Harmabótarkvæði
Harmabótarkvæði (eða Harmbótarkvæði) er norrænt danskvæði, vikivaki eða sagnadans sem var vinsæll hér á landi fyrr á öldum.
Kvæðið er talið mjög fornt þar sem það þekkist víða um Norðurlönd (Noregi, Færeyjum og Danmörku). Þó hefur ekki tekist að aldursgreina Harmabótarkvæði nákvæmlega. Talið er að kvæðið hafi borist hingað til Íslands frá Noregi fyrir siðaskiptin en Færeyingar, ólíkt Íslendingum, virðast hafa kynnst dönsku útgáfu kvæðisins um svipað leyti.
Nú á dögum er Harmabótarkvæði allþekkt kórverk og er það reglulega sungið af kórum landsins.
Efni kvæðis
[breyta | breyta frumkóða]Efni kvæðisins er á þá leið að stúlka nokkur leggur ástarhug til manns í fjarlægu landi (stundum nefndur Vilkin). Stúlkan tekur síðan yngri systur sína á eintal um þessa foboðnu ást en yngri systririn virðist svíkja hana um leyndarmálið og kjaftar frá til móðurinnar. Móðirin ræðir við bróður systranna um þessar óæskilegu ástarlanganir eldri dótturinnar og bróðirin sendir stúlkuna á sinn fund. Bróðirinn spyr síðan systur sína um umrædda ástarþrá og svo lyktar þeirra fundum að bróðirin sendir hana úr landi til greifa nokkurs. Greifinn virtist þó vera með gott hjartalag og svo fer að greifinn veitir henni fararleyfi til ástmannsins (Vilkins) sem hún þráir að hitta. Sagnadansinn endar á blíðum nótum þar sem stúlkan sefur hjá unnusta sínum á nóttum, drekkur bjór á daginn og spinnur lín.
Þjóðlög við Harmabótarkvæði
[breyta | breyta frumkóða]Harmabótarkvæði virðist hafa lifað lengi á vörum fólks hér á landi. Bjarni Þorsteinsson prestur á Siglufirði og þjóðlagasafnari þekkti eina laglínu við kvæðið og birti nótur þess í riti sínu Íslenskum þjóðlögum. Þá kunni Sesselja Eldjárn (1893-1987) á Tjörn í Svarfaðardal aðra laglínu við kvæðið sem virðist vera svipuð þeirri sem Bjarni þekkti. Varðveist hefur segulbandsupptaka af Sesselju flytja Harmabótarkvæði og er upptakan varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar. Upptakan er aðgengileg á vefslóð Ísmúss.
Kvæðið
[breyta | breyta frumkóða]- 1. Einum unna ég manninum
- á meðan það var,
í míns föður ranninum
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 2. Enginn maður það vissi,
- á meðan það var,
- nema mín yngsta systir,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 3. Systir sagði móður frá,
- á meðan það var,
- svo vissu það allar þrjár,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 4. Móðir talaði nokkur orð,
- á meðan það var,
- svo kom það fyrir bróður míns borð,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 5. Bróðir gjörði boð til mín,
- á meðan það var,
- og bað mig ganga í höll til sín,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 6. Hægra fæti í höllina sté,
- á meðan það var,
- „Sittu heill, bróðir, og hvað viltu mér?"
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 7. „Er það satt sem mér er sagt,
- á meðan það var,
- að þú hafir ást við riddarann lagt?"
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 8. „Ei er það satt sem mér er sagt,
- á meðan það var,
- að ég hafi ást við riddarann lagt."
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 9. Bróðir var mér ekki trúr,
- á meðan það var,
- hann seldi mig burtu landi úr,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 10. Seldi hann mig á annað land,
- á meðan það var,
- einum ríkum greifa í hand,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 11. Greifinn var mér nokkuð trúr,
- á meðan það var,
- seldi hann mig landi úr,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 12. Seldi hann mig á annað land,
- á meðan það var,
- mínum besta vin í hand.
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 13. Á daginn trað ég múr og torg,
- á meðan það var,
- en nóttina svaf ég með engri sorg,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 14. Á daginn drakk ég mjöð og vín,
- á meðan það var,
- um nóttina svaf ég hjá unnusta mín,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.
- 15. Vendi ég mínu kvæði í kross,
- á meðan það var,
- Guð og María sé með oss,
- og það fór þar.
- Þó hlýt ég minn harm að bera í leyndum stað.