Notandi:Jabbi/Hafskipsmálið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hafskipsmálið var umfangsmikið gjaldþrotamál Hafskip hf. á miðjum níunda áratugnum. Útvegsbanki Íslands, viðskiptabanki fyrirtækisins, tapaði háum fjárhæðum og var lagður niður í kjölfarið. Mikil og neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Hafskipsmálið var við ofsóknum.

Stjórnendur Hafskips og Útvegsbankans voru kærðir. Dómsmálið vatt mikið upp á sig og lauk í júní 1991, fimm árum eftir gjaldþrotið, með því að fjórir æðstu menn fyrirtækisins voru dæmdir sekir um brot á lögum. Margir vildu meina að stjórnmálamenn hefðu haft óeðlileg áhrif á framvindu mála. Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði af sér 24. mars 1987 vegna þáttar síns í málinu.

Hafskipsmálið[breyta | breyta frumkóða]

Umfjöllun Helgarpóstsins hófst 6. júní 1985 með fyrirsögninni Er Hafskip að sökkva?

Þann 6. júní 1985, daginn fyrir aðalfund Hafskips hóf Helgarpósturinn að fjalla um mál Hafskips með fyrirsögninni „Er Hafskip að sökkva?“. Í blaðinu var því haldið fram að tap Hafskips árið 1984 hefði numið 200 milljónum og að reikningskröfum frá viðskiptavinum víðsvegar að rigndi inn hjá fyrirtækinu. Heimildarmaður Helgarpóstsins var Gunnar Andersen, sem áður hafði ráðlagt kaupin á Cosmos fyrirtækinu í Bandaríkjunum. Hann vildi hefna sín á Björgólfi og stjórn Hafskips.[1] Það stóð ekki á viðbrögðum Hafskipsmanna. Tveimur dögum eftir aðalfundinn var birt frétt í Morgunblaðinu þar sem greint var frá aðalfundinum. Markverðast þótti 95,7 milljón króna tap á árinu 1984.[2] Aftar í blaðinu birtist tilkynning Hafskips þar sem fyrirtækið vísaði yfirlýsingum Helgarpóstsins á bug og hótaði lögsókn á hendur Halldóri Halldórssyni, ritstjóra Helgarpóstsins, og Jim Smart, ljósmyndara blaðsins, fyrir meiðyrði.[3] Tæpri viku seinna fjallaði Halldór Halldórsson um Hafskipsmálið og ýjaði að óeðlilegum hagsmunatengslum Alberts Guðmundssonar. Hann lét einnig í lofti liggja að tap Útvegsbankans yrði 160 milljónir sem skattgreiðendur kæmu til með að þurfa að greiða.[4] [5] Lárus Jónsson, sem var bankastjóri Útvegsbankans hefur skrifað að „[þ]ar með [hefði verið] sleginn sá tónn í þjóðfélaginu, sem síðar varð að sinfóníu í mörgum þáttum og með ýmsum tilbrigðum og stjórnarandstæðingar á Alþingi gerðu nánast að pólitískum ofsóknum. Málflutningur þeirra beindist að því að láta Albert og Sjálfstæðisflokkinn fá rauða spjaldið, en um leið var auðvitað grafið rækilega undan trausti Útvegsbankans og trausti Hafskips.“[6] Lárus Jónsson og Ólafur Helgason sendu yfirlýsingu til Morgunblaðsins 16. júní þar sem sagt var að skuldir Hafskips væru tryggðar með eignum fyrirtækisins og hluthafa.[7]

Hagsmunatengsl Alberts[breyta | breyta frumkóða]

Um þessar mundir var til afgreiðslu á Alþingi lagafrumvarp um viðskiptabanka. Minnihluti viðskiptanefndar lagði til þá breytingu á frumvarpinu að við bættist greinin „Ráðherra er ekki heimilt að skipa alþm. í bankaráð viðskiptabanka“.[8] Albert Guðmundsson, iðnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í rúm tvö ár - frá byrjun árs 1981 og fram í júní 1983 - formaður stjórnar Hafskips og formaður bankastjórnar Útvegsbankans, helsta viðskiptabanka Hafskips. Albert hafði áður verið gagnrýndur fyrir að veita fólki fyrirgreiðslur en það einkenndi hann sem stjórnmálamann.[9] Í viðtalsbók sem kom út 1982 sagði Albert: „... mín tengsl við Hafskip, sem bankaráðsformaður, eru nákvæmlega engin. Ég kem aldrei nálægt neinum málum þar sem eru einhver samskipti Hafskips og bankans. Já, ég gæti kannski haft einhver afskipti af þessum viðskiptum félagsins við bankann, en ég geri það ekki.“[10] Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, segir frá því í ævisögu sinni að á fyrsta ríkisstjórnarfundi sínum, vorið 1983, hafi hann beðið alla ráðherra að segja af sér öllum öðrum launuðum störfum en Albert hafi fyrst um sinn neitað en svo látið undan.[11] Albert og hagmunatengsl hans við Hafskip var rauður þráður í Hafskipsmálinu.

