Samtökin '78
Samtökin '78 | |
![]() | |
Stofnað | 9. maí 1978 |
Forseti | Bjarndís Helga Tómasdóttir |
Varaforseti | Hrönn Svansdóttir |
Heimilisfang | Suðurgata 3, 101 Reykjavík |
Netfang | skrifstofa@samtokin78.is |
Vefsíða | www.samtokin78.is |
Samtökin '78 eru hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi. Þau voru upphaflega sett á laggirnar árið 1978 sem umræðuvettvangur fyrir samkynhneigða og jafnframt sem vettvangur til að vinna að réttindum þeirra, en ná nú yfir réttindi alls hinsegin fólks.[1] Þau beita sér fyrir því að efla opinbera umræðu um hinsegin fólk og berjast gegn fordómum og mismunun af hvaða toga sem er. Þetta gera þau meðal annars með því að standa fyrir fræðslu og vitundarvakningu í þjóðfélaginu, halda ráðstefnur og viðburði, og gefa út fræðsluefni.[2]
Þá beita Samtökin '78 sér einnig fyrir lagalegum réttindum hinsegin fólks og fylgjast grannt með framgangi laga og reglugerða sem varða málefni þeirra. Þau hafa verið drifkrafturinn að baki mörgum mikilvægum lagabreytingum á Íslandi sem hafa bætt réttindi hinsegin fólks til muna. Þar má nefna lögleiðingu samkynhneigðra hjónabanda og réttindi trans fólks.[3][1][4]
Auk þess veita Samtökin '78 einstaklingum og fjölskyldum innan hinsegin samfélagsins stuðning og ráðgjöf. Þau veita ókeypis ráðgjöf og bjóða upp á vettvang fyrir fólk að hittast og miðla reynslu sinni. Þau gegna því lykilhlutverki í að skapa samheldni og styðja við velferð hinsegin fólks á Íslandi.[2]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]1970-1979
[breyta | breyta frumkóða]Samtökin '78 voru stofnuð þann 9. maí 1978 í Reykjavík. Hörður Torfason var meginaflið á bak við stofnun félagsins en hann boðaði sjálfur stofnfundinn í maí 1978. Nafn félagsins var myndað að fyrirmynd danskra samtaka samkynhneigðra, Forbundet af 1948.[5] Að honum meðtöldum sátu alls 12 karlmenn stofnfund félagsins þ. á m. Heimir Guðmundsson, Þórhallur Tryggvason og Guðni Baldursson.[6] Guðni Baldursson var kjörinn fyrsti formaður Samtakanna '78 á fundinum og gegndi hann því embætti á árunum 1978–1986.[7] Samtökin leigðu pósthólf sem þau nýttu sér til að senda pólitísk fréttabréf til félagsmanna sinna, sem voru u.þ.b. 20 karlmenn á sínum tíma.[5] Samtökin fóru mjög leynt með starfsemi sína í upphafi. Þau merktu til dæmis öll fundargögn stjórnarmanna með sérstöku félaganúmeri svo auðvelt væri að rekja hvernig sem gögnum kynni að leka í fjölmiðla.[5]
Ragnhildur Sverrisdóttir markaði tímamót í sögu samtakanna. Hún gekk í þau árið 1979, ári eftir stofnum þeirra, og varð fyrsta konan sem settist í stjórn samtakanna.[8]
Umfjöllun um samkynhneigð í fjölmiðlum og baráttan fyrir sjálfsmynd
[breyta | breyta frumkóða]Á fyrstu árum Samtakanna '78 kom upp alvarlegt ágreiningsmál er félagið hugðist auglýsa félagsfund í Ríkisútvarpinu, á einu rásinni sem þá var til. Auglýsingin átti að hljóða svo: „Lesbíur, hommar! Munið félagsfundinn í kvöld!“ Útvarpsstjórnendur neituðu hins vegar að birta auglýsinguna á þeim forsendum að orðin „hommar“ og „lesbíur“ stríddu „gegn almennum smekk og velsæmi.“[9]
