Ostra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kyrrahafsostra (Crassostrea gigas)

Orðið ostra er notað yfir ýmsar tegundir samloka sem lifa í sjó eða fjöru. Lokurnar eru mjög kalkaðar. Nokkrar tegundir ostra eru borðaðar, annaðhvort hráar eða eldaðar, en víða teljast þær lostæti. Aðrar tegundir eru ræktaðar fyrir perlurnar sínar en perluostrur eru ekki hentugar til neyslu. Lifandi ostrur halda skel sinni lokaðri fyrir óviðkomandi með vöðvaafli.[1]

Tegundir[breyta | breyta frumkóða]

Sannar ostrur[breyta | breyta frumkóða]

Svokallaðar „sannar ostrur“ tilheyra ostruætt. Þessi ætt felur í sér ætar ostrur en flestar þeirra tilheyra ættkvíslunum Ostrea, Crassostrea, Ostreola og Saccostrea.

Perluostrur[breyta | breyta frumkóða]

Að fá perlu úr ostru

Næstum öll lindýr með skeljum framleiða perlur en flestar eru ekki dýrmætar. Perluostrur eru ekki náskyldar sönnum ostrum en tilheyra ættinni Pteriidae. Fá má bæði ræktaðar perlur og náttúrulegar perlur úr perluostrum þótt önnur lindýr eins og kræklingar geti líka framleitt verðmætar perlur. Ekki allar ostrur framleiða perlur á náttúrulegan hátt. Það geta verið að í nokkurra tonna uppskeru af ostrum framleiða aðeins þrjár eða fjórar ostrur perlur.

Í náttúrulegu umhverfi framleiða ostrur perlur með því að þykja örlítinn sníkil með perlumóður, en ekki sandkorn.[2] Með tíð og tíma eru nóg lög af perlumóður sett niður að sníkillinn verði að perlu. Til eru perlur af ýmsum litum, stærðum og lögunum en þetta ræðst af náttúrulega litarefninu sem er til í perlumóðurinni og lögun upphaflega sníkilsins.

Perluræktendur geta ræktað perlur með því að setja einhvers konar ögn, oftast kræklingaskel, inn í ostruna. Svona perlur eru ekki eins og verðmætar og náttúrulegar perlur en líta alveg eins út. Frá byrjun 20. aldar, þegar uppgötvað var hvernig á að rækta perlur, hefur eftirspurn eftir ræktuðum perlum vaxið hraðar en eftirspurn eftir náttúrulegum perlum.

Líkamsbygging[breyta | breyta frumkóða]

Ostrur sía matinn sinn með því að sjúga vatn inn í gegnum tálkn með bifhárahreyfingu. Agnir og svif festast í slím bifhárs og þaðan eru þau flutt til munnsins þar sem þau eru étin, meltast og eru þá skilin út sem saur. Ostrur eru virkastar í að éta við hitastig yfir 10°C. Ein ostra getur síað allt að 5 lítra af vatni á klukkutíma. Ostrur geta dregið úr ofauðgun með því að sía auka næringarefni, svif og botnfall úr vatni.

Auk þess að sía efni í gegnum tálknin geta ostrur skipt á lofttegundum í gegnum net mjög lítilla og þunnra æða. Þær eru líka með lítið hjarta með þremur hólfum sem liggur undir vöðvum ostrunnar, sem deilir litlausu blóði um allan líkamann. Auk hjartans liggja nýrun undir vöðvunum, sem sía úrgangsefni úr blóðinu.

Þó að sumar ostrategundir séu til í tveimur kynjum innihalda kynfærin þeirra bæði sæði og egg. Vegna þess geta ostrur hugsanlega frjóvgað sín eigin egg. Kynkirtlarnir liggja í kringum meltingarkerfið og samanstanda af kynfrumum, píplum og bandvef. Um leið og kvendýrið er frjógvað gefur það frá sér þúsundir eggja út í vatnið. Lirfurnar taka um sex klukkutíma að þróast og synda um í vatninu í um tvær til þrjár vikur. Eftir það setjast þær að á sjávarbotnum og taka um eitt ár að þroskast.

