Tangshan
Tangshan (kínverska:唐山; rómönskun: Tángshān; er stórborg í austurhluta Hebei-héraðs í norðurhluta Alþýðulýðveldisins Kína.
Tangshan er staðsett á miðsvæði svokallaðs Bóhaí efnhagssvæðis, en það er þéttbýls- iðnaðar- og viðskiptasvæðið í kringum borghéraðið Tianjin.
Mikið af uppbyggingu borgarinnar er iðnvæðingu að þakka, sem hófst árið 1870, þegar vinnsla kola hófst á svæðinu. Kínverjar tala gjarnan um að í borgin sé „vagga kínverskrar iðnvæðingar“. Í borginni vori fyrstu stöðluðu járnbrautirnar lagðar í Kína, fyrstu járnbrautarverksmiðjunum komið á fót, og fyrstu sementsverksmiðju landsins. Í dag er Tangshan miðstöð stál-, orku-, efna- og keramikframleiðslu.
Héraðsborgin Tangshan nær yfir alls 13.472 ferkílómetra land, og hefur lögsögu yfir 7 hverfum, 4 sýslum og þremur sýsluborgum. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Tangshan um 7,7 milljónir manna.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fornsaga
[breyta | breyta frumkóða]Sögu mannvista í Tangshan er hægt er að rekja aftur til 4.000 ára. Svæðið var á yfirráðasvæði Guzhu konungsríkisins (1600 f.Kr.) á tíma Shangveldisins og varð síðar hluti af ríkinu Yan, einu sjö stríðsríkjanna (403 - 221 f.Kr.). Á tímum Hanveldisins (206 f.Kr. - 220 e.Kr.) varð svæðið hluti af hinu forna Youzhou-héraði.
Keisaratímar
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan var þorp á tímum Tangveldisins (619–907) og þróaði landbúnað, olíunýtingu og keramikframleiðslu á tímum Mingveldisins (1368–1644). [5]
Á tímum Tjingveldisins (1644–1912) var þorpið undir lögsögu Zhili-héraðs og Zunhua-ríkis.
Þorpið Tangshan var staðsett á svæði þar sem margar litlar kolagryfjur höfðu verið unnar síðan á 16. öld. Árið 1876 lagði Kantónskur forvígismaður iðnvæðingar að vestrænum sið það til við landstjórnina að komið yrði á fót kolaiðnaði þar. Það gekk eftir og námugröftur hófst árið 1879 í Kaiping (nú hverfi í Tangshan). Kolin voru flutt 11 kílómetra með sporvagni til Xugezhuang (nú Fengnan), þaðan sem þau voru flutt með skipaskurði til Ninghe (Lutai) á Jiyun fljóti og þaðan í birgðastöð nálægt Tianjin borg.[5]
Þrátt fyrir opinbera andstöðu við þróun járnbrauta, var sporvagninum breytt árið 1882 í fyrstu almennilega járnbraut Kína. Járnbrautin var framlengd til Ninghe árið 1887 og síðan árið 1888 til Tanggu, úthafnar Tianjin. Nýjar kolanámur voru opnaðar í Linxi, 24 kílómetra norðaustur af Tangshan, og þær tengdar með járnbrautum til Tianjin. Kaiping námufélagið stofnaði til eigin siglinga með kol til norðurhafna kínverska flotans og til Sjanghæ. Á árunum 1891–94 var Tianjin borg tengd járnbrautum við Shanhaiguan, á ströndinni norðaustur af Tangshan; fyrirtækið þróaði einnig eigin hafnaraðstöðu eftir 1899, með járnbrautartengingu við íslausa höfn Qinhuangdao.
