Fara í innihald

Tristramskvæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tristrams kvæði)
Tristram og Ísodd
Tristram og Ísodd

Tristramskvæði er íslenskt fornkvæði, vikivaki eða sagnadans. Kvæðið er einn fárra sagnadansa sem telst séríslenskur.

Sögusviðið er tekið úr niðurlagi Tristrams sögu ok Ísöndar eftir Bróður Róbert en sagan var þýdd á norræna tungu úr frönsku einhvern tímann á 13. öld. Talið er að Hákon Hákonarson hinn gamli (1204-1263) konungur Noregs hafi pantað norræna þýðingu á Tristrams sögu.

Tristramskvæði hefur varðveist í mörgum pappírshandritum en hefur gleymst á vörum Íslendinga einhvern tímann undir lok 18. aldar. Kvæðið er talið ort hér á landi einhvern tímann á 15. öld og telst því meðal elstu sagnadansa á Íslandi. Kvæðið er laust við erlend tökuorð.

Tristrams kvæði er af mörgum talinn vera einn fegursti sagnadansinn á íslenskri tungu.

Efni kvæðisins

[breyta | breyta frumkóða]

Tristram berst við heiðingja við Lundúnabrú en hann særist illa í bardaganum. Hann vill ekki láta græða sár sín nema af hendi Ísoddar hinnar björtu, ástkonu sinnar, sem þá var stödd í fjarlægu landi. Tristram sendir menn sína til þess að sækja hana, þó með þeim skilyrðum að þeir skyldu sigla til baka undir bláum seglum, ef Ísodd kæmi með þeim, en ef ekki, þá svörtum. Sendimennirnir sigla yfir haf til hennar og reka erindi hins særða Tristrams. Ísodd biður um leyfi til fararinnar af konungi sínum en hann bregst illa við og segist ekki vera hlynntur þessari för með þeim rökum að Tristram væri þegar við dauðans dyr. Ísodd blíðkar konung með faðmlögum og loks gefur hann henni leyfi til fararinnar. Skipin sigla þá til baka með björtu Ísodd, undir bláum seglum, og eru komin nálægt ströndinni. Þá kemur til sögunnar Ísodd hin svarta en hún virðist hafa verið stödd með hinum særða Tristrami. Ísodd hin svarta kemur auga á skipin í fjarska en lýgur að Tristrami, að seglin væru ekki blá, heldur svört.

Tristram hinn helsærði bregst illa við þessum tíðindum og hjartað hans springur (deyr). Í sömu andrá er Ísodd hin bjarta stigin á land og gengur meðfram strandlengjunni en heyrir klukknahljóð (pípnahljóð) í fjarska og grunar hana þegar hvað orðið hafði um Tristram. Ísodd hin bjarta hleypur í kirkju og sér þar ástmann sinn Tristram örendan og presta syngjandi yfir honum. Ísodd hin bjarta faðmar lík Tristrams og springur loks af harmi í þeim faðmlögum. Í sömu andrá hringja Rínarklukkur og prestar syngja sálma yfir þeim.

Undir lok kvæðist tekur Ísodd hin svarta til máls og segir að þau Tristram og Ísodd hin bjarta myndu ekki njóta samvista í himnaríki. Tristram og Ísodd hin bjarta eru að lokum sett í helgan stein. Síðasta erindi kvæðisins er að lokum á þessa leið: „Runnu upp af leiðum þeirra / lundar tveir, / upp af miðri kirkjunni / mætast þeir."

Varðveisla kvæðisins

[breyta | breyta frumkóða]

Tristrams kvæði er varðveitt heilt í fjórum uppskriftum. Tvær eru frá 17. öld og hinar tvær frá 18. öld. Kvæðið hefur gleymst á vörum manna einhvern tímann undir lok 18. aldar. Lag við Tristrams kvæði má finna í bókinni sem ber heitið Vikivakar og söngleikir eftir Helga Valtýsson, gefin út árið 1930.