Á milli Sermiligarssuk-fjarðar í byggðarlaginu Paamiut og Qoornoq-fjarðar í byggðarlaginu Ivittuut á suðvestur Grænlandi, var allfjölmenn byggð á tímum norrænna Grænlendinga sem engar ritaðar heimildir eru til um. Fornleifa- og sagnfræðingar telja að hún hafi verið hluti af Eystribyggð en nefna hana til aðgreiningar Miðbyggðina[1]. Milli vestasta bæjar í aðalbyggðinni við Sermilik-fjörð og austasta bæjar í Miðbyggðinni við Qoornoq-fjörð er um 70 km óbyggðir og fjarlægðin frá Bröttuhlíð í miðri Eystribyggð um 250 km[2].

Þar sem engar ritaðar heimildir eru um byggðina hafa engin örnefni varðveist. Eina nafnið sem hefur við talið að gæti verið frá Miðbyggðinni er skírskotun til Garðaneskirkju í Miðfjörðum í Flateyjarbók.[3]

Í Miðbyggðinni hafa fundist um 40 rústir. Engin kirkja hefur fundist en þó einn legsteinn sem notaður hafði verið í hleðslu í ínúítahúsi, í hann var höggvið krossmark og nafnið Össr Asbiarnarson með rúnaletri.

Miðbyggðin hefur verið minnst rannsökuð af byggðum norrænna manna á Grænlandi. Ólíkt bæði Eystribyggð og Vesturbyggð hefur byggðin í Miðbyggð nær eingöngu verið út við sjó eða fjarðarstrendur. Allir bæir sem hafa verið athugaðir hafa verið smáir og tóftarbrotin af litlum híbýlum og útihúsum. Byggðin einkennist af bröttum hlíðum og lítlu undirlendi og þarmeð lítil beit og erfitt með heyskap. Í Miðbyggð er einnig meiri snjókoma og snjóþyngd meiri en í hinum byggðunum. Miðbyggðin hefur því síður hentað landbúnaði og líklegt verið tiltölulega fátækt svæði og íbúar þess lifað að milklu af auðlindum sjávar.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Albrethsen SE,; Arneborg J.; Manley J. (2004.). Norse Ruins of the Southern Paamiut and Ivittuut Region. Danish Polar Center Publication no. 13. bindi. Sila - Greenland Research Center, National Museum of Denmark.
  2. Edwards KJ,; Schofield JE,; Arneborg J. (2010). Was Erik the Red’s Brattahlið located at Qinngua? A dissenting view. Viking and Medieval Scandinavia 6. bindi. Brepols. bls. 83–99. ISBN 87-90369-72-6.
  3. Ólafur Halldórsson (1978). Grænland í miðdaldaritum. Sögufélag.
  4. Edwards, K.J.,; Cook, G.T.; Nyegaard, G.; Schofield, J.E. (2012). Towards a first chronology for the middle settlement of Norse Greenland: 14C and related studies of animal bone and environmental material (PDF). 55 árgangur, 1. bindi. Cambridge University Press. bls. 13 - 29.

Greinar af Tímarit.is

[breyta | breyta frumkóða]