Zico
Zico | ||
Upplýsingar | ||
---|---|---|
Fullt nafn | Arthur Antunes Coimbra | |
Fæðingardagur | 3. mars 1953 | |
Fæðingarstaður | Rio de Janeiro, Brasilía | |
Leikstaða | Miðjumaður | |
Meistaraflokksferill1 | ||
Ár | Lið | Leikir (mörk) |
1971-1983 | Flamengo | () |
1983-1985 | Udinese | () |
1985-1989 | Flamengo | () |
1991-1994 | Kashima Antlers | () |
Landsliðsferill | ||
1976-1986 | Brasilía | 71 (48) |
1 Leikir með meistaraflokkum og mörk |
Zico eða Arthur Antunes Coimbra (fæddur 3. mars 1953) er brasilískur fyrrverandi knattspyrnumaður. Hann spilaði 71 leik og skoraði 48 mörk með landsliðinu. Hann hafnaði árið 1999 í áttunda sæti í kjöri FIFA á bestu leikmönnum tuttugustu aldar og árið 2004 var hann á lista sambandsins yfir 100 bestu leikmenn sögunnar.
Ferill með félagsliðum
[breyta | breyta frumkóða]Zico fæddist í Rio de Janeiro, sonur foreldra af portúgölskum uppruna. Hann vakti athygli snemma á unglingsárum fyrir knattspyrnuhæfileika þrátt fyrir að vera ekki sérlega líkamlega sterkur og komst hann ungur á samning hjá borgarliðinu Flamengo. Hann lék með Flamengo frá 1971-83 á afar sigursælu tímabili í sögu liðsins, sem varð meðal annars Suður-Ameríkumeistari. Á þessum tíma gat Zico sér gott orð sem aukaspyrnusérfræðingur.
Ítölsku stórliðin A.S. Roma og AC Milan vildu fá Zico til liðs við sig árið 1983, en Udinese Calcio bauð best. Hann lék í tvö tímabil með Udinese við góðan orðstír. Annað árið varð hann næstmarkahæstur í deildinni og með Zico í broddi fylkingar náði Udinese betri árangri en stuðningsmenn höfðu átt að venjast. Rannsókn yfirvalda á meintum skattsvikum Zico urðu til þess að hann yfirgaf Udinese fyrr en efni stóðu til. Hann var síðar hreinsaður af þeim ásökunum.
Eftir dvölina á Ítalíu hélt Zico aftur til Flamengo og lék þar til ársins 1989. Þá lagði hann skóna á hilluna en hóf leik á ný þegar japanskt félagslið, Kashima Antlers fékk hann til liðs við sig frá 1991-94.
Landsliðsferill
[breyta | breyta frumkóða]Zico lék 71 landsleik á árabilinu 1976 til 1986 og skoraði 48 mörk. Litlu mátti þó muna að landsleikjaferlinum lyki áður en hann byrjaði, því Zico var valinn í Ólympíulandslið Brasilíu í forkeppni ÓL í München 1972 og skoraði markið sem tryggði sætið þar. Hann var hins vegar skilinn eftir þegar Ólympíuhópurinn sjálfur var valinn. Sú ákvörðun olli honum slíkum vonbrigðum að hann ætlaði aldrei aftur að keppa fyrir Brasilíu og íhugaði jafnvel að hætta að spila knattspyrnu.
Hann var í liði Brasilíu sem hafnaði í þriðja sæti á HM í Argentínu 1978. Í upphafsleik Brasilíumanna í keppninni virtist Zico hafa skorað sigurmark gegn Svíum en dómari leiksins flautaði til leiksloka á meðan knötturinn var á leið í netið.
Brasilíska liðið þótti leika þunglamalegan og leiðinlegan fótbolta í keppninni í Argentínu. Annað var uppi á teningnum á HM á Spáni 1982 og í Mexíkó 1986. Zico heillaði heimsbyggðina með leik sínum á Spáni þar sem hann skoraði fjögur mörk og kom við sögu í fjölda annarra marka, en liðið féll þó úr leik í milliriðlum eftir harða keppni við Ítali. Fjórum árum síðar átti Zico við meiðsli að stríða og byrjaði flesta leiki á bekknum. Í fjórðungsúrslitaleiknum gegn Frökkum fiskaði hann vítaspyrnu en misnotaði hana. Brasilía tapaði loks í vítaspyrnukeppni og varð það síðasti landsleikur Zico.
Þjálfunarferill
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir litla þjálfunarreynslu var Zico ráðinn sem þjálfari japanska landsliðsins eftir HM 2002. Undir hans stjórn tryggði liðið sér sæti á HM 2006 með sannfærandi hætti og náði prýðilegum úrslitum í undirbúningsleikjum, þegar á hólminn var komið tapaði Japan tveimur leikjum og gerði eitt jafntefli og sagði Zico starfi sínu lausu að keppni lokinni.
Næstu ár á eftir þjálfaði hann ýmis félagslið í Tyrklandi, Rússlandi og Grikklandi en stoppaði yfirleitt stutt á hverjum stað. Árið 2011 tók hann við landsliðsþjálfarastarfinu í Írak, en upp úr samstarfinu slitnaði eftir um ár vegna vanefnda. Upp frá því hefur Zico gripið í ýmis þjálfunar og ráðgjafastörf hjá félögum í Katar, á Indlandi og í Japan.
Tölfræði
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíska karlalandsliðið | ||
---|---|---|
Ár | Leikir | Mörk |
1976 | 9 | 6 |
1977 | 7 | 6 |
1978 | 11 | 3 |
1979 | 5 | 5 |
1980 | 5 | 4 |
1981 | 12 | 10 |
1982 | 11 | 8 |
1983 | 1 | 0 |
1984 | 0 | 0 |
1985 | 5 | 3 |
1986 | 5 | 3 |
Heild | 71 | 48 |