Fara í innihald

Aðfangadagur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Julaftonen (Aðfangadagur), vatnslitamynd eftir sænska listamanninn Carl Larsson frá 1904

Aðfangadagur eða Aðfangadagur jóla (sem á sér gömul samheiti eins og affangadagur eða tilfangadagur) er hátíðardagur í kristinni trú. Orðið aðfangadagur mun að líkindum vera þýðing á gríska orðinu parasceve (undirbúningur) sem notað var um daginn fyrir páskahelgina, það er föstudaginn langa. En er núorðið nær eingöngu haft um 24. desember, dagurinn fyrir jóladag og því nefndur svo. Aðfangadagur páska og aðfangadagur hvítasunnu voru einnig áður fyrr nöfn á laugardögunum fyrir þessa helgidaga.

Samkvæmt hátíðadagatali Íslensku þjóðkirkjunnar er aðfangadagur jóla ekki sérstakur hátíðisdagur. Hann markar lok aðventu eða jólaföstu og kl. 18.00 hefst jóladagur. Ástæðan fyrir þessu er, að í stað þess að miða upphaf dags við sólarlag, eins og Gyðingar, fastsettu kristnir menn upphaf daga við miðaftann og lifir það enn í hátíðadagatalinu. Íslendingar fylgja þessu enn hvað jólin snertir.

Aðfangadagur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar fagna aðfangadegi með sínum hætti og eru siðirnir æði mismunandi eftir fjölskyldum. Hjá flestum er þó mikið lagt upp úr góðum kvöldverði, gjafir opnaðar eftir klukkan sex og síðan fara margir til miðnæturmessu.

Árið 2010 framkvæmdi Gallup á Íslandi könnun sem sýndi helstu venjur og siði og hve margir tækju þátt í þeim. Þar kom meðal annars fram að 98% landsmanna gefa jólagjafir. Menn gefa ekki bara sínum nánustu gjafir því 70% af fullorðnum íslendingum styrkja góð málefni fyrir eða um jólin. Þar kemur líka í ljós að þeir eldri eru gjafmildari en þeir yngri. Mikill áhugi er á jólaljósum og jólaskrauti en yfir 90% heimila eru skreytt með slíku. Og varðandi jólatrén, þá eru 40% heimila með lifandi jólatré, en 12% heimila með ekkert tré.

Um þriðjungur Íslendinga sækir guðsþjónustu um jólin, eldra fólk oftar en það yngra. Eins sækja fleiri íbúar landsbyggðarinnar messur, eða 41% en 30% íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Það var alkunnur siður á Íslandi áður fyrr að húsfreyjan gekk í kringum bæinn á aðfangadagskvöld og mælti þessi orð: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu“.[1]

Íslensku Jólasveinarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Gamlir jólasiðir“. Þjóðviljinn. 13. desember 1958. Sótt 17. nóvember 2010.

* Almanak Háskóla Íslands; Almanaksskýringar eftir Þorstein Sæmundsson