Þessi afstaða útvarpsins var kveikjan að mikilvægri deilu um sjálfsmynd og orðfæri. Samkynhneigðir einstaklingar höfðu sjálfir valið sér þessi heiti, „hommi“ og „lesbía“, sem gegndu lykilhlutverki í nýrri sjálfsvitund þeirra og réttindabaráttu. Þau voru þeim tömust og komu innan frá, öfugt við eldri og oft niðrandi hugtök.[9]
Samtökin '78 túlkuðu afstöðu Ríkisútvarpsins sem neitun valdhafa á að viðurkenna homma og lesbíur sem fullgildan þjóðfélagshóp. Þessi afstaða var talin stinga í stúf við þær hugmyndir sem voru ríkjandi um íslenskan „hreinleika“ og ógnaði glansmyndinni af þjóðinni og menningu hennar. Í raun voru orðin „hommar“ og „lesbíur“ skilgreind sem „óhreinindi“ í huga þeirra sem sátu í valdastólum og ögruðu hefðbundnum hugmyndum.[9]
Það var ekki fyrr en með útbreiðslu eyðni (AIDS) að ísinn var brotinn. Sjúkdómurinn neyddi þjóðfélagið til að horfast í augu við og ræða opinberlega um tilvist samkynhneigðra, sem leiddi til þess að umræðan um stöðu homma og lesbía komst loks í sviðsljósið, utan við þær „hreinu“ skorður sem áður höfðu verið settar.[9] Þessi deila um orðfæri stóð þó yfir lengi. Það var ekki fyrr en á árunum 1991-1992 sem breyting varð á. Þegar nýr starfsmaður hóf störf hjá Ríkisútvarpinu á auglýsingadeild, á sama tíma og málfarsráðunautur, sem áður hafði bannað notkun orðanna, var fjarverandi vegna veikinda, gafst tækifæri til að koma á breytingum. Yfirmaður auglýsingadeildarinnar, Baldur Jónasson, féllst á að leyfa auglýsingu með orðunum „lesbíur“ og „hommar“. Fyrsta slíka auglýsingin var lesin af Gerði G. Bjarklind og hljóðaði: „Lesbíur, hommar, munið fjölskyldukaffið á sunnudaginn.“[10]
1980-1989
[breyta | breyta frumkóða]Þann 13. júlí 1980 héldu Samtökin '78 sitt fyrsta opinbera ball á skemmtistaðnum Manhattan í Kópavogi. Viðburðurinn vakti mikla athygli og var talinn einstaklega vel heppnaður, þrátt fyrir að lögreglan hafi þurft að slíta honum klukkan eitt um nótt þar sem gleymst hafði að sækja um framlengingarleyfi fyrir skemmtunina. Ballið var þá einstætt á Íslandi og laðaði að sér fólk á öllum aldri. Guðni Baldursson lýsir í afmælisriti Samtakanna '78 hvernig einn félagi, fæddur árið 1909, klæddist gömlum samkvæmisfötum frá millistríðsárunum og flutti eigin revíusöngva, sem bætti við stemningu kvöldsins.[11]
Í kjölfar skemmtunarinnar kom upp ágreiningur innan samtakanna. Einhverjir höfðu gert samkomulag við tímaritið Samúel um birtingu mynda frá ballinu, og birtust þær myndir snemma árs 1982. Þetta reyndist vera viðkvæmt mál þar sem margir félagsmenn voru ekki tilbúnir til að birta opinberlega myndir af sér á samkomu samkynhneigðra. Deilurnar vegna myndbirtingarinnar bárust í fjölmiðla og leiddu að lokum til þess að tveimur félagsmönnum var vísað úr Samtökunum '78.[11]
„Úr felum“ var fyrsta prentútgáfan um málefni samkynhneigðra sem dreift var opinberlega á Íslandi, af Samtökunum '78 árið 1981.[11][12]
Við lesbíur og hommar á Íslandi viljum miðla þekkingu á málefnum okkar til alls samfélagsins, svo að það öðlist skilning á þeim – og á því, að við erum eðlilegur hluti af samfélaginu.“
— Samtökin '78 í fyrsta tölublaði útgáfunnar.