Viðræður - Eimskip og SÍS[breyta | breyta frumkóða]

Enn var hugur í Hafskipsmönnum og von um að það skyldi takast að rétta úr kútnum - að Atlantshafssiglingarnar myndu skila hagnaði. Tekjuáætlanirnar stóðust framan af en kostnaðurinn brast síðar. Uppgjör fyrstu fjögurra mánaða ársins 1985 lá fyrir í júlí og sýndi tap upp á 90 milljónir króna í stað þess hagnaðs sem vænst var. Þann 17. júlí var Útvegsbankanum greint frá þessum niðurstöðum. Haustið 1985 var fátt meira rætt en málefni Hafskips. Ásakanir komu fram um að stjórnarmenn Hafskips færu í dýrar utanlandsferðir þar sem engu væri til sparað. Helgarpósturinn birti á forsíðu sinni mynd af golfboltum með merki Hafskips undir fyrirsögninni HÉGÓMI.

Viðræður við Eimskip um sameiningu fyrirtækjanna hófust strax og tapreksturinn varð ljós en þær gengu treglega. Eimskipsmenn gerðu mjög ákveðnar kröfur um hversu mikið af viðskiptum við Hafskip þyrftu færast yfir til Eimskips við samrunann. Eimskipsmenn höfðu einvörðungu áhuga á Íslandsflutningum Hafskips sem metið var á 650 milljónir. Forsvarsmenn Eimskips höfnuðu því boði snarlega og viðræður héldu áfram í ágúst og september. Helgi hefur það eftir ónefndum heimildarmanni að forsvarsmenn Eimskips hafi viljað láta Útvegsbankann tapa fé og sömuleiðis hafi þeir viljað sjá til þess að Björgólfur og Ragnar kæmu illa út úr þessu. Því hefur verið haldið fram að Eimskipsmenn hafi dregið það eins og þeir mögulega gátu að ganga að samningsborði í því augnamiði að auka tap Hafskips og Útvegsbankans.[12][13] Laugardaginn 28. september birtist stór grein í Þjóðviljanum undir fyrirsögninni „Uppgjör hjá stórauðvaldinu“ þar sem því var haldið fram að sameining Eimskips og Hafskips væri í vændum. Um mánuði seinna, 31. október birti ritstjóri Þjóðviljans, Össur Skarphéðinsson, frétt undir fyrirsögninni „Einokun í aðsigi?“ en áður höfðu blaðamenn velt vöngum yfir þessum möguleika. Í viðtali við Morgunblaðið 2. nóvember kvað Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, það vera möguleika í stöðunni að Eimskip keypti Hafskip. Fram að þessu hafði tekist að halda viðræðunum leyndum en nú ágerðist ágengni fjölmiðla.[14]

Í lok október hófust umræður um mögulega sameiningu Hafskips og Skipadeildar SÍS, hins stóra samkeppnisaðila Hafskips. Páll G. Jónsson, stjórnarmaður í Hafskipi hafði frumkvæði að því að tala við Val Arnþórsson stjórnarformann SÍS. Á skömmum tíma höfðu þeir ásamt nokkrum öðrum unnið kostnaðaráætlun sem sýndi fram á mikla hagkvæmni með sameiningu fyrirtækjanna. Það sem meira var þá yrði komið í veg fyrir nær algera markaðseinokun Eimskips eða 80% markaðshlutdeild. Helgi Magnússon segist hafa farið „með þeim á einn fund sem haldinn var 7. nóvember og þótti mér eftirtektarvert hversu gott andrúmsloftið var. Það var ekkert hik á þessum mönnum. Þeir voru staðráðnir í að koma málinu í höfn og þeir voru sannfærðir um öruggan rekstrargrundvöll og bjarta framtíð hins væntanlega skipafélags. Þarna var unnið af heilindum og enginn skollaleikur í gangi.“[15]

Atlaga frá Alþingi[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. nóvember hóf Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, utandagskrárumræður á Alþingi um málefni Útvegsbankans og Hafskips eftir að hafa fengið í hendur skýrslu frá Arnbirni Kristinssyni, fulltrúa Alþýðuflokksins í bankaráði Útvegsbankans. Jón Baldvin vitnaði í viðtöl blaðanna við bankastjóra Útvegsbankans. Einn þeirra, Halldór Guðbjarnason sagði í viðtali við Alþýðublaðið: „Mér þykir það mjög miður að Útvegsbankinn skuli dragast inn í pólitísk átakamál sem hafa verið búin til vegna viðskipta Hafskips hf. við bankann. Við viljum ekki vera ein skúringatuska stjórnmálamanna”. Þessi yfirlýsing vakti furðu manna. Fyrir lá að tap Útvegsbankans yrði mikið og aðeins spurning hversu mikið en að málið væri átakamál pólitískra mótherja hafði ekki áður heyrst. Jón Baldvin spurði hvort bankaeftirlit Seðlabankans hefði sinnt skyldu sinni. Hann sagði almenning eiga á heimtingu að fá að vita sannleikann um stöðu mála í viðskiptum Útvegsbankans og Hafksips. Jafnframt því lagði hann fram fyrirspurn um stöðu bankans og vildi sérstaka sundurliðun fyrir það tímabil sem Albert Guðmundsson hefði verið samtímis í stjórn fyrirtækisins og formaður bankaráðs.

