Sagnadans
Sagnadansar (líka kallaðir fornir dansar, íslensk fornkvæði eða danskvæði) eru epísk miðaldadanskvæði sem sungin voru hér á landi við hópdans eða hringdans fyrr á öldum. Sagnadansar, sem í raun eru samevrópskur arfur, urðu afar vinsælir á Norðurlöndunum og lifa enn góðu lífi í Færeyjum. Í Færeyjum kallast sagnadansar einfaldlega „kvæði". Á Íslandi eru sagnadansar einnig gjarnan þekktir undir nafninu vikivakar en ekki má rugla þeim saman við svokölluð vikivakakvæði þar sem slík danskvæði eru lýrísk.
Varðveittir sagnadansar á Íslandi eru u.þ.b. 110 talsins og fjallaði Vésteinn Ólason bókmenntafræðingur (prófessor emeritus) um þá flesta í doktorsritgerð sinni sem hann varði árið 1982. Einstakir sagnadansar teljast séríslenskir og má sem dæmi nefna Gunnars kvæði á Hlíðarenda og Tristrams kvæði. Vinsælasti sagnadansinn hér á landi er þó vafalaust Ólafur liljurós.
Óvíst er hvenær Íslendingar kynntust fyrst sagnadönsum en talið er að það hafi verið á kaþólskum tíma eða fyrir siðaskiptin. Þeir voru þó ekki skráðir fyrr en á 17. öld og síðar. Þeir voru því hluti af munnlegri hefð í nokkrar aldir.
Sögusvið kvæðanna er oft ástir og samskipti kynjanna. Þá voru kvæði af riddurum og frúm sérstaklega vinsæl hér á landi en mun minna er til af svokölluðum kappakvæðum. Talið er að kvæði af köppum hafi mun fremur fallið undir hatt rímna hér á landi, ólíkt í Færeyjum. Þar eru þau geysimörg og má þar t.d. nefna Orminn langa sem Færeyingar syngja á Ólafsvöku og Regin smið.
Höfundar kvæðanna eru óþekktir en kvæðin eiga sér hliðstæður á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Lítið er um stuðlasetningu nema í viðlagi en sérhljóða hálfrím tíðkast.
Þjóðlög við sagnadansa[breyta | breyta frumkóða]
Nokkur sagnadansalög birti Bjarni Þorsteinsson, prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari, í riti sínu Íslenzkum þjóðlögum.
Sagnadansar lifðu enn á vörum örfárra Íslendinga til sveita um miðja 20. öld þegar þjóðfræðingar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar ferðuðust um landið með segulbandstæki að vopni sem þá var nýjung. Segulböndin eru nú varðveitt í Árnagarði. Þá gátu sumir þessara heimildarmanna sýnt tóndæmi. Dæmi um sagnadansa og sagnadansalög sem lifðu enn á vörum einstaklinga um miðja 20. öld, samkvæmt þessum rannsóknum, má nefna Ásu kvæði, Draumkvæði, Harmabótar kvæði, Ólaf liljurós, Prestkonukvæði, Tófukvæði, Vallarakvæði systrabana, ofl.
Flokkun sagnadansa á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]
- Kvæði af riddurum og frúm
- Kvæði af köppum og helgum mönnum
- Gamankvæði
Dæmi um sagnadansa á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]
- Ásu dans
- Ásu kvæði
- Draumkvæði (Stjúpmóðurkvæði)
- Elenar ljóð
- Gunnars kvæði á Hlíðarenda
- Gunnbjarnar kvæði
- Ólafur liljurós
- Harmabótar kvæði
- Hildibrands kvæði
- Húfukvæði
- Hörpu kvæði
- Karlamagnúsar kvæði
- Klerks kvæði
- Konuríki
- Kvæði af Loga í Vallarhlíð
- Prestkonukvæði
- Svíalín og hrafninn
- Taflkvæði
- Tófukvæði
- Tristrams kvæði
- Vallarakvæði systrabana
Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]
Heimildir[breyta | breyta frumkóða]
- Jón Samsonarson (2002). Ljóðmál : fornir þjóðlífsþættir. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. ISBN 9979-819-79-0.
- Vésteinn Ólason (1982). „The Traditional Ballads of Iceland“. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
- Sigríður Þ. Valgeirsdóttir (2010). Íslenskir söngdansar í þúsund ár. Háskólaútgáfan.