Afríkukeppni landsliða í knattspyrnu karla 2025
كأس الأمم الإفريقية 2025 ⵜⴰⵇⴱⵓⵛⵜ ⵏ ⵜⴻⴼⵔⵉⵇⵜ ⵏ ⵢⵉⵖⵍⴰⵏⴻⵏ 2025 | |
---|---|
Upplýsingar móts | |
Mótshaldari | Marokkó |
Dagsetningar | 21. desember 2025 - 18. janúar 2026 |
Lið | 24 |
Leikvangar | 6 (í 6 gestgjafa borgum) |
Afríkukeppni karla í knattspyrnu 2025 mun fara fram í Marokkó 21. desember 2025 til 18. janúar 2026. Það verður 35. Afríkukeppnin. Þetta verður í annað sinn sem keppnin fer fram í landinu, en áður gerðist það árið 1988. Tímasetning mótsins er umdeild, enda mun það rekast á við keppnisdaga í Meistaradeild Evrópu. Lið Fílabeinsstrandarinnar er ríkjandi Afríkumeistari.
Val á gestgjöfum
[breyta | breyta frumkóða]Þann 30. nóvember 2018 ákvað Knattspyrnusamband Afríku að vegna ónægs undirbúnings yrði ekki unnt að halda Afríkukeppnina 2019 í Kamerún eins og ætlað hafði verið. Þess í stað yrði mótið 2021 haldið þar í landi. Fílabeinsströndin, sem fengið hafði því móti úthlutað myndi í staðinn gegna hlutverki gestgjafa 2023 en Gínea, sam halda átti mótið í það skiptið yrði látin bíða til 2025.
Þann 30. september 2022 var upplýst að sambandið teldi undirbúning Gíneumanna svo skammt á veg kominn að þeim væri ekki treystandi til að halda mótið 2025. Í kjölfarið var auglýst eftir nýjum gestgjöfum og þann 27. september 2023 var afráðið að næsta keppni yrði haldin í Marokkó en mótið 2027 yrði sameiginlegt verkefni Kenía, Úganda og Tansaníu.
Þátttökulið
[breyta | breyta frumkóða]24 lið keppa á mótinu. Marokkómenn áttu tryggt sæti sem gestgjafar en hin 23 liðin fóru í gegnum forkeppni.