Annar ræðumaður, Matthías Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og samgönguráðherra, tók strax fram að viðræður Útvegsbankans og Eimskips stæðu yfir einmitt á þessum tímapunkti. Því hefði hann beðið Jón um að fresta umræðunum áður en hann tók til máls, ellegar biðja um skriflega skýrslu. Því samningsmenn óttuðust neikvæða umfjöllun en Jón hefði neitað því. Matthías undirstrikaði að Hafskip hefði um margra ára skeið átt í erfiðum rekstri en veitti litlar aðrar upplýsingar.

Þriðji ræðumaður, Kristín S. Kvaran, þingkona Bandalags jafnaðarmanna, tók undir með Jóni, þá þörf að þetta mál þyrfti að ræða fyrir opnum tjöldum. Hún vitnaði í fjölda greina úr mismunandi blöðum og gagnrýndi þær útskýringar á taprekstri Hafskips að um ytri aðstæður hefði verið að ræða því í útlöndum hefðu skipafélög gott eftirlit með verði á skipum og óskiljanlegt væri að íslensk skipafélög hundsuðu sjálf slíka hagsmunagæslu.

Fjórði ræðumaður, Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, mælti með afnámi bankaleyndar og undirstrikaði „að það [væri] ekkert nýtt að gælufyrirtæki [Sjálfstæðisflokksins] hafi u.þ.b. verið að koma Útvegsbankanum aftur og aftur á kné. Shell, Hafskip, Ólíumöl, oll þessi fyrirtæki tengjast sterkum forustumönnum í [Sjálfstæðisflokknum], hæstvirtur utanríkisráðherra, hæstvirtur iðnaðarráðherra og hæstvirtur formaður þingfloks Sjálfstæðisflokksins.” Hann velti sömuleiðis fram þeim möguleika að Hafskip hafi látið Útvegsbankanum í té fölsuð gögn um stöðu fyrirtækisins. Hann kvað „[þ]jóðinni [vera] gert að borga okrið í bönkunum, okrið á okurlánastöðvunum. En þegar kemur að því að hreinsa upp draslið eftir íhaldsöflin í gælufyrirtækjunum þeirra á þjóðin að borga það líka. Þetta er siðlaust”.

Fimmti ræðumaður, Jóhanna Sigurðardóttir, þingkona Alþýðuflokksins, benti á að fyrr á árinu hefði komið fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn hennar að bókfært eigið fé Útvegsbankann næmi rúmlega 359 milljónum króna. Í framhaldi af því leiddi hún líkum að því að Útvegsbankinn hefði lánað um 700 milljónum til Hafskips. Hún sagði að væru ásakanir sem fram hefðu komið réttar þyrftu viðkomandi að sæta ábyrgð.

Sjötti ræðumaður, Valdimar Indriðason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður bankaráðs Útvegsbankans, sagði hann m.a. „Tvennt hefur einkum komið til sem gerbreytt hefur eiginfjárstöðu fyrirtækisins til hins verra síðustu misseri, en hún var sem áður segir slæm fyrir. Annars vegar var stórfelldur taprekstur á fyrirtækinu á árinu 1984 sem að hluta til stafaði af óviðráðanlegum ástæðum. Jafnframt hefur mikill hallarekstur haldið áfram á yfirstandandi ári þvert ofan í áætlanir stjórnenda um bata. Hins vegar hafa skip fallið í verði vegna markaðsaðstæðna”. Hann sagði áætlað að flutningaskip hefðu almennt lækkað í verði um 15-20% á síðustu þremur árum og jafnvel meira. Valdimar undirstrikaði sömuleiðis að þetta væri viðskiptamál og að ógætileg umfjölun gæti torveldað farsæla lausn á málinu.

Áttundi ræðumaður, Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls vegna tengsla sinna við Hafskip en hann hafði verið fundarstjóri á ársfundinum Á krossgötum. Hann tók það fljótlega fram að hann væri hluthafi í Hafskipi og hefði verið í nokkur ár. Þáttaka hans á aðalfundinum væri ekki óeðlileg þar sem fyrirtækið barðist í bökkum og þörf hefði verið á hlutaféi.

Níundi ræðumaður, Albert Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, hóf þá raust sína og varði pólitískt kjör manna í bankaráð sem hefðu reynslu af viðskiptalífinu. „Það þarf að kjósa menn í þannig stöður sem ekki hafa nein tengsl við atvinnulífið til að koma í veg fyrir að hugsanlega eigi þeir vini sem væri hægt að nota sem tortryggileg tengsl á milli bankaráðsmanna og [þingmanna] eða trúnaðarmanna Alþingis. Helst þyrftum við kannske að vera vinalausir og munaðarlausir líka til að hafa alla þá hæfileika og uppfylla þær kröfur sem [hæstvirtur] formaður Alþýðubandalagsins gaf í skyn að þeir menn þyrftu að standast sem koma nálægt peningamálum hins opinbera.” Albert sakaði Jón Baldvin um að nýta sér þetta mál í pólitískum tilgangi, sjálfum sér til framdráttar. Að lokum sagðist Albert vera tilbúinn til þess að afsala sér þinghelgi ef þess yrði krafist og vera þeirrar skoðun að málið yrði rannsakað rækilega.

