Fara í innihald

Bob Dole

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Robert Dole)
Bob Dole
Dole á níunda áratugnum.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Kansas
Í embætti
3. janúar 1969 – 11. júní 1996
ForveriFrank Carlson
EftirmaðurSheila Frahm
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir Kansas
Í embætti
3. janúar 1961 – 3. janúar 1969
ForveriWint Smith
EftirmaðurKeith Sebelius
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. júlí 1923
Russell, Kansas, Bandaríkjunum
Látinn5. desember 2021 (98 ára) Russell, Kansas, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiPhyllis Holden (g. 1948; sk. 1972)
Elizabeth Hanford (g. 1975)
Börn1
HáskóliWashburn-háskóli
Undirskrift

Robert Joseph Dole (22. júlí 1923 – 5. desember 2021[1]) var bandarískur stjórnmálamaður og lögmaður sem sat á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Kansas frá 1969 til 1996. Hann var leiðtogi þingflokks Repúblikanaflokksins á öldungadeildinni síðustu ellefu ár sín á þingi og var leiðtogi þingmeirihlutans í alls þrjú ár. Áður hafði hann setið á fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá 1961 til 1969. Dole var frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum 1996 en tapaði þar fyrir Bill Clinton og Al Gore. Áður hafði Dole verið varaforsetaefni í forsetaframboði Geralds Ford í kosningunum 1976, en þar töpuðu þeir Ford gegn Jimmy Carter og Walter Mondale. Dole er eini frambjóðandi annars stóru stjórnmálaflokkanna í Bandaríkjunum sem hefur tapað kjöri bæði í embætti forseta og varaforseta.

Bob Dole fæddist þann 22. júlí árið 1923 í Kansas og var elstur fjögurra systkina. Móðurætt hans hafði búið í fylkinu allt frá tímum villta vestursins. Faðir hans vann við rjóma- og eggjasölu og fjölskyldan taldist til millistéttarinnar. Að loknu menntaskólanámi gekk Dole í tvö ár í Háskólann í Kansas en þegar Bandaríkin gengu inn í seinni heimsstyrjöldina árið 1941 gerði hann hlé á námi og skráði sig til þjónustu í bandaríska hernum ásamt vini sínum, Bud Smith. Smith varð flugmaður á Kyrrahafsvígstöðvunum en var skotinn niður af japönskum flugmönnum. Undir lok stríðsins tók Dole þátt í árás á þýskt vélbyssuhreiður í Pódalnum á Ítalíu þar sem handsprengja sprakk við hliðina á honum og reif af honum hluta axlarinnar. Dole lifði af en var lamaður á hægri handlegg það sem eftir var.[2] Dole lá í rúm þrjú ár á sjúkrahúsi vegna meiðslanna.[3]

Eftir að Dole náði sér eftir meiðslin úr stríðinu fór hann fljótt að klífa upp metorðastigann í stjórnmálum. Hann lauk lögfræðiprófi árið 1952 og varð síðan saksóknari í heimabæ sínum. Árið 1960 bauð Dole sig fram á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn í Kansas og náði kjöri. Dole var á þessum tíma áhugasamur um landbúnaðarmál og sífellt í leit að stuðningsmönnum fyrir stefnu sinni í þeim málum. Á tíma sínum á fulltrúadeildinni kynntist Dole Gerald Ford og átti þátt í því að fá Ford kjörinn leiðtoga þingflokks Repúblikana á þinginu.[2]

Dole var kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Kansas árið 1968. Árið 1971 skipaði Richard Nixon Bandaríkjaforseti Dole formann landsnefndar Repúblikanaflokksins. Eftir að Nixon náði endurkjöri árið 1972 skipti hann Dole hins vegar út fyrir George Bush, sem þótti hafa blíðari ásýnd.[4] Dole varði Nixon af hörku þegar Watergate-hneykslið var í hámæli en bað ekki álitshnekki fyrir málið þar sem sýnt var fram á að hann væri því með öllu ótengdur.[2]

Gerald Ford, sem varð forseti eftir afsögn Nixons árið 1975, valdi Dole sem varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum 1976. Gamall kunningskapur þeirra og svipaðar skoðanir réðu mestu um valið.[5] Ford og Dole töpuðu kosningunum fyrir frambjóðendum Demókrataflokksins, Jimmy Carter og Walter Mondale, og Dole hélt því áfram störfum á öldungadeild þingsins.

