Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, betur þekkt sem Árnastofnun, er ríkisstofnun kennd við íslenska fræðimanninn Árna Magnússon, sem fæst við rannsóknir á íslenskum fræðum og skyldum greinum. Árnastofnun er til húsa í Eddu við Suðurgötu í Vesturbæ Reykjavíkur, við hlið Þjóðarbókhlöðunnar. Stofnunin varð til 1. september 2006 við sameiningu fimm stofnana á sviði íslenskra fræða. Þær voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók við skyldum og verkefnum hinna eldri stofnana og þeim verkefnum sem þær höfðu sinnt. Um 60 manns starfa hjá Árnastofnun.
Hlutverk stofnunarinnar er samkvæmt lögum nr. 40/2006 „að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á“.[1]
Árnastofnun varðveitir þau handrit úr safni Árna Magnússonar sem hafa verið afhent til Íslands frá Árnasafni í Kaupmannahöfn, sem og örnefnasafn, orðasöfn og þjóðfræðisafn stofnunarinnar. Stofnunin starfrækir og heldur úti viðamiklum gagnasöfnum á vefnum, meðal annars um handrit, alþýðumenningu, örnefni,[2] orðaforða[3] og málnotkun, og sinnir auk þess margvíslegum máltækniverkefnum.
Handritasýningin „Heimur í orðum“ var opnuð í Eddu haustið 2024.[4]
Árnastofnun hefur náin starfstengsl við Háskóla Íslands og er hluti af fræðasamfélagi hans.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Uppruna Árnastofnunar má rekja til þess þegar handritamálið leystist og Handritastofnun Íslands var stofnuð. Fyrsta skóflustunga var tekin að Árnagarði þar sem handritum úr Árnasafni í Kaupmannahöfn var ætlaður staður árið 1967. Fyrstu handritin voru send til Íslands árið 1971. Árið 1972 var lögum breytt þannig að nafn stofnunarinnar varð Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.
Árið 2005 var ákveðið að reisa nýtt hús yfir Árnastofnun og með nýjum lögum árið 2006 var Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stofnuð með því að sameina Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og ýmsar aðrar stofnanir sem fengust við íslenskt mál. Þessar stofnanir voru Íslensk málstöð (skrifstofa íslenskrar málnefndar frá 1985), Stofnun Sigurðar Nordals (stofnuð á aldarafmæli Sigurðar Nordals 1986), Orðabók Háskólans (sem má rekja til 1920), og Örnefnastofnun Íslands (tók við af Örnefnastofnun Þjóðminjasafns Íslands árið 1998).[5]
Vorið 2023 var nýtt húsnæði Árnastofnunar og kennslu í íslenskum fræðum, Edda, vígt.[6] Handritin voru áfram geymd í öryggisgeymslum í Árnagarði meðan rakastig jafnaðist í nýjum handritageymslum. Handritin voru flutt í Eddu veturinn 2024-25.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“. Alþingi.is. 12. júní 2006.
- ↑ „Nafnið.is“. Sótt 13.4.2025.
- ↑ „Íðorðabankinn“. Sótt 13.4.2025.
- ↑ Þórdís Arnljótsdóttir (17. nóvember 2024). „Handritin á sýningunni kveikja margra listaverka“. Rúv.is.
- ↑ „Saga Árnastofnunar“. Sótt 13.4.2025.
- ↑ „Edda opnuð almenningi í dag“. Mbl.is. 20.4.2023.
- ↑ Atli Ísleifsson (15.1.2025). „Handritin öll komin á nýja heimilið“. Rúv.is.