George Soros

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
George Soros
Soros árið 2010.
Fæddur12. ágúst 1930 (1930-08-12) (93 ára)
MenntunLondon School of Economics
StörfVerðbréfasali, spákaupmaður
TrúTrúleysi
MakiAnnaliese Witschak (g. 1960; skilin 1983)
Susan Weber (g. 1983; skilin 2005)
Tamiko Bolton (g. 2013)
VerðlaunPushkin Medal

George Soros (f. 12. ágúst 1930) er ungverskur verðbréfasali og spákaupmaður fæddur í Búdapest í Ungverjalandi. Hann hét þá György Schwartz en Tivadar faðir hans breytti fjölskyldunafninu í Soros árið 1936. Faðir hans var rithöfundur sem skrifaði bækur sínar að mestu á esperanto. Soros lærði esperanto strax í bernsku og er einn þeirra sem hefur það tungumál að móðurmáli.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Soros flúði frá Ungverjalandi árið 1946 með því að taka þátt í ungmennaþingi esperanto á Vesturlöndum. Hann flutti til Englands árið 1947 og útskrifaðist frá London School of Economics árið 1952. Til Bandaríkjanna flutti hann svo árið 1952.

Soros efnaðist á fjármálaviðskiptum svo sem spákaupmennsku varðandi gjaldmiðla. Fyrstu kynni Sorosar af gjaldeyrisviðskiptum voru á táningsárum en þá verslaði hann með gjaldmiðla í ofsaverðbólgu á árunum 1945-46. Soros er þekktastur fyrir skortsölu á breskum pundum árið 1992 og varð hann þekktur sem „Maðurinn sem felldi pundið“. Í september 1992 hóf Soros „árás“ á pundið og veðjaði hann tíu milljörðum dala á að pundið myndi falla í verði. Raunar er ofmælt að hann hafi fellt pundið, heldur sá hann fyrir að annaðhvort myndi pundið falla eða efnahagur Bretlands hrynja. Hann veðjaði á líklegri kostinn.

Samsæriskenningar um Soros[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem Soros er styrktaraðili ýmissa frjálslyndra og alþjóðasinnaðra stjórnmálahreyfinga hefur hann verið skotspónn fjölmargra mistrúverðugra samsæriskenninga af hálfu íhaldsmanna og öfgahægrimanna. Hægrisinnaðir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa meðal annars vænt Soros um að standa á bak við mótmælagöngu kvenna árið 2017 gegn Donald Trump og baráttu eftirlifandi nemenda úr skotárás á Stoneman Douglas-skóla fyrir hertri byssulöggjöf.[1] Íhaldsmenn á borð við Alex Jones og Roseanne Barr hafa jafnvel sakað Soros um að hafa unnið með nasistum í seinni heimsstyrjöldinni og framselt gyðinga í hendur þeirra til að geta stolið eigum þeirra. Soros er sjálfur gyðingur og var fimmtán ára undir lok styrjaldarinnar.[2]

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur oft beint spjótum sínum að Soros. Á yngri árum hafði Orbán sjálfur þegið styrk frá stofnun Sorosar til að ganga í háskóla í Englandi en á stjórnmálaferli sínum hefur hann útmálað Soros sem ógn við ungverskt þjóðfélag.[3] Í kosningabaráttu sinni árið 2017 setti Orbán upp auglýsingaskilti þar sem Soros var kallaður „óvinur fólksins“ og árið 2018 kynnti Orbán lagafrumvarp undir nafninu „Stöðvum Soros!“ sem gera ólöglegt að aðstoða ólöglega innflytjendur eða flóttamenn við að dvelja í landinu.[4]

Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra Íslands í kjölfar birtingar Panamaskjalanna árið 2016 sakaði hann Soros um að standa að baki samsæri til að koma sér og öðrum hugmyndafræðilegum andstæðingum sínum frá völdum.[5][6] Vert er að nefna að Soros var sjálfur tilgreindur sem eigandi aflandsfélaga í Panamaskjölunum.[7][8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Rynbaum, Michael M. (20. febrúar 2018). „Right-Wing Media Uses Parkland Shooting as Conspiracy Fodder“. The New York Times. Sótt 11. september 2018.
  2. „George Soros wasn't a Nazi, Roseanne Barr. He was a 14-year-old Jew who hid from them“. The Washington Post.
  3. Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 109. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 978-3-030-41772-7.
  4. „„Stöðvum Soros" fyrir ungverska þingið“. RÚV. 5. maí 2018. Sótt 11. september 2018.
  5. „Segir Panama-skjölin runnin undan rifjum Soros“. RÚV. 27. júlí 2016. Sótt 11. september 2018.
  6. „Sigmundur Davíð segir Panamaskjölin hafa verið sérstakt „hit-job". Kjarninn. 27. febrúar 2017. Sótt 11. september 2018.
  7. „Samsæriskenning Sigmundar Davíðs er meingölluð – Soros sjálfur í Panamaskjölunum“. Kvennablaðið. 29. júlí 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2017. Sótt 11. september 2018.
  8. „Kom Soros upp um sjálfan sig?“. Kjarninn. 26. júlí 2016. Sótt 11. september 2018.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.