Fara í innihald

Basel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Buslaraborg)
Basel
Skjaldarmerki Basel
Staðsetning Basel
KantónaBasel-Stadt
Flatarmál
 • Samtals22,75 km2
Hæð yfir sjávarmáli
260 m
Mannfjöldi
 (2014)
 • Samtals173.960
Vefsíðawww.basel.ch Geymt 26 apríl 2005 í Wayback Machine

Basel (Boslaraborg eða Buslaraborg) er þriðja stærsta borg Sviss, með tæplega 174 þúsund íbúa (2014). Hún er jafnframt höfuðborg kantónunnar Basel-Stadt sem er minnsta kantónan í Sviss.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Basel liggur við Rínarfljót norðvestast í Sviss og á landamæri að Frakklandi og Þýskalandi. Svæðið er kallað Dreiländereck (Þrílandahornið). Næstu borgir eru Mulhouse í Frakklandi í norðvesturátt (35 km), Freiburg í Þýskalandi í norðurátt (70 km) og Zürich í suðausturátt (85 km). Rín klýfur borgina í tvennt, en fljótið rennur í gegnum miðbæinn. Við Rín er mikil fljótahöfn, sú eina í Sviss. Basel er miðstöð efna- og lyfjaiðnaðar í Sviss.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er svartur bagall á hvítum grunni. Basel varð mjög snemma biskupssetur og eignaðist þetta merki þegar á 11. öld. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1384.

Borgin hét upphaflega Basilea, sem merkir leiðtogi eða konungur á grísku. Með því er átt við hina fornu biskupa. Heitið kemur fyrst fram 237/238 e.Kr. Að öðru leyti eru menn ekki á eitt sáttir um uppruna heitisins. Borgin heitir Basel á þýsku, Basle á ensku og Bâle á frönsku.

Dómkirkjan í Basel

Það voru Keltar (Helvetar og Ráríkar) sem reistu bæinn upphaflega eftir að Júlíus Sesar sigraði Kelta í orrustunni við Bibracte 58 f.Kr. Skömmu síðar settust Rómverjar að í bænum og varð hann að rómverskri borg. En þegar Rómaveldi leið undir lok settust Alemannar að í Basel. Basel varð að biskupsdæmi strax á 7. öld og fyrir vikið var þar reist gríðarmikil dómkirkja á 11. öld. Árið 917 eyddu Ungverjar borginni. Meðal þeirra sem létust í þeirri árás var biskupinn sjálfur. Árið 1032 var borgin innlimuð í hið heilaga rómverska ríki, en hún hafði áður tilheyrt Búrgúnd. Árið 1225 var fyrsta brúin yfir Rín smíðuð. Við það myndaðist byggð á eystri Rínarbakkanum sem kallaðist Kleinbasel (Litla Basel). Hverfi þetta myndar eystri borgarhlutann í dag.

Erfiðleikar

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1348 geisaði skæð pest í borginni. Í henni lést um helmingur borgarbúa. Þetta var þó aðeins upphafið á tímabili mikilla erfiðleika. Aðeins átta árum síðar varð borgin (og nærsveitir) fyrir öflugum jarðskjálfta, þeim mesta í Mið-Evrópu í sögu álfunnar. Fræðimenn telja að jarðskjálftinn hafi verið 6,7 á Richter en 10 á Mercalli-skala. Fáir íbúar létust af völdum skjálftans, þar sem minni skjálfti hafði orðið örlitlu fyrr og fólkið þyrpst út úr húsum sínum. En aðalskjálftinn olli bruna sem geisaði í Basel í átta daga samfleytt og eyðilagði það sem eftir var af borginni. Dómkirkjan stórskemmdist er þakið hrundi. Mörg ár tók að endurreisa borgina. Árið 1376 dundu næstu ósköp yfir. Leópold III., hertogi af Habsborg, keypti yfirráðaréttinn á Litlu-Basel af biskupnum, sem var í fjárhagskröggum. Þetta létu íbúar Basel sér ekki lynda og gerðu uppreisn þegar Leópold var gestur í borginni. Hertoginn varð að flýja á bátskænu yfir Rín en reiður múgurinn tók 50 aðalsmenn til fanga. Nokkrir féllu, bæði af borgarbúum og af aðalsmönnunum. Hertoginn varð ævareiður og lét setja borgina í bann og einangraði hana þar með frá umheiminum. Eftir að sættir tókust síðar á árinu milli aðila, lagði hertoginn afar harða skilmála á borgina, sem urðu til þess að efnahagurinn staðnaði í mörg ár. Það var ekki fyrr en hertoginn beið ósigur fyrir Svisslendingum í orrustunni við Sempach 1386 að borgin komst undan yfirráðum hans og tók að blómgast á ný. Nokkrum árum síðar, 1392, keyptu borgarbúar Litlu-Basel aftur.