Boxarauppreisnin 1900 leiddi til hernáms rússneskra hermanna í Tangshan, en Qinhuangdao var hernumin af bandamönnum, og því stöðvaðist vinna við höfnina og járnbrautartengingar. Fyrirtækið í fjárhagserfiðleikum, féll þá undir breska stjórn. Kolaframleiðsla hófst á ný og lokið var við gerð nýrrar hafnar og járnbrautartengingar. Árið 1903 var nánast allt kol flutt út um Qinhuangdao.[5]
Lýðveldistímar
[breyta | breyta frumkóða]Yuan Shikai, ríkisstjóri Zhili, reyndi ítrekað en árangurslaust að ná yfirráðum yfir námufyrirtækinu. Hann stofnaði síðan kínverskt fyrirtæki, Luanzhou Mining Company, sem opnaði námur á sama svæði og fór í verðstríði við Kaiping-kolanámufyrirtækið en lenti fljótt í fjárhagsvandræðum. Árið 1929 var nafni Zhili-héraðs breytt í Hebei-hérað. Árið 1934 voru fyrirtækin sameinuð í Námufélagið Kailuan. Þar voru yfirráð Breta tryggð yfir allri námuvinnslunni og henni var haldið áfram — jafnvel eftir hernám Japana 1937 — þar til stríð braust út milli Japans og Vesturveldanna 1941. Fyrirtækið komst aftur í bresk yfirráð 1945, en árið 1948 var svæðið hertekið af kínverskum kommúnistum, sem ráku Breta úr landi árið 1952. Samkvæmt fyrstu fimm ára áætlun kommúnista (1953–57) var framleiðslan endurnýjuð með tækniaðstoð frá Sovétríkjunum.
Annar iðnaður var líka byggður upp í Tangshan. Þar á meðal var árið 1907 byggð stór sementsverksmiðja - Jixin verksmiðjan, ein sú fyrsta í Kína.
Árið 1939 var ákveðið að stofna sveitafélagið Tangshan og kommúnistar gerðu hana formlega að borg árið 1946.
Alþýðulýðveldið
[breyta | breyta frumkóða]Frá árinu 1949 hefur Tangshan vaxið úr því að vera að mestu kolaframleiðsluborg, í fjölbreytta iðnaðarborg í Hebei héraði. Í henni eru framleiddar ýmsar stálvörur og vélvædd kolavinnsla hefur aukið verulega árlega framleiðslu. Varmaorkuver svæðisins eru meðal þeirra stærstu í Kína. Auk þess að framleiða sement er Tangshan einnig þekkt fyrir salt-, keramik-, efna-, véla- og textíliðnað.
Til viðbótar við mikilvægar lestartengingar er borgin nú tengd hraðbrautum við Peking, Tianjin, Shenyang og við Jingtang, nýja höfn suðaustur af Tangshan við Bóhaíhaf sem er undir stjórn borgarinnar.
Jarðskjálftinn 1976
[breyta | breyta frumkóða]Þann 28. júlí 1976 lagðist borgin í rúst eftir risastóran jarðskjálfta af stærðinni 7,8 (7,5 samkvæmt opinberum skýrslum). Sterkir eftirskjálftar héldu áfram í marga daga. Næstum allar byggingar voru eyðilagðar og námur skemmdust. Opinber tala látinna er 243.000, og 165.000 slasaðir. Vísindamenn telja nú að minnsta kosti hafi 300.000 manns látið lífið í skjálftunum, sem gerir jarðskjálftann einn mest eyðileggjandi í nútímasögunni.[6]
Nokkrir aðrir jarðskjálftar riðu yfir borgina seint á áttunda áratugnum og snemma á níunda áratugnum og nýjar jarðskjálftaþolnar byggingar voru hannaðar. Risastórar nýjar íbúðasamstæður hýstu 80.000 fjölskyldur í lok árs 1980. Landsvæði á misgengislínum var gert að görðum.