Árið 1982 skipulögðu Samtökin '78 sín fyrstu mótmæli. Megintilgangurinn var að vekja athygli á og mótmæla því misrétti sem hommar og lesbíur máttu sæta á Íslandi. Slík opinber framkoma krafðist þá mikils hugrekkis, enda fólst í henni að opinbera samkynhneigð sína á almennum vettvangi á tímum þegar það var enn mjög viðkvæmt.[11]
Lana Kolbrún Eddudóttir var fyrsta konan til að gegna formennsku í Samtökunum ʼ78, árin 1989-1990.[13]
1990-1999
[breyta | breyta frumkóða]Margrét Pála Ólafsdóttir markaði nýtt tímabil þegar hún tók við formennsku Samtakanna '78 árið 1993. Hún efldi sýnileika samtakanna verulega, færði baráttuna meira út á við, tók virkan þátt í umræðum í fjölmiðlum, rökræddi opinberlega við fulltrúa kristilegra hópa og skipulagði borgarafund á Hótel Borg.[14]
Árið 1999 héldu Samtökin '78 Hinsegin helgi í lok júní sem markaði mikil tímamót. Augljóst var að hugarfarsbreyting hafði átt sér stað í samfélaginu, en um 1.500 manns mættu á útitónleika á Ingólfstorgi, og voru flestir þeirra gagnkynhneigðir. Auk tónleika var boðið upp á málþing, dansleiki og ýmsar aðrar skemmtanir til að minnast Stonewall-uppþotanna. Í kjölfarið voru menn farnir að ræða möguleikann á að ganga niður Laugaveginn.[14]
21. öld
[breyta | breyta frumkóða]Samtökin '78 einbeittu sér lengi vel eingöngu að málefnum samkynhneigðra en undir lok 20. aldar urðu mikil straumhvörf. Árið 1993 sagði hópur félagsmanna sig úr samtökunum eftir að aðalfundur hafnaði tillögu um að veita tvíkynhneigðum aðild. Þessi hópur stofnaði þá „Félagið – réttindafélag tvíkynhneigðra og samkynhneigðra“, en félagið lognaðist út af árið 2007 þegar Samtökin '78 ákváðu loks að opna fyrir aðild tvíkynhneigðs fólks. Árið 2010 samþykkti aðalfundur Samtakanna '78 að veita trans fólki aðild að félaginu og í framhaldi var undirskrift Samtakanna ’78 breytt úr „félag lesbía og homma á Íslandi“ í „félag hinsegin fólks á Íslandi“, til að styrkja samstöðu félagsmanna og gera fólki kleift að finna sér stað á eigin forsendum.[1][15]
Árið 2016 olli aðildarumsókn BDSM-samtakanna miklum deilum innan Samtakanna '78. Í mars það ár var haldinn aðalfundur þar sem aðildin var samþykkt, en sá fundur var síðar dæmdur ógildur og endurtekinn.[16] Í september sama ár var haldinn nýr aðalfundur þar sem aðildin var aftur samþykkt með 179 atkvæðum gegn 127, en þrír skiluðu auðu.[17] Þrátt fyrir þessa niðurstöðu varð hún þess valdandi að mikið af eldri kynslóð samkynhneigðra sagði skilið við Samtökin '78, þar á meðal stofnandinn Hörður Torfason og nokkrir fyrrverandi formenn, eins og Þorvaldur Kristinsson.[18]
Þann 27. júní 2021 var Jóhanna Sigurðardóttir sæmd heiðursmerki Samtakanna '78 fyrir baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks, en hún var fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra í heiminum og fyrsta konan til að gegna því embætti á Íslandi.[19]