Sem matvæli[breyta | breyta frumkóða]

Ostrur á ísklökum með sítrónu og steinselju
Ferskar ostrur

Fyrstu merki um neyslu ostra eiga rætur að rekja til fornsögu. Ostrur voru mikilvægur matargjafi á strandbyggðum og ostruveiði var markverður iðnaður þar sem gnægð þeirra var. Framboð ostra hefur minnkað töluvert vegna ofveiði og mengunar. Þrátt fyrir það eru þær ennþá vinsælt matvæli í dag og haldið er upp á þær á ostruhátíðum víðs vegar um heiminn.

Næring[breyta | breyta frumkóða]

Ostrur eru góður steinefnagjafi og innihalda sink, járn, kalsín og selen, auk A-vítamíns og B12-vítamíns. Ostrur eru ekki miklir orkugjafar; tólf hráar ostrur innihalda 110 kaloríur (460 kJ). Talið er að ostrur séu mest nærandi þegar þeirra er neytt hráar.[3]

Sumir telja ostrur frygðarauka.[4] Bandarískir og ítalskir rannsóknarmenn greindu nokkrar tegundir samloka og uppgötvaðu að þær innihéltu amínósýrur sem stuðla að losun kynhormóna.[5] Háa sinkmagnið í ostrum aðstoðar framleiðslu testósteróns.[6]

Undirbúningur og geymsla[breyta | breyta frumkóða]

Ostrur geymast í allt að fjórar vikur, gagnstætt mörgum öðrum lindýrum. Þrátt fyrir það spillist bragðið með tíma. Ostrur geymast best kaldar en ekki frosnar, ekki í vatni, við 100% rakastig. Ostrur sem eru geymdar kaldar í vatni opnast, neyta súrefnis og svo deyja.

Ostrur verður að borða eða elda þegar þær eru enn lifandi. Ostruskeljar eru yfirleitt þéttlokaðar eða smellast saman þegar bankað er á þær. Ef skelin er opin þá er ostran dauð og ætti ekki að borða hana.[7] Það að elda ostrur í skeljunum drepur þær. Þá opnast skel hennar léttilega. Haldið var að ostrur sem opnuðust ekki við eldingu ætti ekki að borða því talið var að þær hefðu dáið fyrir eldingu. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að þetta sé ekki endilega rétt.

Má borða ostrur hráar beint úr skelinni, eða reyktar, soðnar, bakaðar, steiktar, hægsoðnar, niðursoðnar eða gufusoðnar. Þær eru líka settar út í drykki. Einfaldasta leiðin til að neyta ostru er að opna skelina og borða allt innihaldið, þar með safann. Oft er smjöri og salti bætt við.

Gæta skal varúðar við neyslu ostra. Ostrur geta innihaldið skaðlega gerla en þetta ræðst af umhverfinu þar sem ostrurnar eru ræktaðar. Því ostrur sía matinn sinn safnast efni úr umhverfi ostrunnar í þeim.[8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Vísindavefurinn: Hvað eru samlokur?“. Sótt 21. október 2013.
  2. A dozen ocean-cleaners and a pint of Guinness, please“, The Economist, skoðað þann 21. október 2013.
  3. „Nutrition Facts and Analysis for Mollusks, oyster, eastern, wild, raw“. Nutritiondata.com. Sótt 21. október 2013.
  4. Stott, Rebecca (2004). Oyster. The University of Chicago Press.
  5. Pearly wisdom: oysters are an aphrodisiac“, The Sydney Morning Herald, 24. mars 2005, skoðað þann 21. október 2013.
  6. Kurlanksy, Mark (2006). The Big Oyster: History on the Half Shell. Ballantine Books.
  7. „Oysters“. i love blue sea. Sótt 21. október 2013.
  8. „Vísindavefurinn: Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra“. Sótt 21. október 2013.