Fara í innihald

Konuríki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Konuríki (eða Það var eina vökunótt/jólanótt eða Það var einn myrgin) er norrænt danskvæði, vikivaki eða sagnadans og flokkast sem gamankvæði. Konuríki er eldfornt danskvæði frá miðöldum sem Íslendingar kynntust á kaþólskum tíma og talið er að það hafi borist til Íslands frá Noregi í kringum árið 1500. Kvæðið finnst á öllum Norðurlöndum en íslenska gerðin er líkust þeirri færeysku. Kvæðið kunnu örfáir Íslendingar til sveita um miðja 20. öld þegar þjóðfræðingar á vegum Stofunar Árna Magnússonar ferðuðust um landið með segulbandstæki að vopni.

Efni kvæðis

[breyta | breyta frumkóða]

Kvæðið hefst á því að kona ein vekur húsbónda sinn á vökunótt/jólanótt og biður hann að mala korn. Eftir að húsbóndinn hafði malað kornið um stund tekur hann sig til og þrífur hús þeirra hjóna hátt og lágt fram undir morgun. Húsbóndinn vekur síðan eiginkonu sína og býðst til þess að leiða hana um húsakynnin (stofuna) og sýna henni afraksturinn. Hún bregst hins vegar ókvæða við og lemur hann með átján álna stöng. Í kjölfarið segir eiginkonan að hann skyldi engan mat fá nema hænsnaegg þau sem lægju út undir vegg við hús þeirra hjóna. Svo fer að húsbóndinn gengur út til þess að tína eggin. Til þess að bæta gráu ofan á svart sjá nágrannarnir ófarir húsbóndans út undir húsvegg og taka að hlægja að honum og henda að honum gaman.

Þjóðlag við Konuríki

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskt þjóðlag hefur varðveist við Konuríki. Örfáir heimildarmenn um miðja 20. öld kunnu kvæðið og þjóðlagið við það og má þá einna helst nefna Guðfinnu Þorsteinsdóttur (Skáld-Erlu) frá Skjögrastöðum á Völlum. Hún söng allt kvæðið fyrir þjóðfræðinga á vegum Stofnunar Árna Magnússonar árið 1965. Upptakan er aðgengileg á vefslóð Ísmúss.