Regnbogamessa í Fríkirkjunni
[breyta | breyta frumkóða]Þann 27. júní 2010 stóðu Samtökin '78 fyrir Regnbogamessu í Fríkirkjunni í Reykjavík til að fagna gildistöku nýrra einhjúskaparlaga sem heimiluðu hjónaband óháð kynhneigð.[20]
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, og Jónína Leósdóttir, sem höfðu áður verið í staðfestri samvist, gengu í hjónaband sama dag og lögin tóku gildi og nýttu sér þar með hin nýfengnu réttindi. Jóhanna sendi kveðju á messuna þar sem hún óskaði þjóðinni til hamingju með þessi tímamót í mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, flutti einnig ávarp og sagði lagabreytingarnar fela í sér brýna réttarbót í málefnum samkynhneigðra.[20]
Við athöfnina voru mannréttindaverðlaun Samtakanna '78 veitt til nærri 100 presta og guðfræðinga Þjóðkirkjunnar og fríkirkna fyrir stuðning þeirra. Einnig hlutu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorvaldur Kristinsson verðlaunin fyrir framlag sitt til réttindabaráttu hinsegin fólks.[21]
„Samviskufrelsi“ presta þjóðkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2015 olli svokallað „samviskufrelsi“ presta innan Þjóðkirkjunnar miklum deilum.[22] Andrés Ingi Jónsson spurði ráðuneytið um rétt presta til að neita samkynhneigðum um vígslu.[22][23] Biskupsstofa svaraði að prestar þyrftu ekki að gifta pör gegn vilja sínum, þó engar reglur bönnuðu mismunun. Samtökin '78 og lögfræðingar þeirra kölluðu þetta mismunun og vísuðu í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. Þau hótuðu málsókn.[23][22] Í kjölfarið, árið 2016, afneituðu ráðherra og biskup „samviskufrelsinu“ og árið 2020 bað biskup, Agnes M. Sigurðardóttir, formlega afsökunar á fordómum kirkjunnar gagnvart hinsegin fólki.[24][23]
Hýryrði
[breyta | breyta frumkóða]Í ágúst 2015 efndu Samtökin '78 til nýyrðasamkeppni sem bar heitið Hýryrði 2015.[25] Markmiðið var að íslenska hinsegin orðaforða. Almenningi var boðið að senda inn tillögur að orðum í fjórum flokkum: kynhneigð, kynvitund, kyntjáning og ókyngreind frændsemisorð. Yfir 300 tillögur bárust í samkeppnina. Niðurstöður voru kynntar opinberlega þann 16. nóvember 2015, á degi íslenskrar tungu. Dómnefnd valdi 13 orð sem þóttu skara fram úr. Þessi orð voru hugsuð sem tillögur til umræðu, enda var lögð áhersla á að notendur sjálfir ættu að samþykkja orðin.[26]
Til dæmis voru orðin, í flokknum kyntjáning, sem voru valin fyrir enska hugtakið „androgynous“: Dulkynja og Vífguma. Fyrir ókyngreind frændsemisorð voru: Kærast (fyrir kærasti/kærasta) og Bur (fyrir sonur/dóttir) kynnt. Í flokki kynhneigðar voru tillögur á borð við Eikynhneigður og Ókynhneigður ræddar fyrir „asexual“. Í flokki kynvitundar voru myndaðar tillögur með viðskeytinu „-gerva“, sem vísar í kyngervi og kynbeygist ekki, til dæmis Tvígerva (e. bigender) og Flæðigerva (e. genderfluid).[26]
Keppnin hefur síðan þá verið haldin árlega.
