1980 Mundialito
1980 Mundialito eða Copa de Oro de Campeones Mundiales var alþjóðlegt knattspyrnumót sem haldið var í Úrúgvæ um áramótin 1980-81. Keppnin var skipulögð af FIFA til að minnast 50 ára afmæli HM í knattspyrnu. Þar sem flest sterkustu landslið heims tóku þátt í mótinu var það stundum nefnt litla heimsmeistarakeppnin, eitt margra knattspyrnumóta sem fengið hafa þann stimpil. Gestgjafar Úrúgvæmanna fóru með sigur af hólmi.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Þegar líða tók að hálfrar aldar afmæli heimsmeistarakeppninnar kviknaði sú hugmynd að efna til minningarmóts. Áhugi stóru Evrópulandanna var takmarkaður, enda lítið svigrúm í þéttbókaðri leikjadagskrá í stóru deildum Evrópu, auk þess sem lítil von var til þess að halda slíka keppni með hagnaði. Í Úrúgvæ var við völd herforingjastjórn sem var mikið í mun að bæta ímynd sína jafnt innanlands sem utan, á sama hátt og grannar þeirra í Argentínu höfðu gert á HM tveimur árum fyrr. Málið var úrúgvæsku þjóðinni sérstaklega skylt, enda var fyrsta heimsmeistarakeppnin haldin þar árið 1930.
FIFA féllst á tilboð Úrúgvæ um að hýsa keppnina, þrátt fyrir harða gagnrýni mannréttindasamtaka. Upphaflega hugmyndin var að bjóða öllum sigurþjóðunum sex úr sögu HM. Þar sem mótið færi fram frá 30. desember 1980 til 10. janúar 1981, var ljóst að erfitt yrði að sannfæra Evrópuþjóðirnar um að senda sín sterkustu lið. Til að bæta úr því voru þátttökugreiðslurnar til knattspyrnusambandanna hafðar mjög rausnalegar. Englendingar voru eina sigurþjóðin sem neitaði að taka þátt og voru Hollendingar, silfurliðið frá tveimur síðustu heimsmeistaramótum, fengnir í þeirra stað. Margar helstu stjörnur Hollands sátu þó heima.
Herforingjastjórnin treysti á að þjóðin yrði svo ánægð í aðdraganda mótsins að hún freistaði þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, sem tryggja átti lögmæti valdaránsins nokkrum árum fyrr. Öllum að óvörum hafnaði meirihluti kjósenda tillögunni og þótt herforingjastjórnin bannaði samstundis alla stjórnmálastarfsemi á ný reyndust úrslitin upphafið að endalokum hennar fjórum árum síðar. Mótið var því haldið í mjög eldfimu pólitísku ástandi.
Þátttökulið
[breyta | breyta frumkóða]Team | Notes |
---|---|
Úrúgvæ | Gestgjafar og sigurvegarar á HM 1930 og HM 1950 |
Ítalía | Sigurvegarar á HM 1934 og HM 1938 |
Vestur-Þýskaland | Sigurvegarar á HM 1954 og HM 1974 |
Brasilía | Sigurvegarar á HM 1958, HM 1962 og HM 1970 |
Argentína | Sigurvegarar á HM 1978 |
Holland | Silfurverðlaun á HM 1974 og HM 1978 |
Englendingar, sigurvegarar HM 1966 afþökkuðu þátttöku.
Riðlakeppni
[breyta | breyta frumkóða]A-riðill
[breyta | breyta frumkóða]Gestgjafarnir unnu opnunarleikinn gegn Hollandi, 2:0. Hollendingar tefldu einungis fram leikmönnum sem léku í heimalandinu og voru langt frá fyrri styrk. Þvínæst mættust Úrúgvæ og Ítalía í afar grófum leik þar sem þrjú rauð spjöld fóru á loft. Aftur vann Úrúgvæ 2:0. Viðureignin fór fram í skugga andláts Gigi Peronace úr þjálfarateymi ítalska liðsins nokkrum dögum fyrr. Lokaleikurinn skipti fyrir vikið engu máli en þar gerðu Ítalir og Hollendingar jafntefli. Jan Zwartkruis þjálfari hollenska liðsins sagði starfi sínu lausu þegar heim var komið.
Sæti | Lið | L | U | J | T | Sk | Fe | M.munur | Stig | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Úrúgvæ | 2 | 2 | 0 | 0 | 4 | 0 | +4 | 4 | |
2 | Ítalía | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 | 3 | -2 | 1 | |
3 | Holland | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 | 3 | -2 | 1 |
30. desember - Estadio Centenario, Montevideo
3. janúar - Estadio Centenario, Montevideo
6. janúar - Estadio Centenario, Montevideo
B-riðill
[breyta | breyta frumkóða]Vestur-Þjóðverjar virtust ætla að landa sigri í leik sínum gegn Argentínu eftir mark frá Horst Hrubesch í fyrri hálfleik. Tvö argentísk mörk undir lokin sneru hins vegar leiknum við. Argentínumenn mættu sem ríkjandi heimsmeistarar, að þessu sinni með Diego Maradona innanborðs. Hann kom sínu liði yfir á móti Brasilíu en Edevaldo jafnaði. Vestur-Þjóðverjar náðu forystunni gegn Brasilíu í seinni hálfleik en fengu fjögur mörk í andlitið og Brasilía endaði á toppi riðilsins
Sæti | Lið | L | U | J | T | Sk | Fe | M.munur | Stig | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Brasilía | 2 | 1 | 1 | 0 | 5 | 2 | +3 | 3 | |
2 | Argentína | 2 | 1 | 1 | 0 | 3 | 2 | +1 | 3 | |
3 | Vestur-Þýskaland | 2 | 0 | 0 | 2 | 2 | 6 | -4 | 0 |
1. janúar - Estadio Centenario, Montevideo
- Argentína 2 : 1 Vestur-Þýskaland
4. janúar - Estadio Centenario, Montevideo
7. janúar - Estadio Centenario, Montevideo
- Brasilía 4 : 1 Vestur-Þýskaland
Úrslitaleikur
[breyta | breyta frumkóða]Hinn læknismenntaði Socrates jafnaði metin fyrir Brasilíu þegar hálftími var til leiksloka í úrslitaleiknum en tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Waldemar Victorino, markakóngur keppninnar, sigurmarkið. Úrúgvæska þjóðin fagnaði sigrinum tryllingslega en titillinn reyndist þó ekki upphafið að nýrri gullöld því Úrúgvæ mistókst að komast í úrslitakeppni HM 1982.
10. janúar - Estadio Centenario, Montevideo