Jarðskjálftinn olli mjög alvarlegu tjóni á atvinnu-og framleiðslutækjum. Talið er að um 70-80% iðnaðarbygginga hafi fallið, framleiðslu- og flutningsbúnaður skemmdist mikið og öll fyrirtæki stöðvuðu framleiðslu.[7] Þrátt fyrir að margar atvinnugreinar hafi byrjað aftur innan eins eða tveggja ára, var það ekki fyrr en á níunda áratugnum sem heildarframleiðslan náði aftur stigi fyrir 1976.[5]
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan er í austurhluta Hebei héraðs og á norðausturhluta Norður-Kína sléttunnar. Borgin hefur Yan-fjöll í norðri, og Bóhaíhaf í suðri, sem er flói innst í Gulahafi, hafnarborgina Qinhuangdao í austri yfir Luan-fljót og borghéraðið Tianjin í vestri.
Tangshan er miðsvæðis á svokölluðu Bóhaí efnhagssvæði, en það er þéttbýls- iðnaðar- og viðskiptasvæðið í kringum borghéraðið Tianjin. Tangshan þjónar þar umferðinni til norðausturs og tengist þar norður- og norðaustursvæði Kína. Stærsta fljótið í héraðinu er Luan fljót.
Tangshan borg nær yfir 14.341 ferkílómetra svæði. Í miðri borginni eru Dacheng hæðir. Þær hétu áður Tangshan hæðir (eftir Tangveldinu) og gáfu borginni nafn.
Náttúruauðlindir
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan er rík af jarðefnaauðlindum: kolum, járni, gulli, kalksteini, dólómíti, olíu, og jarðgasi. Kolaforðinn liggur aðallega Guye, Kaiping, Fengnan, Lunan, Lubei, og Yutian.Járngrýti er aðallega í Qianxi, Qian'an, Zunhua, og Luanzhou. Borgin telst til eins af sjö helstu járnvinnslusvæðum Kína. Gullnámur eru í Qianxi-sýslu.[8]
Strandlengja Tangshan er um 230 kílómetra löng og strandsvæðin rík af sjávarauðlindum eins og sjávarútvegi, saltiðnaði, olíu og gasi.[8]
Skógarþekja borgarinnar náði árið 2017 um 37%. Í borginni eru 7 þjóðar- og héraðsskógar. Vatnsauðlindir borgarinnar eru einnig tiltölulega miklar.[8]
Lýðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Tangshan 2.551.948 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 7.717.983.
Stjórnsýsla
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan borg hefur hefur alls 14 stjórnsýsludeildir undir lögsögu sinni: 7 hverfi, 4 sýslur og 3 sýsluborgir.
Borgarhverfin eru: Lunan, Lubei, Guye, Kaiping, Fengnan, Fengrun, og Caofeidian-hverfi.
Fjórar sýslur undir lögsögu borgarinnar eru: Luannan, Leting, Qianxi, og Yutian sýsla.
Þrjá undirborgir Tangshan eru: Zunhua borg, Qian'an borg, og Luanzhou borg.
Að auki heyra undir stjórnsýslu borgarinnar sex iðnþróunar- og fríverslunarsvæði: Tangshan hátækniþróunarsvæðið (stofnað árið 1992); Hafnarþróunarsvæði Hebei Tangshan (1993); Hebei Tangshan Lutai efnahagsþróunarsvæðið (2003); Tangshan Hangu stjórnunarumdæmi (sérstakt stjórnsýsluumdæmi á sýslustigi stofnað árið 2003); „Alþjóðlega ferðamannaeyja Tangshan“ (2011); og „Sýningarsvæði samvinnuþróunar Peking-Hebei Caofeidian“ (2020).
