Fara í innihald

Lausavísa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lausavísa eða staka er í skáldskap erindi sem er stakt og ekki hluti af lengra ljóði eða vísnaflokki, þótt raunar séu ýmsar þekktar lausavísur upphaflega hluti af rímu eða lengra kvæði en hafa öðlast sjálfstætt líf úr tengslum við upprunalega kvæðið.

Flestar lausavísur eru tvær til fjórar línur en elstu lausavísurnar, frá fyrstu öldum Íslandssögunnar, eru þó oftast lengri og ortar undir dróttkvæðum háttum eða eddukvæðaháttum og síðar danskvæðaháttum. Þegar kom fram um siðaskipti voru rímnahættir orðnir allsráðandi. Þegar leið á 20. öld fór að bera á lausavísum ortum undir limruhætti, vanalega eru þær bara kallaðar limrur.

Margar lausavísur eru knappar og meitlaðar lýsingar á atvikum, mönnum eða bregða upp augnabliksmyndum eða stemmningu sem bundin er í rím og stuðla. Því má segja að lausavísan íslenska sé ákveðinn geðbrigðakveðskapur. Slíkar vísur gátu orðið landfleygar og á allra vörum löngu eftir að tilefni þeirra var tekið að falla í gleymsku og stundum eru lausavísur jafnvel eina heimildin um löngu liðna atburði. Oft glataðist líka nafn skáldsins og ýmsar alþekktar stökur hafa verið eignaðar mörgum höfundum og eru til í mörgum útgáfum, enda geymdust vísurnar fyrst og fremst í minni manna þótt til séu stór lausavísnasöfn, prentuð og óprentuð.

Sem dæmi um lausavísu sem fljótt varð landfleyg og er enn alþekkt en hefur verið birt í ýmsum útgáfum má taka þessa:

Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist, hvað ég meina.
Vatnsenda-Rósa Guðmundsdóttir.

Efnisflokkar lausavísna

[breyta | breyta frumkóða]
  • „„Augu eða auga?" Í gagnasafni mbl.is, skoðað 25. janúar 2012“.