Trúarórói

[breyta | breyta frumkóða]
Basel á 15. öld. Fremst er Litla Basel á eystri Rínarbakkanum.

Árið 1431 var kirkjuþing kaþólsku kirkjunnar formlega sett í borginni og stóð það yfir í mörg ár með hléum. Ástæðan fyrir því að Basel varð fyrir valinu var sú að kirkjan átti við innri átök að stríða og var klofin. Tveir páfar voru við völd, sinn á hvorum staðnum, og börðust um yfirráðin í kirkjunni. Aðalumræðuefnið var ofangreindur ágreiningur, sem og hugsanleg sameining við rétttrúnaðarkirkjuna. Eugeníus IV. páfi kallaði þingið saman, en störf þess voru honum ekki að skapi. Hann yfirgaf þingið og bannfærði alla fundarmenn. Fyrir vikið settu þeir hann af og kusu nýjan andpáfa, Felix V. Hann sat í Genf, Lausanne og Basel, en í Róm sat annar páfi. Felix fór í sögubækurnar sem síðasti andpáfinn en kaþólska kirkjan sameinaðist á ný við afsögn hans. Basel er því ein af fáum páfaborgum norðan Alpa. Árið 1460 stofnaði Píus II. páfi háskóla í borginni og er sá elsti háskóli í Sviss. Þessu fylgdu miklir menningarstraumar og menn eins og Erasmus frá Rotterdam, Paracelsus, Hans Holbein yngri og aðrir sem þar dvöldu um hríð. Í Sváfastríðinu 1499 börðust herir frá Basel með Svisslendingum gegn uppgangi Habsborgar. Til að tryggja hagsmuni sína og viðhalda lýðrétti sínum gekk Basel í svissneska sambandið 1501 og varð að elleftu kantónunni. Hér er verið að tala um borgina Basel og stórt hérað í kring. Árið 1529 urðu siðaskipti í borginni. Allir sem ekki tóku hina nýju trú, þar á meðal biskupinn, fluttu til Freiburg. Þannig var biskupsstóllinn í Basel lagður niður.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]

Segja má að nútíminn héldi innreið sína í Basel með friðarsamkomulagi franska byltingarhersins við Prússland og Spán 1795, en það var undirritað í Basel. Eftir byltinguna miklu í Frakklandi herjuðu Frakkar á ýmis lönd í Evrópu. Með friðarsamkomulaginu var Frakkland viðurkennt á ný sem stórveldi. Frakkar hertóku hins vegar aldrei Basel á tímum Napóleons. Á Vínarfundinum 1815 fékk Basel aukið land. Íbúar nærsveita voru hins vegar ekki sáttir við yfirráð borgarinnar, enda gerði hún lítið til að sinna þörfum bænda og þorpa. Óánægjan var svo mikil að nærsveitamenn söfnuðu liði og lögðu til atlögu við borgarherinn. Í orrustunni við Hülftenschanz sigruðu nærsveitamenn, klufu sig frá Basel og stofnuðu eigin kantónu. Þessi aðgreiningur þýddi að borgin Basel-Stadt varð að langminnstu kantónu Sviss en Basel-Landschaft (nýja kantónan) er sérstök kantóna enn í dag. Árið 1844 var fyrsta járnbrautin til Basel opnuð. Eftir það risu þar margar verksmiðjur, þannig að Basel var oft kölluð verksmiðjuborgin (Fabrikstadt). Árið 1897 fór fyrsta heimsþing Zíonista fram að tilstuðlan Theodor Herzl. Alls fóru sjö þing Zíonista fram í Basel allt til 1905. Segja má að þessi þing hafi leitt til landnáms gyðinga í Palestínu og að lokum til stofnunar Ísraelsríkis, enda var það stefna þingsins að koma slíku í verk. Basel varð ekki fyrir miklum áhrifum af heimsstyrjöldunum. En 4. mars 1945 gerðu Bandamenn loftárás á vörulestarstöðina í borginni af misgáningi. Skemmdir urðu ekki miklar og fáir létust. Árið 1953 var flugvöllurinn Basel- Mulhouse-Freiburg tekinn í notkun, en hann er fyrsti flugvöllur heims sem tvö sjálfstæði rík reka í sameiningu (Frakkland og Sviss). Fjórum árum síðar, árið 1957, fóru fram mikil hátíðarhöld í Basel í tilefni af 2000 ára afmæli borgarinnar. Árið 1966 fengu konur kosningarétt í Basel. Þremur árum síðar fór fram atkvæðagreiðsla um sameiningu Basel-Stadt og Basel-Landschaft. Íbúar borgarinnar samþykktu en nærsveitamenn ekki. Því fór sameining ekki fram.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er FC Basel, sem tólf sinnum hefur orðið svissneskur meistari (síðast 2008), níu sinnum bikarmeistari (síðast 2008) og einu sinni deildarbikarmeistari (1973). Heimavöllur liðsins, St. Jakob-Park, er stærsti íþróttavöllur Sviss. Þar fóru fram leikir í HM 1954 og EM 2008 og þar fara margir landsleikir Svisslendinga fram.
  • Swiss Indoors er árlegt alþjóðlegt tennismót sem fram fer í Basel. Það fór fyrst fram 1970 og er í dag stærsti árlegi íþróttaviðburður Sviss. Svisslendingurinn Roger Federer hefur sigrað í fjórum af fimm síðustu mótum.
  • European Skateboard Championships er Evrópumót hjólabretta. Mótið fer árlega fram í Basel.
  • Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, var stofnað í Basel 1954.
  • Basel er einnig aðalaðsetur Alþjóðahandknattleikssambandsins.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
Ein af skrúðgöngunum í Basler Fasnacht