Stjórnsýsla Tangshan[9] | |||
---|---|---|---|
Undirskipting | Kínverska | Fólksfjöldi 2020 | Stærð (km2) |
Miðborg: Hverfi | |||
Lunan hverfi | 路南区 | 334.204 | 61 |
Lubei hverfi | 路北区 | 914.396 | 124 |
Guye hverfi | 古冶区 | 317.932 | 248 |
Kaiping hverfi | 开平区 | 279.432 | 238 |
Fengnan hverfi | 丰南区 | 648.640 | 1,592 |
Fengrun hverfi | 丰润区 | 840.934 | 1,310 |
Caofeidian hverfi | 曹妃甸区 | 352.069 | 1,281 |
Sýslur | |||
Luannan sýsla | 滦南县 | 508.538 | 1.483 |
Laoting sýsla | 乐亭县 | 487.416 | 1.607 |
Qianxi sýsla | 迁西县 | 365.615 | 1.461 |
Yutian sýsla | 玉田县 | 664.906 | 1.170 |
Undirborgir | |||
Zunhua borg | 遵化市 | 707.047 | 1.521 |
Qian'an borg | 迁安市 | 776.752 | 1.208 |
Luanzhou | 滦州市 | 520.102 | 999 |
Alls: | 7.717.983 | 14.341 |
Veðurfar
[breyta | breyta frumkóða]Almennt
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan hefur rakt meginlandsloftslag undir áhrifum monsúnvinda, með köldum og mjög þurrum vetrum og heitum rigningarsumrum. Vor og haust eru stutt með nokkurri úrkomu. Mánaðarlegur sólarhringsmeðalhiti í janúar er -5,1 °C og 25,7 °C í júlí og ársmeðaltalið er 11,5 °C. Nærri 60% af 610 millimetra ársúrkomu fellur í júlí og ágúst. Frostlaust tímabil varir í 180–190 daga og svæðið fær 2.600–2.900 sólskinsstundir árlega.[10]
Það þykir gott að heimsækja Tangshan á sumrin og haustin. Á sumrin er sjór lygn, og á haustin er svalt og notalegt veður. [11]
Veðurfar í Tangshan borg á árunum 1971–2000 | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Mánuður | Jan. | Feb. | Mar. | Apr. | Maí | Jún. | Júl. | Ágú. | Sep. | Okt. | Nóv. | Des. | Árið |
Meðalhiti (°C) | 0,9 | 4,1 | 10,7 | 19,6 | 25,2 | 29,1 | 30,2 | 29,4 | 25,9 | 19,1 | 9,8 | 3,0 | 17,3 |
Meðalúrkoma (mm) | 4,3 | 4,4 | 9,6 | 21,3 | 42,7 | 86,6 | 192,8 | 162,5 | 48,2 | 23,5 | 9,9 | 4,4 | 610,3 |
Heimild: Kínverska veðurstofan.[10] |
Loftmengun
[breyta | breyta frumkóða]Aukin loftmengun vegna iðnvæðingar, sem hefur valdið víðtækum og alvarlegum umhverfisvandamálum í Kína.
Borgir Hebei héraðs eru taldar meðal menguðustu borga í landinu. Þar er kola- og iðnaðarborgin Tangshan engin undantekning og er talin meðal 10 mest menguðu borga Kína.
Efnahagur og atvinnulíf
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan er mikil iðnaðarborg með meira en 100 ára sögu og er talin ein fæðingarborga nútímaiðnaðar í Kína.
Kailuan kolanáman er enn nýtt og er sú kolanáma sem hefur mesta framleiðslu kokskola í Kína.[13]
Iðnaðarframleiðsla Tangshan borgar er marþætt: járn- og stálframleiðsla, framleiðsla byggingarefnis og keramik, vélasmíði, o.s.frv. Borgin mikilvæg orku- og hráefnisstöð í Kína.
Tangshan er talin vera „postulínshöfuðborg Norður-Kína“ og stærsta framleiðslustöð Kína fyrir hreinlætis- og iðnaðarpostulín.[13]
Með þróun og byggingu Tangshan hafnar og Caofeidian hverfis sem byggir á landfyllingu í Bohai-flóa, hafa framleiðslutæki færst nær ströndinni. Þessi stóra höfn fyrir kol- og málmgrýti, er ein helsta höfn Norður-Kína.
Undanfarinn áratug hafa yfirvöld hvatt til nýsköpunar og endurnýjunar atvinnufyrirtækja með áherslu á hátækni, upplýsingatækni, endurnýjanlega orkugjafa og líftækni. Fyrirtæki borgarinnar eiga nú tugi vel þekktra vörumerkja í Kína eins og Huida, Lanbei og Sanyou.
