Domaine public payant

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Domaine public payant (franska: „borgandi almenningur“) er kerfi þar sem útgefandi verks í almenningi semur við tiltekna stofnun um útgáfuna og greiðir tiltekinn hluta af tekjum af sölu verksins til hennar. Domaine public payant er þannig eins konar eilífur höfundaréttur þar sem rétturinn fellur til ríkisins eða samtaka rétthafa þegar hinn eiginlegi höfundaréttur fellur úr gildi.

Franski ritstjórinn Pierre-Jules Hetzel átti hugmyndina að þessu kerfi um miðja 19. öld og stakk upp á því sem málamiðlun milli þeirra sem vildu gera höfundaréttinn eilífan (að hugverkaeign væri eins og hver önnur eign) og þeirra sem vildu takmarka réttinn við persónu höfundarins (að hann félli úr gildi við andlát höfundar eða skömmu eftir það). Með þessu kerfi gengju höfundagreiðslur fyrir verk eldri höfunda í sjóð sem hægt væri að nota til að styðja við bakið á upprennandi höfundum. Velgengni látinna höfunda væri þannig nýtt til að styðja unga höfunda og tryggt um leið að verk sem komin væru úr höfundarétti veittu ekki verkum núlifandi höfunda ósanngjarna samkeppni. Vinur og samstarfsmaður Hetzels, Victor Hugo, færði rök fyrir þessari hugmynd á alþjóðlega rithöfundaþinginu Congrès littéraire international 1878. Slíkt kerfi var útfært í höfundalögum ýmissa landa á 19. öld og var í gildi um lengri eða skemmri tíma en undir ólíkum nöfnum. Á Ítalíu var slíkt ákvæði t.d. kallað diritto demaniale (ríkisréttur) og var við lýði frá síðari hluta 19. aldar til ársins 1996. Tilgangurinn var þó oftar en ekki að gefa ríksvaldinu tækifæri til að stjórna bókaútgáfu í nafni menningarverndar, fremur en styðja við bakið á upprennandi rithöfundum.

Þegar UNESCO hóf að skoða útfærslu 27. greinar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um menningarleg réttindi var domaine public payant-kerfið meðal þess sem stofnunin rannsakaði sem aðferð. Á þeim tíma var höfundaréttur útfærður á mjög ólíkan hátt milli landa og heimshluta. Eftir því sem Bernarsáttmálanum óx fiskur um hrygg á 20. öld dró úr þessari sérstöðu og ákvæði um domaine public payant duttu út í flestum Evrópuríkjum. Umræða um nauðsyn þess að skapa einhvers konar hugverkarétt fyrir þjóðmenningu og hefðbundna þekkingu frá því á 7. áratug 20. aldar hefur orðið til þess að ýmis þróunarlönd hafa sett slík ákvæði inn í sín höfundalög, ýmist fyrir öll verk í almenningi eða eingöngu alþýðileg verk sem teljast til menningararfs viðkomandi ríkis (þjóðlög, þjóðsögur o.s.frv.).