Dole sóttist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 1980 en tapaði fyrir Ronald Reagan.[6] Hann gaf aftur kost á sér í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar 1988 og náði í þetta sinn góðum árangri með því að vinna fyrstu forkosningarnar í Iowa.[7] Dole þótti um skeið líklegastur til að vinna útnefningu flokksins en hann glataði tækifærinu sínu í reynd eftir að sitjandi varaforsetinn George Bush vann stórsigur í forkosningum á „þrumuþriðjudeginum“ 8. mars.[8]

Dole varð leiðtogi þingmeirihlutans á öldungadeildinni í janúar árið 1995 eftir að Repúblikanar unnu stórsigur með „Repúblikanabyltingunni“ í þingkosningum árið áður. Dole varð þar með annar af leiðtogum stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórn Demókratans Bills Clinton ásamt Newt Gingrich, forseta fulltrúadeildar þingsins. Miðað við Gingrich þótti Dole hófsamur og viljugri til að miðla málum með Demókrötum. Meðal annars féllst hann á að staðfesta GATT-samningana með nokkrum breytingum, en róttækari raddir innan flokksins höfðu viljað hafna samningunum alfarið.[4] Á þessum tíma var flokkurinn farinn að færast æ lengra til hægri og stefna Dole, sem byggði öðru fremur á hófsemi, raunsæi og samningaviðleitni, gerði hann því nokkuð umdeildan innan flokksins.[9]

Forsetakosningarnar 1996

[breyta | breyta frumkóða]

Dole ákvað að sækjast á ný eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 1996. Að eigin sögn tók hann þá ákvörðun eftir að hann sótti fimmtíu ára minningarathöfn um innrásina í Normandí.[6] Í þetta sinn vann Dole útnefningu flokksins og atti því kappi við Clinton forseta í kosningunum. Clinton hafði forskot á Dole í skoðanakönnunum mestalla kosningabaráttuna og gerði sitt besta til að spyrða honum saman við Gingrich. Margir kjósendur Repúblikana töldu Dole hins vegar skorta hugmyndafræðilega sýn eða boðskap. Auk þess var mikið gert úr aldri Dole, en hann var þarna orðinn 72 ára og hefði á þessum tíma orðið elsti maður til að ná kjöri á forsetastól Bandaríkjanna hefði hann unnið.[10]

Dole tapaði forsetakosningunum að endingu fyrir Clinton með miklum mun. Ósigur Dole skýrðist meðal annars af góðu efnahagsástandi Bandaríkjanna á stjórnartíð Clintons, skorts Dole á sterkum boðskap og tilfinningu um að Dole væri fulltrúi liðinna tíma.[11]

Dole var tvíkvæntur. Hann kvæntist fyrri konu sinni, Phyllis Holden, árið 1948. Hún var sjúkraþjálfari sem hann hafði kynnst á meðan hann lá á sjúkrahúsi vegna meiðsla sinna í seinni heimsstyrjöldinni. Þau eignuðust eina dóttur en skildu árið 1972.[2]

Dole kynntist seinni eiginkonu sinni, Elizabeth Hanford, á miðjum áttunda áratugnum. Líkt og Dole er hún stjórnmálamaður í Repúblikanaflokknum. Hún var samgönguráðherra á stjórnartíð Ronalds Reagan og atvinnumálaráðherra á stjórnartíð George H. W. Bush.[3] Hún gaf kost á sér í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar 2000 og sat síðar á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Norður-Karólínu frá 2003 til 2009.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Aðalheiður Ámundadóttir (5. desember 2021). „Bob Dole er látinn“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. október 2022. Sótt 5. desember 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Ford valdi baráttumann sem varaforsetaefni sitt“. Tíminn. 28. ágúst 1976. bls. 7.
  3. 3,0 3,1 „Heiðruð stríðshetja og kænn samningamaður“. Dagblaðið Vísir. 30. mars 1996. bls. 49.
  4. 4,0 4,1 Karl Blöndal (4. desember 1994). „Þrautreyndur og markaður af harðri lífsbaráttu“. Morgunblaðið. bls. 29.
  5. Guðmundur Pétursson (28. ágúst 1976). „Bob og Jerry“. Vísir. bls. 8.
  6. 6,0 6,1 Kristján Jónsson (24. apríl 1996). „Þrautreynd stríðshetja gerir enn eina atlögu“. Morgunblaðið. bls. 29.
  7. Ólafur Arnarson (9. febrúar 1988). „Bush beið mikið afhroð“. Dagblaðið Vísir. bls. 9.
  8. Óli Björn Kárason (17. mars 1988). „Ár hinna glötuðu tækifæra“. Morgunblaðið. bls. 26.
  9. „Bob Dole dýrategund í útrýmingarhættu“. Alþýðublaðið. 6. september 1996. bls. 5.
  10. Ásgeir Sverrisson (9. maí 1996). „Örvænting í röðum repúblíkana“. Morgunblaðið. bls. 33.
  11. Ásgeir Sverrisson (10. nóvember 1996). „Krafa um óbreytt ástand“. Morgunblaðið. bls. 6.