Afleitt verk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dæmi um afleitt verk sem byggist á samsetningu annarra verka.

Afleitt verk er í hugverkarétti sjálfstætt hugverk sem byggir á einu eða fleiri öðrum verkum. Til afleiddra verka teljast þýðingar ritverka, útsetningar tónverka, útfærslur fyrir aðra miðla (t.d. kvikmynd byggð á bókmenntaverki), samantektir, safnverk o.s.frv.

Til að teljast sjálfstætt verk sem nýtur hugverkaverndar þarf að felast í verkinu umbreyting upprunalega verksins. Umbreyting sem er sjálfvirk eða vélræn (t.d. dulritun, fjölföldun, stafsetningarleiðrétting) telst ekki nægjanleg til að skapa nýtt afleitt verk og rétturinn er því áfram aðeins upprunalegs höfundar. Oft getur verið erfitt að skera úr um það hvar þessi mörk liggja, þ.e. hvenær verk telst nýtt sjálfstætt verk og hvenær einungis er um afritun upprunalega verksins að ræða.

Höfundur afleidda verksins eignast höfundarétt að því gefnu að hann raski ekki rétti rétthafa upprunalega verksins. Í því felst meðal annars að höfundur afleidda verksins verður að hafa fengið leyfi frá höfundi upprunalega verksins og verður að virða sæmdarrétt hans (til dæmis með því að geta hans sem höfundar upprunalega verksins) ef það verk er ekki í almenningi.

Í höfundaréttarlögum sumra landa er sérstaklega tekið fram að höfundar sem byggja verk sín á alþýðuverkum (þjóðlögum, þjóðkvæðum o.s.frv.) njóti óskoraðs höfundaréttar að sínum verkum, en í höfundalögum annarra landa er farið með slík verk eins og önnur afleidd verk.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]