Fara í innihald

Ásukvæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ásukvæði er norrænt danskvæði, vikivaki eða sagnadans. Kvæðið var með vinsælustu sagnadönsum á Íslandi fyrr á öldum ásamt Draumkvæði (Stjúpmóðurkvæði) og Ólafi liljurós. Kvæðið finnst í nær öllum 17. aldar handritum sem varðveita sagnadansa. Kvæðið lifði enn á vörum Íslendinga til sveita um miðja 20. öld. Ásukvæði er eldfornt danskvæði og talið er að það hafi borist til Íslands frá Noregi fyrir árið 1500.

Kvæðið er talið mjög afbakað og hefur breyst mikið í tímans rás í munnlegri geymd.

Efni kvæðis

[breyta | breyta frumkóða]

Kvæðið hefst á þá leið að Ása gengur um stræti og heyrir fagrar raddir í fjarska. Í kjölfarið finnur hún riddara nokkurn bundinn í húsi einu. Riddarinn biður Ásu um að leysa sig og lofar að gera henni ekki mein en Ása hikar og treystir ekki riddaranum. Riddarinn virðist þó sannfæra hana að lokum og svo fer að Ása leysir bönd hans. Í kjölfarið segir riddarinn frá afrekum sínum og samskiptum hans við aðrar konur en hann kveðst hafa svikið þær allar. Riddarinn verður síðan árásargjarn og hefur í hyggju að gera Ásu mein. Í seinni tíma viðbótum nær Ása að flýja aðstæður, fer á bak hvítum hesti og gengur að lokum í helgan stein.

Þjóðlög við Ásukvæði

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskt þjóðlag hefur varðveist við kvæðið og er það að finna í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar. Lagið kunnu margir heimildarmenn um miðja 20.öld þegar þjóðfræðingar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar ferðuðust um landið með segulbandstæki að vopni. Þá samdi Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891-1977), einnig þekkt undir skáldanafninu Skáld-Erla, sérstaka laglínu við Ásukvæði sem hún raulaði fyrir börn sín. Öll þessi lög má finna á vefslóð Ísmús.