Atvinnuuppbygging hefur að mestu verið beint inn á sérstök iðnþróunarsvæði og fríverslunarsvæði borgarinnar. Þrjú þeirra eru talin til þjóðarþróunarsvæða Kína: Tangshan Caofeidian efnahags- og tækniþróunarsvæðið; Tangshan hátækniþróunarsvæðið; og „Caofeidian alhliða tollasvæðið“ sem er fríverslunarsvæði fyrir þjónustu og iðnað.[13]
Að auki eru ýmis önnur iðnþróunar- og fríverslunarsvæði innan borgarinnar: Hafnarþróunarsvæði Hebei Tangshan; Hebei Tangshan Lutai efnahagsþróunarsvæðið; „Sýningarsvæði samvinnuþróunar Peking-Hebei Caofeidian“ o.s.frv.
Samgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan borg liggur við aðalumferðaræðar Norður-Kína til Norðaustur-Kína og er þar alhliða samgöngumiðstöð. Net járnbrauta og hraðbrauta liggur í allar áttir.
Þjóðvegir
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan er mjög vel tengd samgöngum með stórum hraðbrautum Kína sem og hraðbrautum innan Hebei héraðs. Þjóðvegir Kína tengdir borginni eru nokkrir: Þjóðvegur #102, liggur um suðurhluta Fengrun hverfi; Þjóðvegur #112 er hringvegur sem umlykur höfuðborgina Peking og liggur að þéttbýli Tangshan; Þjóðvegur #205, liggur meðfram austur- og suðurhluta borgarinnar; „G1 hraðbrautin“ sem er á milli borganna Peking og Harbin, liggur í norðurhluta borgarinnar; „G25 hraðbrautin“ á milli Changchun og Shenzhen í suðri, er í vesturhlutanum.
Árið 2017 hafði Tangshan 18.000 kílómetra af vegum, þar af 16.000 í dreifbýli. Vegir borgarinnar þjónuðu 410 milljónum tonna vöruflutninga og höfn borgarinnar um 570 milljónum tonna.
Lestarsamgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Saga járnbrauta í Kína er mjög tengd Tangshan borg. Árið 1881 byggði Kaiping námufélagið fyrir eigin kolaflutninga, fyrstu stöðluðu járnbraut landsins. Þessi járnbraut var síðar lengd til vesturs til Tianjin og Peking, og austur til Shanhaiguan borgar.
Járnbrautirnar sem fara um Tangshan eru meðal annarra: Peking-Kasakstan lestin; Jinshan lestin; Daqin lestin; Tianjin-Qinhuangdao háhraðalestin; Jingtang milliborgalestin; Zhangtang lestin, Qiancao lestin og Tangcao lestin.
Lestarstöðvarnar eru margar. Aðallestarstöð Tangshan, sem er í vesturhluta borgarinnar; Norðurlestarstöð Tangshan, sem er í Fengrun hverfi; og Suðurlestarstöð Tangshan er í Lunan hverfi.
Hafnir
[breyta | breyta frumkóða]Strandlengja Tangshan við Bóhaíhaf er um 230 kílómetra löng. Tangshan höfn er hafnarsamlag þriggja hafnarsvæða sem nýlega hafa verið byggð upp: Jingtang hafnarsvæðið opnaði árið 1992; Caofeidian höfnin opnaði fyrir siglingar árið 2005; og bygging Fengnan svæðisins hófst 2016. Saman eru þær mikilvægar svæðishafnir norðurhluta Kína.[16]
Alls hefur Tangshan höfn 126 bryggjur fyrir ýmsa flutninga: málmgrýti, kol, gas, hráolíu, gáma o.s.frv. Frá höfninni er siglt til meira en 150 hafna 70 ríkja og svæða.[17] Saman eru Tangshan hafnir níunda stærstu hafnir Kína. Í farmflutningum er hafnarsamlagið það þriðja stærsta í Kína.
Almenningssamgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Tangshan borg hefur öflugt almannasamgöngukerfi. Í árslok 2019 þjónuðu 1.944 strætisvagnar borginni (þar af 541 rafmagnsvagnar) og 1403 strætisvagnar sem nýttu umhverfisvæna orkugjafa, alls 141 strætisvagnalínum.[18]
Flugsamgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Í borginni er ein flughöfn, Tangshan Sannvhe flugvöllurinn, sem er staðsettur í Fengrun hverfinu, í 20 kílómetra fjarlægð frá miðborginni. Þessi innanlandsflugvöllur sem nýttur er fyrir bæði hernaðarlegt og borgaralegt flug, opnaði árið 2010. Boðið er upp á flug til 14 borga Kína. Um flugvöllinn fóru árið 2021 um 400.000 farþegar.[19]
Flugvöllurinn er einn fjögurra farþegaflugvalla sem starfræktir eru í Hebei héraði. Að auki eru fluvellir í Shijiazhuang, Handan og Qinhuangdao.[20]
Að auki eru í tæplega tveggja tíma akstri frá Tangshan borg nokkrir af stærstu flugvöllum Kína: Tianjin Binhai alþjóðaflugvöllur; Beijing Capital alþjóðaflugvöllur; og Beijing Daxing alþjóðaflugvöllur.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur borgarstjórnar Tangshan Geymt 17 apríl 2009 í Wayback Machine Almennar upplýsingar á kínversku um borgina, sögu, skipulag, áhugaverða ferðamannastaði, samgöngur o.fl.
- Vefsíða Wikitravel Tangshan Almennar upplýsingar um borgina, áhugaverða ferðamannastaði, samgöngur o.fl.
- Vefsíða Travel China Guide: Tangshan Knappar upplýsingar um borgina, áhugaverða ferðamannastaði, samgöngur o.fl.
- Strandhéraðið Hebei í norðurhluta Kína.
- Borgir Kína eftir fólksfjölda
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Tangshan“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. ágúst 2022.
- „Britannica: Tangshan“. The Editors of Encyclopaedia. 27. apríl 2010. Sótt 7. ágúst 2022.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „清东陵“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 29. maí 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ „中车唐山机车车辆“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 26. maí 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ Tíminn - 171. Tölublað (5. ágúst 1976). „Jarðskjálftarnir í Kína“. Tíminn. Sótt 11. ágúst 2022.
- ↑ STÉTTABARÁTTAN (16. september 1976). „Jarðskjálftarnir í Kína: Sigur yfir náttúrunni“. STÉTTABARÁTTAN. Sótt 11. ágúst 2022.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 The Editors of Encyclopaedia (27. apríl 2010). „Britannica: Tangshan“. The Editors of Encyclopaedia. Sótt 11. ágúst 2022.
- ↑ Morgunblaðið- 165. tölublað (30. júlí 1976). „„Talið er að tugir eða hundruð þúsunda hafi farizt í Kína"“. Árvakur. Sótt 11. ágúst 2022.
- ↑ „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ 8,0 8,1 8,2 „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ 10,0 10,1 Kínverska veðurstofan (2022). „唐山城市介 - Veður í Tangshan“. Kínverska veðurstofan - Public Meteorological Service Center of China Meteorological Administration. Sótt 14. ágúst 2022.
- ↑ Travel China Guide (15. apríl 2020). „Tangshan Weather“. Travel China Guide. Sótt 11. ágúst 2022.
- ↑ CRRC TANGSHAN Co., LTD. (2022). „CRRC TANGSHAN Co., LTD.: Products & Services“. CRRC TANGSHAN Co., LTD. Sótt 17. ágúst 2022.
- ↑ 13,0 13,1 13,2 „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 14. ágúst 2022
- ↑ „唐山站“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 24. júní 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „津秦高速铁路“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 19. janúar 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „唐山市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 3. ágúst 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „唐山三女河机场“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 5. apríl 2022, sótt 17. ágúst 2022
- ↑ „唐山三女河机场“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 5. apríl 2022, sótt 17. ágúst 2022