Hagsmunafélög
[breyta | breyta frumkóða]Mörg önnur hinsegin félagasamtök eiga aðild að Samtökunum '78 og má þess vegna kalla félagið regnhlífarsamtök fyrir önnur félagasamtök sem tengjast hinsegin baráttu, menningu og starfi. Hagsmunafélögin eru 12 talsins og eru þau öll sjálfstætt starfandi.[27]
- Ásar á Íslandi – Félag eikynhneigðra á Íslandi
- BDSM á Íslandi – Stuðnings- og fræðslufélag fólks með BDSM-hneigðir
- Félag hinsegin foreldra
- Intersex Ísland – Samtök fyrir einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni (e. intersex), fjölskyldur þeirra og aðra aðstandendur
- Íþróttafélagið Styrmir – Íslenskt íþróttafélag fyrir hinsegin fólk
- HIN – Hinsegin Norðurland – Samtök sem beita sér fyrir réttindum og sýnileika hinsegin fólks á landsbyggðinni
- Hinsegin Austurland
- Hinsegin dagar – Reykjavík Pride
- Hinsegin kórinn – Kór hinsegin fólks í Reykjavík og nágrenni
- Q – Félag hinsegin stúdenta – Félag sem beitir sér í réttindabaráttu hinsegin fólks innan sem og utan háskólasamfélagsins
- Trans Ísland – Stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi
- Trans vinir – Hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi
Þjónusta og innra starf
[breyta | breyta frumkóða]Fræðsla
[breyta | breyta frumkóða]Samtökin '78 bjóða upp á fræðslu um hinseginleika. Fræðarar Samtakanna ’78 er hópur af þjálfuðu starfsfólki og verktökum. Fræðslan stuðlar að upplýstri umræðu og þekkingu á málefnum hinsegin fólks. Samtökin '78 bjóða upp á fjölbreytta fræðslu fyrir öll skólastig, kennara, heilbrigðisstarfsfólk og fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að um 15.500 manns hafi hlotið fræðslu frá Samtökunum '78 árið 2023.[28]
Ráðgjöf
[breyta | breyta frumkóða]Samtökin '78 bjóða upp á ókeypis ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þess. Ráðgjafar félagsins eru allir fagmenntaðir og bjóða þeir m.a. upp á félagsráðgjöf, sálfræðiráðgjöf og lögfræðiráðgjöf.[29] Árið 2023 voru 1662 ráðgjafatímar hjá Samtökunum '78.
Stuðningshópar
[breyta | breyta frumkóða]Samtökin '78 bjóða upp á ýmsa stuðningshópa fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þar sem fólk getur komið og deilt reynslu og ráðum meðal jafningja. Stuðningshópum er stýrt af fagmenntuðum ráðgjöfum Samtakanna '78.[30]
Formenn Samtakanna '78
[breyta | breyta frumkóða]Formenn samtakanna frá upphafi eru:
- Guðni Baldursson (1978-86)
- Þorvaldur Kristinsson (1986-1989)
- Lana Kolbrún Eddudóttir (1989-1990)
- Guðrún Gísladóttir (1990-1991)
- Þorvaldur Kristinsson (1991-1993)
- Lana Kolbrún Eddudóttir (1993-1994)
- Margrét Pála Ólafsdóttir (1994-1997)
- Percy Stefánsson (1997)
- Margrét Pála Ólafsdóttir (1997-1999)
- Matthías Matthíasson (1999-2000)
- Þorvaldur Kristinsson (2000-2005)
- Hrafnhildur Gunnarsdóttir (2005-2007)
- Frosti Jónsson (2007-2010)
- Svanfríður Lárusdóttir (2010-2011)
- Guðmundur Helgason (2011-2013)
- Anna Pála Sverrisdóttir (2013-2014)
- Hilmar Hildarson Magnúsarson (2014-2016)
- María Helga Guðmundsdóttir (2016-2019)
- Þorbjörg Þorvaldsdóttir (2019-2022)
- Álfur Birkir Bjarnason (2022-2024)
- Bjarndís Helga Tómasdóttir (2024-)
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Samtökin '78“. Hinsegin frá Ö til A. Sótt 3 júní 2025.
- ↑ 2,0 2,1 „Forsíða“. Samtökin '78. Sótt 3 júní 2025.
- ↑ „Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum“ (PDF). Alþingi. 13.maí 2008.