Tíundi ræðumaður, Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Útvegsbanka Íslands vera bakhjarl fjöldamargra fyrirtækja á landsvísu. Í rekstri fyrirtækja fælist ávallt áhætta sem taka þyrfti og engar tryggingar væru fyrir því að hagnaður gæfist. Hann taldi umfjöllun fjölmiðla vanhugsuða og illa tímasetta, almennt vantaði staðreyndir meðfylgjandi gífuryrðunum. „Í stuttu máli hefur [hæstvirtur þingmaður] Jón Baldvin Hannibalsson því miður flogið nokkuð hátt í sínum málflutningi, eins og reyndar í fleiri málum sem hann tekur oft á, þar sem tærnar snýta skýjum.”

Fyrsti ræðumaður, Jón Baldvin, tók þá aftur til máls. Honum fannst fátt nýtt hafa komið fram. Hann sagði Árna vera „einn af glókollum [Sjálfstæðisflokksins] og væntanlega ábyrgur málssvari frjálshyggjutrúboðsins” og málfslutning Alberts „píslarvottsræðu”. Samantekt hans á orðræðu hans var heldur hæðin: „Auðvitað eru viðskipti áhætta. Ég sem hinn reyndi maður í viðskiptalífinu veit það, ég tek stóra áhættu í lífinu. Það er nú líkast til. … Ef það eru staðreyndirnar í málinu, sem ekki hefur fengist upplýst, að þessi ríkisábyrgði banki með sparifé landsmanna er búinn að lána hundruð milljóna króna – segjum á bilinu 7-800 miljónir – og ef það er staðreynd málsins að þessi pólitískt ríkisrekni banki með ríkisábyrgðinni hafi lánað þetta þessu eina fyrirtæki sem aldrei átti nothæf veð – löngu fyrir rýrnun – fyrir þessari lánsupphæð – síðan kemur til frekari rýrnun – og gerum nú ráð fyrir því að staðreyndirnar um eigið fé þessa ríkisrekna banka séu raunsætt metnar afar lágar, þá er niðurstaða málsins einfaldlega þessi: [Hæstvirtur ráðherra] viðurkenndi, þegar spurt var um tap sem lendir á þjóðinni en ekki á „bissnessmönnunum”, vinum litla mannsins, að þá yrði það tap mikið fyrir ríkið, ríkissjóð, skattgreiðendur, hina íslensku endurtryggingu þessa auma pilsfaldakapítalisma sem enga áhættu tekur, ef ekki er hægt að semja um að koma því yfir á aðra.” Hann tilgreindi mál sem komið hafði upp árið 1975 varðandi viðskipti Alþýðubankans við tvö fyrirtæki. Þá hafi Seðlabankinn vikið bankastjórn og bankaráði bankans vegna þess að lán voru veitt umfram trygginga fyrir þeim. Ástæða þess að ekki hafi verið tekið með sama hætti á þessu máli sagði hann vera pólitíska. „Nú svarar vinur litla mannsins í píslarvættisræðunni. Ég hafði engin afskipti af málefnum Hafskips meðan ég var formaður bankaráðs Útvegsbankans. Hver á nú að trúa slíkri jólasveinasögu? Á ég að trúa því að formaður bankaráðs Útvegsbankans hafi gert sig sekan um þau afglöp að hafa engin afskipti af viðskiptamálum stærsta viðskiptafyrirtækis bankans? Ég trúi því ekki. Því miður. Sorry Stína.” Þá lagði hann til að skipuð yrði þingnefnd til þess að rannsaka málið.

Tillagan felld[breyta | breyta frumkóða]

Daginn eftir utandagskrárumræðurnar á Alþingi birtist frétt í DV með forsíðufyrirsögninni „Hafskip og skipadeild SÍS sameinuð?” þar sem Ragnar Kjartansson og Axel Gíslason hjá SÍS sátu fyrir svörum. Þeir sögðu þetta mögulega betri kost en sölu til Eimskips. Helgi Magnússon telur að „þetta [hafi einnig verið] pólitísk sprengja og henni fylgdi mikill pólitískur titringur. Óhætt er að fullyrða að sterk öfl í Sjálfstæðisflokknum hafi séð rautt. ... Fyrirtækið gat hæglega orðið jafnstórt og Eimskip, veitt því harða samkeppni og dregið úr valdi þess. Þetta mátti ekki gerast! Eimskip átti að fá Hafskip. Annað hvort með góðu eða illu - og þá fyrir smánarverð. Ef Hafskipsmenn gátu ekki bjargað sér í faðm Eimskips - þá máttu þeir fara veg allrar veraldar. En umfram allt: Þeir máttu ekki bjarga sér með samstarfi við SÍS-veldið. ... Hér verður ekkert fullyrt um þær leiðir sem reyndar voru á bak við tjöldin. Um það verður ekkert sannað. En togað var í marga strengi og mikill undirgangur var í málum næstu vikurnar.“[16] En þá urðu kröftugar og neikvæðar umræður, á Alþingi og í fjölmiðlum, enn og aftur til þess að setja strik í reikninginn.