Basler Fasnacht er þjóðhátíð borgarinnar. Hér er um stærsta karnevalið í Sviss að ræða. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og eru skrúðgöngur og gjörningar lokaðra hópa mest áberandi. Skrautbúningar hylja líkama allra sem taka þátt og eru þeir mjög tilkomumiklir. Fjölskylduskrúðgöngur eru sér á báti. Einnig eru alls konar útisýningar og tónleikar. Gestir fá aðeins að fylgjast með sem áhorfendur en samfara hátíðinni er borðaður sérstakur matur á veitingastöðum borgarinnar.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
  • (1593) Matthäus Merian, bókaútgefandi og þekktasti koparstungulistamaður Evrópu
  • (1707) Leonhard Euler, stærðfræðingur
  • (1974) Murat Yakin, knattspyrnukappi
  • (1977) Hakan Yakin, knattspyrnukappi
  • (1979) Alexander Frei, knattspyrnukappi
  • (1981) Roger Federer, tenniskappi (nr. 1 á heimslistanum 2004-07)

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Spalentor er gamalt borgarhlið
Ráðhúsið í Basel er eldrautt
  • Basler Münster er gamla dómkirkjan og einkennisbygging borgarinnar. Hún var reist á tímabilinu 1019-1500 í rómönskum og gotneskum stíl og var því tæp 500 ár í byggingu. Árin 1431–1448 var kirkjuþingið mikla haldið í borginni og hittust fundarmenn í dómkirkjunni. Í kirkjunni var svo andpáfinni, Felix V., valinn og settur þar í embætti. Hann sat þó stutt. Árið 1529 réðist hópur siðaskiptamanna inn í dómkirkjuna og eyðilagði málverk, styttur og krossa. Kirkjan varð eftir það ekki lengur kaþólska biskupakirkjan, heldur höfuðkirkja áhangenda Zwinglis. Í kirkjunni er grafhvelfing þar sem biskuparnir í Basel frá 10. – 13. öld hvíla.
  • Spalentor er gamalt borgarhlið. Það var reist eftir jarðskjálftann mikla 1356. Miðturninn er 40 metra hár, en sívölu hliðarturnarnir eru 28 metra háir. Í lok 19. aldar voru borgarmúrarnir rifnir en Spalentor fékk að standa áfram. Árið 1933 var það friðað og sett á minjaskrá.
  • Ráðhúsið í Basel stendur við aðalmarkaðstorg borgarinnar og er eldrautt að lit. Það var reist á árunum 1504–14, skömmu eftir inngöngu Basel í svissneska sambandið. Efniviðurinn er rauður sandsteinn. Húsið prýða mörg listaverk, freskur og styttur úr sögu Sviss og Basel. Ráðhúsið er bæði notað undir borgarskrifstofur og sem þinghús fyrir kantónuna Basel-Stadt.