- ↑ „Lagaleg réttindi“. Samtökin '78. Sótt 3 júní 2025.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „1970 – 1979 – Svona fólk“. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. „Þrjátíu Ára Stríðið“. 30 ára afmælisrit Samtakanna '78. Samtökin '78, 2008: 26-27. .
- ↑ https://gayiceland.is/2017/gudni-baldursson-memoriam/
- ↑ „Eldra fólk vill ekki þurfa að hrökklast aftur inn í skápinn“. Fréttablaðið. Afritað af uppruna á 18. september 2021. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ 9,0 9,1 9,2 9,3 Þorvaldur Kristinsson (01.12.1999). „Hreinleiki og vald“. Samtökin '78 - Samtakafréttir. bls. 9.
- ↑ „HOMMI OG LESBÍA Á RÚV Í FYRSTA SINN – Svona fólk“. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ 11,0 11,1 11,2 11,3 „1980 – 1989 – Svona fólk“. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ „Úr felum — nýtt blað Samtakanna 78“. Dagblaðið Vísir. 09.10.1982. bls. 5.
- ↑ „LANA – Svona fólk“. Sótt 15 júní 2025.
- ↑ 14,0 14,1 „1990 – 1999 – Svona fólk“. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ „Hinsegin“. Hinsegin frá Ö til A. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ Daðason, Kolbeinn Tumi (9 nóvember 2016). „Stóra BDSM-málið: „Getum við ekki við unnt fólki þess sama og við börðumst sjálf fyrir til handa okkur?" - Vísir“. visir.is. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ þorkelsdóttir, nína hjördís (9 nóvember 2016). „BDSM fær aðild að Samtökunum '78 - Vísir“. visir.is. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ „Samtökin '78 skuldi tveimur kynslóðum afsökun - RÚV.is“. RÚV. 29 október 2019. Sótt 13 júní 2025.
- ↑ „Jóhanna Sigurðardóttir sæmd heiðursmerki Samtakanna '78 - RÚV.is“. RÚV. 27 júní 2021. Sótt 14 júní 2025.
- ↑ 20,0 20,1 Róbert Hlynur Baldursson (28.06.2010). „Jóhanna gekk að eiga Jónínu“. Dagblaðið Vísir. bls. 9.
- ↑ „Afmælishátíð 27. Júní - Starfsskýrsla 2010 - 2011“ (PDF). Samtökin '78. 11. mars 2011.
- ↑ 22,0 22,1 22,2 Sigurbjörnsson, Kristjana Björg Guðbrandsdóttir,Stefán Rafn (24. september 2015). „Samtökin 78 vilja fara í mál vegna kirkjunnar - Vísir“. visir.is. Sótt 14 júní 2025.
- ↑ 23,0 23,1 23,2 „„Samviskufrelsi" presta þjóðkirkjunnar - Starfsskýrsla 2015-2016“ (PDF). Samtökin '78. 5. mars 2016.
- ↑ Sigurðardóttir, Elísabet Inga (8 ágúst 2020). „Afsökunarbeiðni Þjóðkirkjunnar hefur mikla þýðingu - Vísir“. visir.is. Sótt 14 júní 2025.
- ↑ Pálsson, Stefán Árni (8 maí 2015). „Samtökin '78 efna til nýyrðasamkeppni í hinsegin orðaforðanum - Vísir“. visir.is. Sótt 14 júní 2025.
- ↑ 26,0 26,1 Arnarsson, Daníel (17 nóvember 2015). „Burið mitt er vífguma - hýryrði 2015“. Samtökin '78. Sótt 14 júní 2025.
- ↑ „Hagsmunafélög“. Samtökin '78. Sótt 11 apríl 2019.
- ↑ „Ársskýrsla Samtakanna '78 2023-2024“ (PDF). 2024.
- ↑ „Um ráðgjöfina“. Samtökin '78. Sótt 11 apríl 2019.
- ↑ „Stuðningshópar“. Samtökin '78. Sótt 20 febrúar 2023.