Sunnudaginn 17. nóvember var Íslenska skipafélagið h.f. stofnað til þess að kaupa fjármuni og viðskiptavild Hafskips og taka yfir Íslandsreksturinn. Næsta dag var samningum upp á $15 milljónir undirritaður og farið fram á greiðslustöðvun Hafskips við Útvegsbankann. Komið hefur í ljós að degi seinna hafi Eimskipafélagið sent öllum helstu viðskiptavinum Hafskips símskeyti með fyrirsögninni „Hafskip hættir rekstri”. Í símskeytinu var undanfari gjaldþrotsins stuttlega rakinn og sérstaklega tekið fram að möguleiki væri á að Eimskip tæki við rekstrinum. Þó væri ekki útséð um hver framvindan yrði. Á stjórnarfundi hjá SÍS laugardaginn 23. nóvember féllu atkvæði þannig að einu munaði á að tillaga um samstarf við Íslenska skipafélagið hf. yrði samþykkt.[17]

Gjaldþrot[breyta | breyta frumkóða]

Föstudaginn 6. desember 1985 var Hafskip lýst gjaldþrota, starfsfólki rúmlega 350 talsins, var sagt upp og allar eignir seldar helsta keppinautnum, Eimskipafélagi Íslands. Samningur þess efnis sem hljóðaði upp á 318 milljónir króna var undirritaður 6. janúar 1986 milli þrotabúsins í umsjón borgarfógeta og Eimskipafélagsins.[18] Matthías Bjarnason sagði í viðtali við Morgunblaðið að stjórnendur Hafskips hefðu átt að lýsa fyrirtækið gjaldþrota fyrir mörgum mánuðum.[19] Næsta dag gaf Seðlabankinn út yfirlýsingu þar sem hann sagðist skyldu tryggja skuldbindingar Útvegsbankans um sinn. Jafnframt sagði að tap Útvegsbankans næmi a.m.k. 350 milljónum. Sagði Morgunblaðið hafa heimildir fyrir því að 400 milljónir væri nær lagi.[20] Á fundi þingsflokks Framsóknarflokksins um morguninn 9. desember var ákveðið að styðja við að full rannsókn færi fram.[21] Á Alþingi sama dag fóru Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur J. Sigfússon, fyrir hönd stjórnarandstöðu, fram á að viðskiptaráðherra gæfi skýrslur um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips. Þeim var lokið og gert grein fyrir á Alþingi vorið eftir.[22] [23] Þá voru þrjár þingsályktunartillögur lagðar fram, tvær í neðri deild og ein í efri deild, um rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskiptin. Þar var lagt til að skipuð yrði rannsóknarnefnd samansett af alþingismönnum til að rannsaka viðskiptin.[24][25][26]

Viðbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Þriðjudaginn 10. desember birtist bréf Alberts Guðmundssonar til ríkissaksóknara í Morgunblaðinu. Í bréfinu vísaði hann í umfjöllun um Hafskip undanfarið og þær ásakanir á hendur honum sem fram komu þar og fór fram á hraða, opinbera rannsókn á þætti sínum.[27]

Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var varaþingmaður Alþýðubandalagins tók til máls á Alþingi á öðrum utandagskrárumræðum 10. desember. Í ræðu sinni sakaði Ólafur forsvarsmenn Hafskips um að nýta fé Hafskips í önnur verkefni; „hliðarfyrirtækja, skúffufyrirtækja og platfyrirtækja”. Á þjóðina þyrfti því að leggja sérstakan Hafskipsskatt til þess að greiða aftur tapið. Hann nefndi þetta mál „stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins“ og varðandi tengsl Sjálfstæðisflokksins fór hann fram á að „[þ]essi stærsti flokkur þjóðarinnar [yrði] þess vegna að vera reiðubúinn til samvinnu við þingheim allan og þjóðina til að leiða í ljós skýrt og skorinort að ekkert óeðlilegt, ekkert sem talist getur óeðlileg fyrirgreiðsla, óeðlileg hjálp, hafi átt sér stað hjá þeim forustumönnum [Sjálfstæðisflokksins] sem skipuðu stjórnendastöður innan Hafskips.“[28] Ummæli sem þessi eru til merkis um hversu miklar áhyggjur voru af umfangi málsins og hversu mikið óöryggi það leiddi af sér. Sumir töldu að gjaldþrot Hafskips og þar með Útvegsbankans myndi þýða keðjuverkun gjaldþrota hjá mörgum stærri fyrirtækjum. (Sjá ræðu Ólafs [28])

Ólafur hafði einnig á orði grunsemdir sínar um óeðlileg viðskipti milli Hafskips og Reykvískrar endurtryggingar. Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson áttu hvor fyrir sig 18% hlutdeild í tryggingarfyrirtækingu Reykvísk endurtrygging. Ólafur furðaði sig á því að þrátt fyrir að Hafskip væri mjög skuldsett skuldaði það Reykvískri endurtryggingu, sem Hafskip stundaði viðskipti við, ekki neitt. Sömuleiðis sá hann sérstaka ástæðu til þess að benda á að fyrirtæki í eigu Björgólfs og Ragnars hefði nýlega keypt húsið við Sóleyjargötu 1, þar sem í dag er skrifstofa forseta Íslands. Ólafur vandaði þeim félögunum ekki kveðjurnar og sagði þá hafa „séð til þess af óskammfeilni sinni að það sé flóðlýst á hverju kvöldi svo dýrðin fari nú ekki fram hjá neinum og allir geti skoðað sérstaklega, kjósendur [Framsóknarflokksins] og flokksmenn [Sjálfstæðisflokksins] allt í kringum landið, hvert peningarnir úr Útvegsbankanum fóru“.[28]

Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, fór mikinn í ræðu sinni og gat tæpast dulið reiði sína. Hann hæddi Kristínu S. Kvaran með því að segja „[hæstvirtur þingmaður] endaði ræðu sína með því að segja: „Verið allir eins og ég og ekki öðruvísi, ekki eins og allir hinir og alls ekki eins og þessi kjáni sem hjálpaði fátæku konunni í kaffivagni. Verið eins og ég, takið ekki á ykkur neina ábyrgð. Í guðanna bænum vinnið ekkert sjálfstætt, það getur verið stórhættulegt. Komið heldur og vinnið hjá því opinbera, t.d. hjá Háskóla Íslands eins og ég, þar sem við getum farið fram úr áætlunum í peningamálum. Ríkið borgar, það verður að koma aukafjárveiting hvernig sem við högum okkur, við þurfum ekki að vera ábyrgir fyrir neinu.” … Ég get rakið í dag og aftur í tímann athafnamenn sem einmitt hafa verið beðnir um að fara og reka ríkisfyrirtæki og þá sérstaklega peningastofnanir því að engum er betur treystandi til að gera það en mönnum sem hafa þá reynslu sem til þarf úr viðskiptalífinu. Enda kæmi mér ekki á óvart þó að þessir ágætu menn, sem hér hafa talað og aldrei viljað taka neinu áhættu sjálfir í rekstri þrátt fyrir allan þann mikla tíma sem þeir hafa lagt í að bjarga sér sjálfir, gætu það ekki. Ég held þeir kæmust ekkert áfram á hinum almenna vinnumarkaði. Ég held að það sé alveg augljóst að það er rétt, sem komið hefur fram, að þegar men eru komnir í þetta langa háskólanám búa þeir sig yfirleitt undir opinber störf.” Albert staðhæfði að hann hefði enginn afskipti haft af útlánum til Hafskips og það sem meira væru bein afskipti bankaráðs bönnuð með lögum Þetta gætu bankastjórar Útvegsbankans staðfest. Hann sagðist ekki geta frætt áheyrendur um það hversu mikil skuld Útvegsbankans væri orðin, hugsanlega einn milljarður.

Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri, skrifaði grein í Morgunblaðið um afskipti bankaeftirlits og Seðlabanka af Hafskipsmálinu. Hafskipsmálið var það mál sem var efst á baugi í almennri umræðu og því var það óbein krafa almennings að fá upplýsingar. Jóhannes sagði að „undanfarna mánuði á meðan unnið hefur verið að lausn þessa máls, hefur bæði ráðuneytið og Seðlabankinn fylgzt náið með framvindu þess, en forræði þess og framkvæmd hlaut að vera í höndum bankastjórnar og bankaráðs Útvegsbankans.”[29] Þessa atburðarrás - erfiðum samningarviðræðum við Eimskipafélagið og tilraun til þess að selja SÍS - hafði Matthías Bjarnason rekið á utandagskrárumræðunum á Alþingi, fjórum dögum áður.[30]

Rannsókn[breyta | breyta frumkóða]

Á aðfangadegi 1985 voru samþykkt lög um sérstaka nefnd til að rannsaka viðskipti Útvegsbankans og Hafskips.[31] Samkvæmt lögunum skipaði Hæstiréttur þrjá menn í hana. Enginn var tilnefndur af Alþingi eins og stjórnarandstaðan hafði farið fram á. Þann 20. janúar 1986 var Jón Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður, fyrrv. alþingismaður skipaður formaður en aðrir nefndarmenn voru Brynjólfur I. Sigurðsson, dósent við viðskiptadeild Háskóla Íslands og Sigurður Tómasson, löggiltur endurskoðandi. Nefndin skilaði af sér skýrslunni í lok árs.

Samkvæmt venjulegum starfsháttum höfðu borgarfógetarnir Ragnar H. Hall og Markús Sigurbjörnsson gjaldþrotið til meðferðar eins og lög um skiptarétt mæltu fyrir um. Þann 6. maí 1986 lá fyrir að sjö starfsmenn Hafskips „[kynnu] að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi“. Þá hafði Valdimar Guðnason endurskoðandi skilað skýrslu til skiptaráðenda. Í henni kom fram að hann teldi að staðið hefði verið að tvöfaldri skýrslugerð. Að eitt bókhald hefði verið notað innan fyrirtækisins sem væri rétt en öðru fölsuðu dreift til hluthafa og almennings. Valdimar taldi ofmat á verðmæti skipa í eigu Hafskips í árskýrslu 1984 nema 130 milljónum króna og alls hefði bókfært eigið fé átt að vera 244 milljónum krónum lægra.[32]

Handtökur[breyta | breyta frumkóða]

Að kvöldi hvítasunnu, 19. maí veitti Sakadómur Reykjavíkur Rannsóknarlögreglu ríkisins heimild til þess að handtaka og leita í húsum sjö einstaklinga. Að morgni þriðjudagsins 20. maí voru sex þeirra handteknir. Hinir handteknu voru þeir Björgólfur Guðmundsson framkvæmdastjóri, Ragnar Kjartansson stjórnarformaður, Páll Bragi Kristjónsson viðskiptafræðingur[33], Helgi Magnússon viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi Hafskips, Sigurþór Charles Guðmundsson viðskiptafræðingur, aðalbókari Hafskips, og Þórður H. Hilmarsson rekstrarhagfræðingur, forstöðumaður hagdeildar Hafskips. Árni Árnason fjármálastjóri var staddur erlendis, hann var handtekinn við komuna aftur til landsins 23 og látinn laus degi seinna eftir skýrslutöku. Sigurþór var látinn laus 27. maí. Hinir voru látnir sæta gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu næstu vikurnar. Þegar sexmenningarnir voru leiddir fyrir Sakadóm og úrskurður kveðinn yfir þeim biðu fjölmiðlarnir fyrir utan. Sýnt var frá þessum atburði í kvöldfréttunum. Nokkuð var í umræðunni fljótlega eftir, svo og seinna meir, um að fjölmiðlar hefðu verið grimmir og aðgangsharðir. Sr. Þórir Stephensen, dómkirkjuprestur, skrifaði nokkur orð um þá kristnu dyggð að dæma ekki, vilji maður sjálfur ekki vera dæmdur.[34]

Mannréttindabrot[breyta | breyta frumkóða]

Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1986 voru haldnar laugardaginn 31. maí og sunnudaginn 1. júní. Beiðni lögmanns Helga Magnússonar um að umbjóðandi hans fengi að kjósa var hafnað af lögreglustjóra og staðfest af sakadómi Reykjavíkur. Þessum úrskurði var áfrýjað til Hæstaréttar sem hnekkti dómnum.[35] Aldrei hafði áður reynt á sambærilegt mál í íslenskri dómsögu. Rökstuðningur Sakadóms var að tilgangur gæsluvarðhalds væri einangrun fangans. Mótrök lögmanns Helga var að atkvæðaréttur lögráða ríkisborgara væri tryggður í stjórnarskrá Íslands.[36]

Þann 17. júní kom í ljós að Guðmundur J. Guðmundsson, þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, hefði þegið greiðslur frá Eimskipafélaginu og Hafskip, samanlagt 120 þúsund krónur að upphæð. Ástæðan fyrir peningagreiðslunum var sú að Guðmundur glímdi við heilsuvandamál og vinir hans, þ.á m. Albert Guðmundsson ákváðu að styrkja hann til heilsubótarferðar til útlanda. Eftir umfjöllun fjölmiðla ákvað Guðmundur að segja af sér þingmennsku.

Sérfræðinganefnd Alþingis undir forsæti Jóns Þorsteinssonar skilaði skýrslu sinni 12. nóvember 1986.[37] Í henni voru bankastjórar Útvegsbankans gagnrýndir harðlega fyrir lánveitingar til Hafskips, þeir voru sagðir „bera meginábyrgð á þeim áföllum, sem bankinn varð fyrir við gjaldþrot Hafskips, enda þótt bankastjórarnir eigi sér líka nokkrar málsbætur”. Samkvæmt rannsókn hennar hafði Albert Guðmundsson ekki beitt sér fyrir aukinni fyrirgreiðslu á þeim tíma sem hann var bæði stjórnarformaður Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans.

Dómsmál[breyta | breyta frumkóða]

Í mars 1987 upplýsti skattrannsóknarstjóri að Albert Guðmundsson hefði þegið tvær greiðslur frá Hafskipi á árunum 1984-85, að upphæð 117 og 130 þúsund krónur, án þess að telja þær fram til skatts. Albert sagði þessar greiðslur vera afslætti vegna viðskipta við heildsöluverslun sem sonur hans, Ingi Björn, ræki. Hann sagði svo af sér sem iðnaðarráðherra 23. mars., hann hafði þó engu að síður dyggan stuðning innan Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fljótlega eftir það í viðtali að Albert yrði ekki ráðherra Sjálfstæðisflokksins aftur. Albert brást við þessu með því að draga til baka nafn sitt af framboðslista Sjálfstæðisflokksins og stofna Borgaraflokkinn sem hlaut 10,9% atkvæða kosningarnar 1987.

Ákærur og dómar[breyta | breyta frumkóða]

Í apríl 1987 gaf Hallvarður Einvarðsson, ríkissaksóknari, út ákærur á hendur 11 mönnum. Það voru forstjóri Hafskips, stjórnarformaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs ásamt endurskoðanda félagsins og auk þess voru ákærðir allir þrír bankastjórar Útvegsbankans, þrír fyrrverandi bankastjórar hans og einn aðstoðarbankastjóri. Málið var dæmt ómerkt í Hæstarétti í júlí 1987 og Hallvarður dæmdur vanhæfur sem ríkissaksóknari vegna skyldleika við bankaráðsmann í Útvegsbankanum.

Þetta urðu þó ekki endalok Hafskipsmálsins. Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti, var skipaður sérstakur ríkissaksóknari og í nóvember 1988 gaf hann út ákærur gegn sex fyrrverandi starfsmönnum Hafskips og endurskoðenda, þremur bankastjórum Útvegsbankans, einum aðstoðarbankastjóra, bankaráðsmönnum og endurskoðanda bankans. Í júlí 1990 sýknaði sakadómur Reykjavíkur 14 af 17 ákærðu; Björgólfur fékk fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, Páll Bragi tvo mánuði skilorðsbundið og Helgi 100 þúsund kr. sekt. Jónatan sagði af sér að þessu loknu en ákæruvaldið áfrýjaði dómunum þrem auk sýknudómsins yfir Ragnari Kjartanssyni til Hæstaréttar. Þann 5. júní 1991 þyngdi Hæstiréttur dóm Björgólfs í 12 mánuði. Ragnar fékk fimm mánaða skilorðsbundinn dóm og dómi Páls Braga var breytt í skilorðisbundinn fangelsisdóm í tvo mánuði. Loks var sekt Helga hækkuð í 500 þúsund krónur.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhald, bls: 183
 2. „Tap Hafskips hf. á liðnu ári nam 95,7 milljónum króna“ (png). Morgunblaðið. 8. júní 1985. Sótt 3. ágúst 2007.
 3. „Félagið mun stefna ritstjóra og ljósmyndara HP“ (png). Morgunblaðið. 8. júní 1985. Sótt 3. ágúst 2007.
 4. Halldór Halldórsson (12. júní 1985). „Þokulúðrar Hafskips, bls 20“ (png). Morgunblaðið. Sótt 3. ágúst 2007.
 5. Halldór Halldórsson (12. júní 1985). „Þokulúðrar Hafskips, bls 21“ (png). Morgunblaðið. Sótt 3. ágúst 2007.
 6. Lárus Jónsson. Útvegsbankaþáttur Hafskipsmálsins, bls: 46
 7. „Ummælum ritstjóra Helgarpóstsins mótmælt“ (png). Morgunblaðið. 16. júní 1985. Sótt 3. ágúst 2007.
 8. GE: Frsm 2. minni hl.
 9. Gunnar Gunnarsson. Albert, bls: 190
 10. Sama heimild, bls: 199
 11. Dagur B. Eggertsson. Forsætisráðherrann: Steingrímur Hermannsson. Bindi III, bls: 36
 12. Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhald, bls: 242-246
 13. Örnólfur Árnason. Á slóð kolkrabbans, bls: 238
 14. Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhald, bls: 232-236
 15. Sama heimild, bls: 253
 16. Sama heimild, bls: 255-57
 17. Sama heimild, bls: 250-264
 18. „Eimskip kaupir eignir þrotabúsins á 318 milljónir“ (png). Morgunblaðið. 6. janúar 1986. Sótt 6. september 2007.
 19. „Hefði átt að fara fram á gjaldþrotaskipti fyrir löngu“ (png). Morgunblaðið. 6. desember 1985. Sótt 24. ágúst 2007.
 20. „Tap Útvegsbankans ekki minna en ⅔ af eigin fé“ (png). Morgunblaðið. 7. desember 1985. Sótt 24. ágúst 2007.
 21. Dagur B. Eggertsson. Forsætisráðherrann: Steingrímur Hermannsson. Bindi III, bls: 122
 22. „171. staða Útvegsbanka Íslands til viðskrh“. 9. desember 1985. Sótt 31. ágúst 2007.
 23. „172. afskipti bankaeftirlitsins af málefnum Útvegsbankans til viðskrh“. 9. desember 1985. Sótt 31. ágúst 2007.
 24. „173. rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf“. 9. desember 1985. Sótt 31. ágúst 2007.
 25. „177. rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf“. 9. desember 1985. Sótt 31. ágúst 2007.
 26. „179. rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskipti Hafskips“. 9. desember 1985. Sótt 31. ágúst 2007.
 27. „Get með engu móti setið undir þessum ásökunum“ (png). Morgunblaðið. 10. desember 1985. Sótt 30. ágúst 2007.
 28. 28,0 28,1 28,2 „Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar í utandagsrkárumræðu á Alþingi, 10. desember 1985“. Sótt 28. febrúar 2007.
 29. „Afskipti bankaeftirlits og Seðlabanka af Hafskipsmálinu“ (png). Morgunblaðið. 14. desember 1985. Sótt 7. september 2007.
 30. Lárus Jónsson. Útvegsbankaþáttur Hafskipsmálsins, bls: 50-56
 31. Lög um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. - 1985 nr. 119 24. desember
 32. Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhald, bls: 92-110
 33. Páll Bragi Kristjónsson var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hafskips til ársloka 1984 tók þá við starfi forstjóra Skrifstofuvéla hf.
 34. „Að gefnu tilefni“ (png). Morgunblaðið. 23. maí 1986. Sótt 7. september 2007.
 35. „Fjórmenningarnir fá ekki að kjósa“ (png). Morgunblaðið. 30. maí 1986. Sótt 7. september 2007.
 36. Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhald, bls: 48-52
 37. Viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. 144. mál skýrsla 109. löggjafarþingi. (pdf)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]